Fréttir

24.01.2014

102

Dularfullt fyrirbæri

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE hefur fært safninu margar góðar gjafir í gegnum tíðina. Bæði lifandi fiska og krabba en eins líka ýmislegt óvenjulegt og sjaldséð sem kemur upp með aflanum. Nýverið komu þeir með óvenjulegt kvikindi sem þeir fengu sunnan við Eyjar. Safnstjóri hafði aldrei séð slíkt áður og leitaði því til Jörundar Svavarssonar prófessors í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands. Hann sagði þetta vera holdýrið Epizoanthus incrustatus, og hefur hann rekist nokkrum sinnum á þessa tegund við rannsóknir sínar á lífríki sjávarins við Ísland.

Holdýr þetta er rándýr og vex iðulega utan á tómum kuðungum, sem kuðungakrabbi flytur síðan inn í og verður fórnarlamb holdýrsins. Á myndinni má sjá kló krabbans standa út úr meltingaropi dýrsins.
 
Holdýr er heiti fylkingar frumstæðra dýra og helsta einkenni þeirra er að þau eru með holrými í miðjum líkamanum þar sem meltingin fer fram og er aðeins eitt op að þessu holrými þar sem fæðan fer inn og úrgangur út. Til holdýra teljast t.d. sæfíflar, marglyttur og kóraldýr.
 
Það er frábært þegar sjómenn eru svona athugulir og meðvitaðir um mikilvægi þess að koma með dýr á safnið. Bæði eflist safnið við hverja slíka gjöf og um leið bætast við upplýsingar
um lífríki sjávarins umhverfis Eyjar. Í sumum tilvikum hefur jafnvel verið um að ræða tegundir sem eru að finnast í fyrsta skipti við Ísland. Hitastig sjávarins hefur farið hækkandi og því eru að finnast hér tegundir sem eru að færa norðurmörk útbreiðslusvæðisins enn norðar.
Til baka