Fréttir

13.09.2012

Tregadúfa

Fyrir nokkrum dögum fannst tregadúfa (Zenaida macroura)  í Vestmannaeyjum. Heimkynni tegundarinnar er í Norður- og Mið Ameríku. Þar er hún mjög algeng og kallast Mourning dove, en nafnið er tilkomið vegna þess að söngur karlfuglsins er angurvær og tregafullur. Líklegt má telja að fuglinn hafi borist hingað með sterkum vindum. Tregadúfa er mjög sjaldgæf í Evrópu og hefur aðeins einu sinni fundist áður á Íslandi en það var í Vestmannaeyjum í október 1996.
 

Það var köttur búsettur í Hrauntúni sem gómaði dúfuna og náði eigandi hans dúfunni úr klóm kattarins og kom með hana á Fiskasafnið til aðhlynningar. Það var snarlega kallað á fuglafræðing til að greina fuglinn. Þetta reyndist vera tregadúfa á fyrsta ári. Hún var mjög horuð og lét nokkuð á sjá bæði eftir ferðalagið langa og kynnin af kettinum. Hún tók þó fljótlega að matast og fékk sér vatnssopa sem borinn var fram í sparistelli Fiskasafnsins.
 
Á myndinn hér sem Ingvar Atli hjá Náttúrustofu Suðurlands tók af dúfunni sést vel eitt helsta greiningareinkenni tegundarinnar, en það er blár hringur um augun.
 
Til baka