Fréttir

15.09.2011

Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september. Í tilefni dagsins verður upplestur á safninu úr lundaveiðimannatali Árna Árnasonar frá Grund og skrifum hans um veiðimennsku og úteyjalíf. Á næsta ári kemur út bók sem byggir á skrifum Árna og í ritsjórn  hennar eru þeir Erpur Hansen, Kári Bjarnason, Marinó Sigursteinsson og Sigurgeir Jónsson. Eftir upplesturinn verður opið hús á Fiskasafninu og á Surtseyjarstofu til kl. 16:00.
 

Þetta er í fyrsta sinn sem dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur, en haustið 2010 ákvað ríkisstjórnin að tileinka þann 16. september íslenskri náttúru og undirstrika þannig mikilvægi hennar. 16. september er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar en hann hefur lagt mikið af mörkum til verndunar íslenskrar náttúru og að opna augu almennings fyrir mikilvægi hennar og fegurð. 

 

Á vef umhverfisráðuneytisins er að finna eftirfarandi umfjöllun um málið sem birist  1.10.2010 og finna má á slóðinni http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1694

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, verði héðan í frá dagur íslenskrar náttúru. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lagði fram tillögu þess efnis á fundinum. Hún segir ákvörðunina vera viðurkenningu á framlagi Ómars til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða um íslenska nátttúru.

Ómar Ragnarsson hefur á undanförnum áratugum unnið framúrskarandi og óeigingjarnt starf á fjölmörgum sviðum. Hahttp://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1694nn er landsþekktur fyrir störf sín í fjölmiðlum og hefur gert náttúru Íslands einstök skil í sjónvarpi. Ómar er fjölfróður á sviði íslenskrar landa- og náttúrufræði og hann hefur nýtt þessa þekkingu við framleiðslu fjölda sjónvarpsþátta sem hafa opnað augu Íslendinga fyrir stórbrotinni fegurð Íslands. Hann hefur sýnt þjóðinni afskekkta staði sem fáir þekktu fyrir og hann hefur greint frá náttúruundrum, jarðskjálftum og eldgosum í máli og myndum.

Dagur íslenskrar náttúru verður í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur 16. september 2011. Þá mun umhverfisráðherra í fyrsta skipti veita viðurkenningu sem kennd verður við Ómar Ragnarsson. Viðurkenningin verður veitt fyrir vandaða og eftirtektarverða umfjöllun eða fræðslu um náttúru Íslands og hana má veita fjölmiðli jafnt sem einstökum blaða- og fréttamönnum, dagskárgerðarmönnum, textahöfundum, ljósmyndurum og kvikmyndagerðarmönnum. 

Til baka