Fréttir

30.11.2011

Eyruglu bjargað undan hröfnum

Á laugardag var eyruglu bjargað undan hópi hrafna sem réðust á hana hver á fætur öðrum. Uglunni var ekið í leigubíl á Fiskasafnið. Þar var hún skoðuð og virtist vera heilbrigð og ekki með sár eftir hrafnana. Því var ákveðið að sleppa henni við Hraunskóg þar sem tvær eyruglur hafa sést á flugi síðustu vikur. Uglan var frelsinu fegin.
 

Á Vísindavefnum (http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=3634) má finna eftirfarandi upplýsingar um eyruglur :
 
Eyruglur (Asio otus) lifa á norðlægum svæðum í Evrópu og Rússland og allt austur til Japan. Hún finnst einnig á tempruðum svæðum Norður-Ameríku. Í Norður og Austur-Afríku eru til staðbundnir stofnar.

Í sumar (árið 2003) var í fyrsta sinn staðfest varp eyruglu hér á landi, nánar tiltekið í Þrastaskógi í Grímsnesi.

Eina uglutegundin sem verpir að staðaldri hér á landi er branduglan. Hún er aðeins stærri en eyruglan og kjörsvæði hennar er kjarrlendi en eyruglan kann best við sig í skógum. Því má ætla að aukin skógrækt hin síðari ár auki líkurnar á því að eyruglur reyni hér varp og upp komi vænlegur varpstofn. Eyruglan er ryðrauðari en branduglan og á kvið hennar eru þverrákóttar rendur.

Hæð uglunnar er um 35-40 cm og eru kvenfuglarnir talsvert stærri. Þeir vega 260-435 g en karlfuglarnir 220-305 g. Vænghaf fuglanna er frá 90-100 cm. Eyruglan dregur nafn sitt af áberandi fjaðraskúf á höfðinu sem líkist eyrum þegar hann er reistur.


 
Til baka