Fréttir

04.02.2014

104

Sefhæna á vappi

Í gær sáu glöggir vegfarendur óvenjulegan fugl á ferli og hringdu á Sæheima Fiskasafn til að láta vita af ferðum hans. Fyrst sást hann á Stakkagerðistúni, næst fréttist af honum utan við veitingastaðinn SubWay, enda líklega í ætisleit. Þá lá leiðin að Miðstöðinni en þar fældist hann og hljóp niður á Vigtartorg þar sem starfsmenn Sæheima handsömuðu hann.
 

Þegar fuglinn var skoðaður kom í ljós að um var að ræða sefhænu (Gallinula chloropus). Þar sem evrópska sefhænan er mjög áþekk náskyldri amerískri tegund var haft samband við fuglafræðing sem staðfesti að þarna væri evrópska tegundin á ferðinni.
 
Líklega hefur fuglinn verið mjög svangur eftir ferðalagið langa yfir hafið en hann gleypti í sig fisk sem boðið var upp á og kroppaði eitthvað í kornið.
Sefhænur eru útbreiddar um alla Evrópu nema nyrst og eru sjaldséðir gestir hér á Íslandi. Þær lifa í votlendi þar sem er þéttur gróður t.d. í mýrum og við tjarnir. Þær gera sér gjarnan hreiður í reyr eða kjarri náægt vatni. Sefhænur lifa á ýmsum gróðri og smáum vatnadýrum. Sefhænur eru að hluta til farfuglar en þær yfirgefa heimkynni sín yfir vetrartímann á köldustu svæðunum t.d. í Austur Evrópu þar sem vötn leggur á vetrum.
Sefhænu þessari verður haldið á safninu í nokkra daga eða vikur og munum við reyna að fita hana aðeins áður en henni verður sleppt.
 
Til baka