Túnfífill

Túnfífill er stórvaxin, fjölær jurt af körfublómaætt. Hann er mjög algengur um allt land, bæði í túnum, úthaga og til fjalla.  Honum er oftast skipt í nokkrar tegundir, en litlar upplýsingar eru til um aðgreiningu þeirra eða útbreiðslu hér á landi.  Til fjalla nær fífillinn upp í um 1000 m hæð, og vex þar í dældum eða undir bökkum.

Blóm túnfífilsins standa í stórum, þéttum körfum sem eru stakar efst á ógreindum, blaðlausum, víðum stöngli. Blómin eru fagurgul með fimm tönnum í oddinn. Blómgast í maí til júní. Karfan lokast eftir blómgun á meðan fræin þroskast, og er orðin að biðukollu þegar hún opnast aftur. Aldinin hafa hvítan svifkrans á stilk sem er tvöfalt til þrefalt lengri en fræið. Stöngullinn er ýmist ofurlítið lóhærður eða hárlaus, með víðu miðholi, 3-6 mm á breidd. Blöðin eru öll stofnstæð, afar breytileg að gerð, oftast fjaðurflipótt eða skipt, með óreglulega gróftennta blaðhluta, stundum nær heilrend. Bæði stöngull og blöð hafa hvítan mjólkursafa.

Túnfífillinn er mjög algengur um alla Heimaey og er mjög áberandi í náttúru eyarinnar. 

Go back