Fréttir

14.12.2013

110

Brúðöndinni sleppt

 Brúðöndin sem fannst um mánaðarmótin í garði á Heimaey hefur verið í góðu yfirlæti í Sæheimum - Fiskasafni. Hún var slöpp og horuð við komuna á safnið og örugglega aðframkomin eftir hið langa ferðalag frá Bandaríkjunum. 

 Hún tók fljótlega við æti og jafnaði sig furðu vel á nokkrum dögum. Þar sem hún var orðin nokkuð spræk var ákveðið að sleppa henni þegar frosthörkunum linnti og var henni gefið frelsi í veðurblíðunni á þriðjudaginn. Farið var með hana á bryggjuna við Skansinn en þar hafði sést önnur brúðandarkolla nokkrum dögum áður sem hafði slegist í för með æðarfuglum.
Brúðöndin tók strax flugið og var örugglega frelsinu fegin þó hún eigi eftir að sakna gómsæta brauðsins sem var á boðstólunum á fiskasafninu.
Til baka