Fréttir

16.12.2011

Nornakröbbunum fjölgar

Þeir á Kristbjörginni VE 70 hafa verið mjög duglegir í haust að færa Fiskasafninu ýmislegt skemmtilegt sem flækist upp með aflanum. Meðal annars hafa þeir komið með fjóra nornakrabba á síðustu dögum. Nornakrabbar eru sjaldgæfir við strendur Íslands en síðustu ár hefur þeim fjölgað talsvert og fjallað var um það á heimasíðu safnsins að fjórir nornakrabbar hafi komið árið 2010 og var það óvenju mikill fjöldi. Fram að því voru þeir einn til tveir á hverju ári. Aldrei áður hafa safninu borist fjórir nornakrabbar á einni viku.

Auk nornakrabbanna hafa þeir fært safninu skessukrabba, trjónukrabba, tindabykkjur, sæbjúgu ýmiskonar og óvenjulega krossfiska. Einnig hafa þeir fært safninu stóra smokkfiska í tvígang en eitthvað voru þeir viðkvæmir fyrir flutningunum og drápust þeir báðir fljótlega eftir að þeir komu á safnið.
 
Það er mikilvægt fyrir starfsemi safnsins þegar sjómenn eru vakandi fyrir því að koma með óvenjulegar lífverur til safnsins. Við kunnum þeim á Kristbjörginni bestu þakkir fyrir sendingarnar í haust.
 
Til baka