Fréttir

12.02.2013

Töskukrabbi

Kafarar frá Köfunarþjónustunni færðu safninu lifandi töskukrabba (Canser pagurus), sem þeir fundu við vinnu sína við Herjólfsbryggju. Krabbinn var í góðu ástandi enda að koma af litlu dýpi og ekki búinn að velkjast í veiðarfærum.
Krabbinn fékk frekar óblíðar viðtökur á Fiskasafninu en á myndinni hér fyrir neðan má sjá leturhumar ráðast á hann og var krabbinn snöggur að flýja þegar hann fékk að kenna á klóm humarsins.
Einn töskukrabbi er til uppsettur á safninu sem færður var safninu á upphafsárum þess.

Töskukrabbar eru mjög sjaldgæfir hér við land og finnast hérna aðeins sem flækingar. Útbreiðslusvæði þeirra er við strendur Vestur-Evrópu frá Lófóten í norðri og alveg að Afríkuströndum og Miðjarðarhafi. Sjávarhiti hér við suðurströndina ætti þó að henta þeim ágætlega. Töskukrabbar eru talsvert veiddir víða á svæðinu en mest þó við Bretland. Þeir eru aðallega veiddir í gildrur.
Töskukrabbar halda sig á grunnsævi niður á 100 metra dýpi og eru nokkuð hreyfanlegir. Dæmi eru um að kvendýr ferðist 300 km til að komast á gotstöðvarnar. Ferðalagið tekur þó 12-18 mánuði. Þær hrygna á haustin og geyma eggin undir hala sínum í um sjö mánuði. Fyrst eftir klak eru lirfurnar sviflægar en þegar þær hafa náð ákveðnum þroska koma þær sér fyrir í þaraskógi og dvelja þar í uppvextinum. Kynþroska nær krabbinn 5-6 ára gamall.  Fæða töskukrabba er margvísleg en mest étur hann fiska, skeldýr og orma en gerist líka stundum hrææta.
Heimild: Anton Galan og Hrafnkell Eiríksson: Náttúrufræðingurinn 3-4, 2009. Bls 101-106
 
 
Til baka