Fréttir

15.11.2011

Tyrknesk súpa og hummus á Fiskasafninu

Þann merkilega dag ellefta ellefta var opinn fyrirlestur á Fiskasafninu þar sem sagt var frá ýmsum uppgötvunum þeirra Kristjáns Egilssonar og Gísla Óskarsonar á atferli dýranna á safninu.
 
Vel var mætt á fyrilesturinn og gæddu gestir sér á tyrkneskri linsubaunasúpu og brauði með hummus frá Arnóri bakara.

Sagt var frá því að árið 1989 barst safninu hvít steinbítshrygna. Það eitt var mjög óvenjulegt því að ekki aðeins eru hvítingjar mjög sjaldgæfir heldur eiga þeir mjög erfitt uppdráttar í náttúrunni og lifa því sjaldnast fram á fullorðinsár. Í desember sama ár hrygndi hún í einu af búrum safnsins og náðu eggin að frjóvgast. Þeir Kristján og Gísli fylgdust með hrygningunni og kvikmynduðu. Þannig náðu þeir á kvikmynd þegar hængurinn tók yfir vörslu hrognaklasans. Það að hængurinn annist um hrognin var ekki vitað fyrr en þeir urðu vitni að því. Stutt kvikmyndabrot frá þessu atviki var sýnt.
 
Stutt kvikmyndabrot sem sýnir kuðungakrabba verja æti fyrir sprettfiskum var sýnt og má segja að kuðungakrabbinn kom verulega á óvart. Það sást best hvernig hann bar sig að þegar myndskeiðið var sýnt hægt.
 
Einnig var sýnd kvikmynd af hrygningaratfeli loðnu og klaki eggja. En nemendur Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum höfðu unnið verkefni um þetta efni fyrir nokkrum árum í tengslum við Fiskasafnið og Þekkingarsetur Vestmannaeyja. Nemendurnir höfðu einnig skoðað hvernið koli bregst við hljóðum sem heyrast frá öðrum kolum þegar þeir matast og var einnig sýnt frá því verkefni.
 
 
Til baka