Njóli

Njóli er stórvaxin jurt af súruætt, um metri á hæð eða meira.  Njólinn er aðfluttur til landsins, líklega um leið og landið var numið. Hann er enn í dag langmest umhverfis bæi og í ræktuðu landi. Inn til landsins fylgir útbreiðsla njólans aðeins byggðinni, og nær hann um 400 m hæð.

Njólinn er fjölær jurt með gáruðum, gildvöxnum (5-15 mm) stöngli og litlum grænum eða lítið eitt rauðleitum blómum í samsettum, klasaleitum blómskipunum ofan til á stönglinum og í blaðöxlum neðar. Blómin eru leggjuð, tvíkynja eða sum einkynja í sambýli. Blöðin eru mjög stór15-30 sm löng og 5-10 sm breið, lensulaga og aðeins hrokkin í jaðrana.  

Njólinn er auðþekktur frá öðrum íslenskum plöntum, enda er engin planta af súruætt nálægt því eins stórvaxin og hann. Hins vegar er erfitt að þekkja hann frá sumum erlendum tegundum, sem stöku sinnum sjást hér á landi.

Njóli er algeng planta á Heimaey og er nokkuð áberandi í umhverfinu. Einnig gerir hann garðeigendum oft lífið leitt. Njóli hefur fundist í Surtsey.

Go back