Fréttir

08.09.2010

8

Sæsteinsuga send á Fiskasafnið

Þann 26. ágúst veiddi Hvalur 8 RE 388 langreið, sem reyndist vera hundraðasti hvalurinn sem veiddur er í ár af fyrirtækinu Hval hf. Við langreiðina var föst sæsteinsuga. Starfsmenn Hvals h.f. losuðu hana af hvalnum og var hún sett í kar sem fyllt var með sjó. Kristján Loftsson forstjóri fyrirtækisins sendi hana með Herjólfi til okkar á Fiskasafninu. Var hún hin hressasta við komuna og var svo tillitssöm við gesti safnsins að festa sig á rúðuna í búrinu, þannig að hringlaga munnurinn með öllum beittu tönnunum blasti við.

Sæsteinsugur eru mjög óvenjuleg dýr og gaman að fá eintak á safnið. Þær lifa af því að sjúga blóð úr fiskum og hvölum og því verður það aðeins flóknara að gefa henni að éta en öðrum dýrum sem á safninu eru.
 
Sæsteinsugur (Petromyzon marinus) eru af flokki Hringmunna (Cyclostomata), sem eru frumstæðasti hópur hryggdýra. Þeir greina sig frá fiskum m.a. með því að þá vantar kjálka, beinkenndar tennur og samstæða ugga. Þeir hafa hvorki herðarblöð né rifbein og hryggurinn er einungis strengur umvafinn slíðri án hryggjarliða. Auk þess eru stoðvefir brjóskkenndir og hreistur vantar.
Um 30 tegundir steinsuga þekkjast og finnast þær bæði í fersku vatni og sjó. Aðeins ein þessara tegunda, sæsteinsugan, hefur fundist á Íslandsmiðum og þá sem flækingur.
Sæsteinsugan lifir í sjó og finnst hún frá 2m dýpi niður á 1100m. Í sjó leitar hún sér fæðu, en heldur í ósalt vatn til hrygningar. Hún hefur ekki fundist í íslenskum ám. Í sjónum lifir hún á að sjúga blóð úr fiskum og hvölum. Kemur þá sogmunnur hennar með beittum tönnum að góðu gagni. Sæsteinsugan gefur frá sér efni sem hindrar storknun blóðs fórnardýranna. Auk blóðsins tekur hún hold og roð með. Smáfiskum sem hún leggst á getur hún riðið að fullu. 
 
(upplýsingrar úr bókinni Íslenskir Fiskar eftir Gunnar Jónsson frá 1983)
Til baka