Ætihvönn

Ætihvönn er ein stórvaxnasta jurt landsins. Hún finnst víða um land þar sem vatn er nægilegt.  Vex gjarnan við læki og lindir, einkum inn til hálendisins. Er einnig algeng á láglendi en vantar þó víða þar sem mikil beit er á landinu.  Hún er mjög þurftarmikil, og sækir í áburðarríkt land.  Ætihvönnin er gömul lækningajurt, sem menn héldu gjarnan í rækt heima við bæi. Á síðustu árum hafa víðtækar rannsóknir verið gerðar á íslensku ætihvönninni, og lyf úr henni sett á markað.

Blóm ætihvannar standa mörg saman í samsettum sveipum sem eru 10-20 sm í þvermál, gerðir af mörgum smásveipum. Blómin eru hvítleit eða grænhvít.

Blöðin eru margsamsett, tví- til þrífjöðruð. Stöngullinn er mjög sterklegur, gáraður, með víðu miðholi.

Ætihvönnin vex mjög víða í Vestmannaeyjum og er áberandi. Vex í Surtsey.

Í bókinni „Saga Vestmannaeyja segir í umfjöllum um gróðurfar eyjanna „Ekki má þó gleyma hvönninni, sem fyllir allar hillur, gil og tær í fjöllunum ...“ 

Go back