Fréttir

01.02.2019

1808

Olíublaut álka

Fyrr í vikunni var komið með mikið olíublauta álku til okkar, sem hafði fundist úti í Klauf. Var hún hreinsuð strax næsta dag. Alla jafna notum við þrjú sápuvötn þegar við hreinsum olíublauta fugla en ákváðum að hafa þau fjögur í þetta skiptið vegna þess að olían var þykk og klístrug og mikið af henni.

Ekki aðeins er allt annað að sjá álkuna eftir hreinsunina heldur líður henni greinilega betur. Hún tekur vel við æti og sporðrennir nú hverri loðnunni á fætur annari, en fyrst þegar hún kom þurftum við að þvinga ofan í hana. Verður álkan sett í sundpróf fljótlega og ef hún stenst það verður henni sleppt. Annars þurfum við að hreinsa hana aftur, sem kæmi ekki á óvart miðað við hvernig hún var þegar hún fannst.

Samsetta myndin sýnir álkuna þegar hún kom og síðan að hreinsun lokinni.


Til baka