Fréttir

21.06.2011

Varmasmiður finnst í Eyjum

Trausti Mar Sigurðsson kom með varmasmið (Carabus nemoralis) á safnið þann 15. júlí. Þetta er fysti varmasmiðurinn sem vitað er um í Vestmannaeyjum og fannst hann í garði við Foldahraun. Líklegt má telja að hann hafi borist með plöntum frá Hveragerði, en þar hafa varmasmiðir verið nokkuð algengir  undanfarin ár. Sérstaklega hafa þeir haldið sig í görðum nálægt hverasvæðum og nafnið varmasmiður komið til vegna þess.

Varmasmiðir tilheyra bjölluættbálki (Coleoptera) og eru skyldir járnsmiðum, sem eru algengir um allt land og flestir þekkja.  Varmasmiðir eru þó auðgreindir frá járnsmiðum því þeir eru miklu stærri, eða um 22 mm á lengd en járnsmiðir um 10 mm. Þrátt fyrir stærðina eru varmasmiðir mestu meinleysisgrey og engin ástæða til að hræðast þá.
Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna mikinn fróðleik um pöddur sem Erling Ólafsson skordýrafræðingur hefur umsjón með. Þar eru upplýsingar um pöddur í náttúru Íslands, görðum,  húsum og um nýja landnema hér á landi. Við mælum eindregið með þessari síðu fyrir allt pödduáhugafólk en slóðin inn á hana er www.ni.is/poddur . Þar má m.a. finna eftirfarandi upplýsingar um varmasmiði:
Lífshættir
Á heimaslóðum í Evrópu finnst varmasmiður við fjölbreytileg skilyrði og er þar algengastur stóru smiðanna. Hann heldur sig í allskyns þurrlendi með frjósömum jarðvegi, í opnum skógarbotnum, skrúðgörðum og húsagörðum, bæði í byggð og villtri náttúru. Ræktarlönd og garðyrkja henta honum vel. Varmasmiður æxlast á vorin eftir vetrardvala, lirfurnar vaxa upp fram eftir sumri og ný kynslóð bjallna lítur dagsins ljós á haustin. Þá verður þeirra mest vart en algengt er að skyldar tegundir séu mest á ferli á haustin þegar þær leita sér að hentugum stöðum til vetrardvala. Varmasmiður athafnar sig að nóttu til, bæði lirfur og bjöllur, og veiðir önnur smádýr sér til matar, t.d. snigla, maðka og skordýr.
Almennt
Í október 1999 fannst varmasmiður á hlaupum á gangstétt í Hveragerði og á næstu árum fannst tegundin í auknum mæli þar í bæ og hafði greinilega komið sér þar vel fyrir. Líklegt má telja að hann hafi borist til Hveragerðis með innfluttum garðyrkjuvörum og þar hafa að sjálfsögðu mætt honum afar hentug skilyrði, enda um einstakt kjörlendi að ræða.
Landnám varmasmiðs er ekki til að hafa áhyggjur af. Frekar ættu garðræktendur að fagna honum því hann gæti orðið virkur í baráttunni við að halda sniglum í skefjum. Við fyrstu kynni af bjöllunni líst fólki oft ekki á blikuna því varmasmiður er mun stærri padda en fólk á að venjast, um 22 mm á lengd. Varmasmiðir sem slæðst hafa inn í hús hafa jafnvel verið grunaðir um að vera kakkalakkar og valdið með því óhug.
Varmasmiðurinn er með tiltölulega slétt yfirborð, hálfgljáandi og breytilegt á lit eftir því hvernig ljósið fellur á, bronsleitt, brassgrænt, fjólurautt. Fullvaxin lirfa er um þrír cm á lengd, svarbrún og sterkleg.
Til baka