Fréttir

31.08.2012

Pysjutíminn hafinn

Föstudaginn 24. ágúst var komið með fystu pysju sumarsins í Pysjueftirlit Sæheima - Fiskasafns. Pysjan vóg 242 grömm og vænglengdin var 147 mm. Núna viku síðar eru komnar 26 pysjur til viðbótar. Eru þetta jafn margar pysjur og skiluðu sé í Pyjueftirlitð allt tímabilið í fyrra, enda var varpárangur lundans mjög slakur þá.
Þeir sem hafa fylgst með varpárangri lundans í ár segja  ástandið sé mun betra núna, þó að það sé langt frá því að vera gott,

Margar pysjanna eru mjög smáar og er meðalþyngdin aðeins 240 grömm, en talað hefur verið um að lífslíkur pysjanna minnki talsvert séu þær undir 260 grömmum að þyngd. Þær allra minnstu eiga nánast enga möguleika á að lifa og því höfum við brugðið á það ráð að halda eftir mjög léttum pysjum og gefa þeim æti í nokkra daga áður en þeim er sleppt. Þetta getur fólk líka gert heima og fengið loðnu hjá okkur á safninu til að gefa pysjunum.

Nokkur atriði er gott að haf í huga þegar pysjur eru aldar áður en þeim er sleppt. Það fer t.d. ekki vel með pysjurnar að vera margar saman í kassa og best er að hafa þær í einbýli. Gott er að setja dagblö í botn kassans og skipta þeim út nokkrum sinnum á dag. Það er einnig mikilvægt að handfjatla pysjurnar sem minnst, því við það missa þær fituna úr fiðrinu, sem er þeim svo mikilvæg til að halda sér þurrum í sjónum. Missi þær fituna verða þær blautar inn að skinni og missa þannig alla einangrun auk þess sem þær verða of þungar til að haldast á floti.

Viljum við beina því að fólki að koma með pysjurnar til okkar í vigtun og vængmælingu eða vigta pysjurnar heima áður en þeim er sleppt og láta okkur fá tölurnar. Þannig getum við fylgst með þeim breytingum sem verða á milli ára í fjölda pysja og ástandi þeirra. Skráningarblöð má fá á Fiskasafninu, Sparisjóðnum, Skýlinu og Kletti en einnig má sækja eyðublað hér og á heimasíðu Þekkingarseturs Vestmannaeyja (www.setur.is).

 
Til baka