Maríustakkur

Maríustakkur eða Hlíðamaríustakkur er af rósaætt og algeng planta um allt land. Hann vex í margs konar gróðurlendi en einkum í grasbollum eða blómdældum, oft í giljum meðfram lækjum. 

Laufblöðin eru stór og áberandi, dökk græn, en blómin eru ljósgræn, smá.  Blaðstilkarnir eru með útstæðum hárum. Afbrigðið var.  vestita hefur þétthærða blaðstilka, og úthærða stöngla og blómleggi.

Maríustakkurinn hefur stundum einnig verið nefndur döggblaðka, vegna daggardropa sem vilja setjast á hin stóru blöð hans í náttfalli og þoku. Blóm maríustakksins vantar krónublöð, en hafa fjögur gulgræn bikarblöð og á milli þeirra mynda utanbikarblöðin mjóa flipa.

Af maríustökkum eru til nokkrar tegundir auk hlíðamaríustakks. Blöðin eru breytileg í útliti, hæring þeirra er mismunandi, en blómin nánast eins á öllum. Algengastur auk hlíðamaríustakks er hnoðamaríustakkur, sem hefur aðlæg hár á blaðstilkunum. Nokkru fátíðari er silfurmaríustakkur, sem nánast eingöngu vex á láglendi. Aðrar tegundir, eins og engjamaríustakkur og brekkumaríustakkur, eru sjaldgæfar. Garðamaríustakkur er ræktaður í görðum, en hefur í allmörgum tilfellum slæðst út frá þeim og vex þá villtur utan garða.

Maríustakkur vex víða í Vestmannaeyjum, bæði á heimalandinu og í úteyjum og hefur einnig fundist í Surtsey.

Go back