Fréttir

10.08.2011

Haftyrðill í sumarbúningi

Fyrr í sumar var komið með haftyrðil í sumarbúningi á Fiskasafnið.


Haftyrðillinn (Alle alle) fannst á Höfðaveginum og eru yfir 30 ár síðan haftyrðill í sumarbúningi fannst síðast í Vestmannaeyjum.  Þeir eru mun algengari hér yfir vetrartímann en þá hrekjast þeir oft hingað og sjást þá á sjónum eftir vond veður, jafnvel í stórum flotum. Einstöku sinnum hrekjast þeir upp á land í stormum og hefur t.d. fundist haftyrðill við Laugarvatn.

Haftyrðlar eru hánorrænir svartfuglar og langminnstir þeirra eða á stærð við skógarþröst.  Á norðanverðu Íslandi eru þeir við syðstu útbreiðslumörk sín og vegna hlýnandi árferðis hefur stofninn að mestu horfið héðan.  Örfá pör hafa orpið í Grímsey.

Til baka