Tófugras

Tófugras er af fjöllaufungsætt og er algengasti burkninn á Íslandi, og sá eini sem finnst í öllum landshlutum. Einna sjaldgæfast er það þó á Miðhálendinu. Til fjalla fer það oft upp í 7-800 m hæð. Tófugrasið vex einkum í urðargjótum, klettaskorum, hellisskútum og hraunsprungum, oftast í nokkrum skugga. 

Tófugrasið er miðlungsstór burkni, 10-30 sm á hæð, vex upp af láréttum eða uppsveigðum, fremur stuttum jarðstöngli. Blöðkurnar eru á alllöngum stilk sem oft er þriðjungur til helmingur af lengd blaðsins, sumargrænar. Blöðkurnar eru margskiptar, tví- til þrífjaðraðar. Smáblöð eru flipótt með 5-12 kringlóttum gróblettum í tveim röðum á neðra borði. Gróhula sést til hliðar við þá á meðan þeir eru ungir, en hverfur við meiri þroskun, og þá renna gróblettirnir stundum meira eða minna saman.

Tófugras finnst víða á Heimaey og hefur fundist í Surtsey.

Go back