Fréttir

04.12.2013

89

Brúðönd

 Nýverið var komin með á safnið  sjaldséðan fugl.  Um var að ræða brúðönd (Aix sponsa), sem er algengur fugl í skóglendi við vötn í austanverðri Norður Ameríku og kallast þar Wood duck. Tegundin er afar sjaldséð á Íslandi og er þetta sjötta skráða brúðöndin á landinu og fyrsti kvenfuglinn af tegundinni sem vitað er um.

 


 Brúðöndin fannst í garði við Faxastíg og var það Dagur Arnarsson handboltakappi með meiru sem fann hana og kom með hana á Fiskasafnið. Hann sagði hana hafa verið mjög slappa og hægt að ganga að henni og taka upp. Það tókst að koma í hana æti og hresstist hún fljótlega eftir það.  Hún er ennþá mjög horuð eftir þetta langa og stranga ferðalag og mun henni verða haldið í nokkra daga og gefið að éta áður henni verður sleppt.

Öndin hefur étið ágætlega og hefur gætt sér á ýmis konar korni, furuhnetum og þriggja korna brauði frá Arnóri bakara.

Fuglafræðingar segja þetta vera fugl á fyrsta ári og líklega hefur hún borist til landsins með sterkum vindum, en undanfarið hafa djúpar lægðir að vestan gengið yfir landið.

Ingvar Atli Sigurðsson hjá Náttúrustofu Suðurlands tók myndina af öndinni. 

 

Til baka