Fréttir

01.03.2013

Hremmingar nornakrabba

Í fyrradag birtum við frétt af nornakrabba í skelskiptum. Þetta ferli tekur mikla orku frá krabbanum og ekki er óalgengt að þeir drepist meðan á því stendur. Krabbinn okkar lifði skiptin af en meðan á þeim stóð varð fyrir árásum annarra nornakrabba og sæfíflanna sem eru í sama búri. Náðu þeir að slíta af honum nokkra fætur. Alla jafna bítur það ekki á krabbana að lenda í sæfíflunum því að skelin ver þá fyri árásum þeirra. En eftir skelskipti þegar þeir eru enn mjúkir verða þeir greinilega auðveld bráð.
 

 Þegar krabbinn hefur losað sig við gömlu skelina belgir hann sig út með vatni og ný skel tekur að myndast. Fyrst í stað er hann alveg mjúkur viðkomu en eftir nokkra klukkutíma er komin þunn skán utan um hann. Það getur tekið um fjóra sólarhringa fyrir skelina að verða fullhörðnuð. Á meðan er krabbinn mjög viðkvæmur. 
Eins og sést á myndunum hér fyrir neðan víla aðrir krabbar ekki fyrir sér að ráðast á krabbann meðan hann er í þessu ástandi og þarf stöðugt að vakta hann svo hann fái frið. Trjónukrabbinn lét það ekki aftra sér þó að nornakrabbinn væri mörgum sinnum stærri.
 
 
Til baka