Fjörukál

Fjörukál er einær jurt af krossblómaætt sem vex í sandfjörum.  Það sáir sér út á hverju ári, og getur því flust nokkuð til meðfram ströndinni frá ári til árs. Það vex í stórum breiðum víða á Suður- og Vesturlandi, en er fágætara norðanlands og austan. Fjörukálið er með góðu kálbragði og hið besta grænmeti.

Blóm fjörukálsins eru fjórdeild og standa í klösum á stöngulendunum. Krónublöðin eru hvít eða fölfjólublá. Stönglar og greinar eru ýmist jarðlæg eða uppsveigð með flipóttum, kjötmiklum blöðum.

Aldin fjörukálsins nefnist liðaldin og rofnar sundur um liðina við þroskun, og fylgir hluti aldinsins hverju fræi og eykur sjófærni þess.Fræin eru allstór og búin til þess að fljóta og berast með sjónum á nýjar sandfjörur. Fjörukál var fyrsta plöntutegundin sem fannst í Surtsey.

Á Heimaey vex fjörukál í sandfjörum og það er nokkuð algeng planta í Surtsey. 

Go back