Krækilyng

Krækilyng er ein af algengustu jurtum landsins og vex í alls konar mólendi.  Það er oft fremur á berangri en á skjólríkum stöðum. Krækilyngið er mjög harðgert, og er ekki óalgengt að finna það allt upp í 1200 m hæð í fjöllum.

Krækilyng er jarðlægur smárunni með skriðulum eða uppsveigðum greinum. Blómin eru örsmá, lítið áberandi, þrídeild, umkringd nokkrum kringlóttum, rauðum háblöðum. Krónublöðin eru dökkrauð. Í blóminu er ein fræva sem verður að berkenndu steinaldini með 6-9 litlum steinum utan um fræin. Aldinið er í fyrstu grænt, verður síðan rautt og að lokum svart við þroskun, 5-8 mm í þvermál. Blöðin eru þéttstæð og striklaga. Rendur blaðsins eru niðurorpnar þar sem þær mætast. Það myndar því hólk og er áberandi hvít rönd á neðra borði þar sem blaðrendurnar koma saman. Í þessu holrými getur blaðið því geymt raka og þolir plantan því vel þurrk.

Krækilyng vex víða á Heimaey, sérstaklega er það þó algengt í gamla hrauninu og á suðurhluta eyjarinnar en finnst einnig á stöku stað í nýja hrauninu.

Go back