Fjalldalafífill

Fjalldalafífill er af rósaættinni, hávaxin jurt með drúpandi blómi. Hann er algengur um landið og vex í mólendi, einkum grasríkum móum, hvömmum og giljum þar sem ekki er mjög þurrt. Hann finnst upp í 500-550 m hæð.

Blóm fjalldalafífilsins eru stór. Krónublöðin eru með rauðbleikum blæ. Bikarblöðin eru dökkrauð, hærð, þríhyrnd. Þau eru mjög áberandi því að blómið drúpir. Blóm fjalldalafífils hefur margar frævur, sem hver um sig verður að aldini með langri, loðinni trjónu. Blómgast í júní.

Fjalldalafífill er sjaldgæfur á Heimaey og hefur einungis fundist á einum stað í hraunkantinum. Líklegt má telja að hann hafi slæðst þangað úr garði í nágrenninu.

Go back