Kornsúra

Kornsúra er ein algengasta jurt á Íslandi og vex í nær öllum gróðurlendum.  Hún finnst frá láglendi upp í 1150 m hæð.

Undir jurtinni er hnýði sem geymir forðanæringu. Það er vel nothæft til manneldis og gæsir eru mjög sólgnar í það. Hnýði kornsúrunnar er t.d. þýðingarmikið við uppeldi heiðagæsarunga á hálendi Íslands. Auk blóma myndar kornsúran æxlikorn (fuglakorn) neðan til í öxum sínum, og koma þau í stað fræja og eru dugleg að dreifa henni. Voru þau hér áður höfð til matar og kölluð vallarkorn.

Kornsúran er fremur smávaxin jurt með einu toppstæðu axi sem ber hvít blóm (sjaldnar bleikleit) í efri hluta, en gulmóleit eða rauð æxlikorn í neðri hluta. Blómin eru tvíkynja, blómhlífin einföld, fimmdeild. Einn eða fleiri uppréttir stönglar rísa upp frá jarðstönglinum. Laufblöðin eru aflöng, dökk græn og gljáandi á efra borði en ljósgræn að neðan.

Kornsúra er mjög algeng á Heimaey og vex þar á nánast öllum gróðursvæðum.

Go back