Fréttir

30.11.2010

52

Kópurinn braggast

Í byrjun nóvember fannst útselskópur við Breiðdalsvík sem var illa á sig kominn og grét hástöfum. Finnendur hans gáfu honum volgan rjóma og hresstist hann talsvert við það. Þeir höfðu samband við Fiskasafnið í Vestmannaeyjum og óskuðu eftir að þar yrði kópurinn fóstraður áfram. Flugfélagið Ernir flaug með kópinn endurgjaldslaust til Eyja. Þar tók Georg Skæringsson á móti honum og kom honum fyrir í húsnæði Þekkingarsetursins á hæðinni fyrir ofan Miðstöðina. Þar hefur kópurinn aðgang að hreinum sjó til að synda í og einnig lítilli eyju sem hann getur legið upp á.

 
Kópurinn fékk nafnið Golli í höfuðið á þeim Gogga og Palla en þeir hafa í sameiningu séð  um uppeldið. Það veitir ekki af tveimur karlmönnum til að gefa honum að éta, því hann er matvandur mjög og alveg þrælsterkur. Þeir fengu leiðbeiningar um matargjafir frá Húsdýragarðinum og einnig frá selasetri í Friedrichskoog í Þýskalandi.
  
Þegar kópurinn fannst var hann alþakinn ljósum hárum en þannig eru útselskópar við fæðingu og   fyrstu vikurnar. Þeir missa hárin eftir nokkrar vikur og fá þá sama lit og fullorðnir selir. Á þessum tíma eru kóparnir á spena og þyngjast mjög mikið. Þeir liggja á landi í u.þ.b. fjórar vikur eftir fæðingu. Urturnar koma á land á hverju flóði og gefa þeim að sjúga en virðast annars halda sig í sjónum við staðinn þar sem kóparnir liggja uppi. Að fjórum vikum liðnum yfirgefur urtan kópinn. Þá er hann búinn að missa ljósu hárinn og farinn að synda og kafa í flæðarmálinu. Hann yfirgefur þó ekki kæpistöðvarnar fyrr en nokkru seinna.
 
Miðað við þessar upplýsingar (úr bókinni Villt íslensk spendýr frá 1993) og að Golli missti ljósu hárin á þremur vikum þá hefur hann líklega verið um viku gamall þegar hann fannst og ætti núna að vera tilbúinn til að fara í sjóinn og bjarga sér upp á eigin spýtur.
 
Til baka