Fréttir

27.09.2011

Pysjurnar fáar og seint á ferð

Pysjueftirlitið svokallaða hefur verið starfrækt síðan árið 2003. Bæjarbúar hafa þá komið með pysjur sem finnast í bænum á Fiskasafnið til að vigta þær og mæla lengd vængjanna áður en þeim er sleppt til sjávar.  

Þann 21. ágúst var komið með fyrstu pysju sumarsins á safnið. Um var að ræða pínulítinn hnoðra sem fannst við Heimaklett. Líklega hefur hún farið út úr holunni sinni og oltið einhvern spöl niður brekkuna og síðan ekki komist  til baka. A.m.k. flaug hún ekki langt á litlu vængstúfunum sínum sem voru aðeins nokkrir sentimetrar á lengd.
 
Fyrsta bæjarpysjan sem hafði flogið að ljósunum í bænum fannst svo ekki fyrr en þann 16. september. Var hún ágætlega þung, eða 287 grömm. Í venjulegu ári væri þessi dagsetning líklegri sem lokadagur pysjutímanns en ekki upphafsdagur hans. Síðan hafa verið að týnast inn á safnið einstaka pysjur og eru þær núna 23 samtals. Þó að pysjurnar í ár séu bæði fáar og seint á ferðinni eru þær samt flestar fullgerðar og vel í holdum.
 
Til baka