Fréttir

08.02.2011

52

Golla sleppt

Laugardaginn 5. febrúar var útselskópnum Golla sleppt í Höfðavík. Nokkur umræða hefur átt sér stað um þessa aðgerð og menn misjafnlega sáttir við aðgerðina. Yfirleitt hefur umræðan þó farið fram á jákvæðum nótum og menn helst vilja halda Golla áfram í mannheimum vegna þess hve kópurinn er skemmtilegur. Golli fannst illa haldinn í fjöru í Breiðdalsvík og var það mat manna þar að kópurinn ætti ekki langt eftir. Haft var þá samband við starfsmenn Sæheima sem samþykktu að taka kópinn að sér. Kópnum var síðan flogið til Vestmannaeyja með flugfélaginu Ernir þar sem hann var í umönnun hjá starfsmönnum Sæheima allt þar til honum var sleppt s.l. laugardag. Hér á eftir eru teknar saman upplýsingar um atferli útsels sem skýra meðal annars afhverju við teljum að það hafi verið rétt að sleppa Golla.

Atferli dýra er jafn fjölbreytt og tegundirnar eru margar. Þó svo að útselir tilheyri hópi spendýra þá er ekki þar með sagt að tegundin hugsi eins vel um afkvæmi sín og t.d. maðurinn. Útselsurtur eru í reynd engar fyrirmyndarmæður. Allavega í samanburði við manninn.
Við Ísland kæpa útselir frá september til loka nóvember. Eftir kæpingu fóðrar urtan síðan haustkópinn í aðeins 15-20 daga. Á þessum tíma safnar kópurinn spiki og þyngist um 1-2 kg á dag.  Í lok þess tíma sem urtan er með kópinn á spena hefst fengitími hjá fullorðnu dýrunum og urtan hreinlega yfirgefur kópinn. Kópurinn þarf þá að standa á eigin fótum og bjarga sér sjálfur. Feldurinn er enn hvítur eða kremaður að lit og með löng og mjúk hár. Kópurinn lifir nú á uppsöfnuðum fituforða og heldur til í fjörunni á þurru landi. Tveimur til fjórum vikum eftir fæðingu missir kópurinn hvíta feldinn og liturinn verður gráflekkóttur og snöggur.  Kópurinn ráfar einn um á ströndinni en loks einni til fjórum vikum eftir að móðirin yfirgefur kópinn hefur hann kjark til að skella sér í sjóinn tilbúinn að takast á við þær hættur sem þar er að finna.
Nú tekur við sá tími sem kópurinn þarf að læra að elta bráðina, halda henni og sporðrenna henni í bókstaflegri merkingu. Þetta er sá tími sem hann þarf að reiða sig á eðlislæga hæfileika sem eru prentaðir í erfðaefni sem hann fékk í gjöf frá foreldrum sem fósturvísir. Foreldrarnir, ólíkt okkur mönnunum, hafa um annað að hugsa en uppeldi barnanna. Samkvæmt rannsóknum á útsel við Kanada og Bretlandseyjar er dánartíðni útselskópa 30-55% á fyrsta æviári og á þeim tíma frá því að móðirin yfirgefur kópinn og þar til hann fer að bjarga sér á eigin spýtur er dánartíðnin enn hærri.  
Eftir að kóparnir fara í sjóinn tekur við rúmlega tveggja mánaða tímabil þar sem útselurinn er mest megnis einn á ferð við veiðar. Að þeim tíma loknum eða snemma vors koma selirnir saman að nýju og mynda stóra hópa eða fylkingar og atferli þeirra breytist töluvert.  
Það er því ekkert sældarlíf að vera útselskópur, samkeppnin í náttúrunni er hörð og eflaust væru líkurnar á að Golli nái að verða fullorðinn selur meiri ef við héldum honum í mannheimum. En villta eðli Golla var klárlega til staðar og þær aðstæður sem við höfðum að bjóða honum voru engan veginn fullnægjandi fyrir þarfir hans. Honum var sleppt í góðu ástandi og möguleikar hans á að lifa af úti í náttúrunni mun meiri nú en þegar hann var tekinn í fóstur.
Til baka