Burnirót

Burnirót er rótarmikill þykkblöðungur af helluhnoðraætt sem vex víða um land frá láglendi upp í 1000 m hæð. 

Hún er einkynja, og hefur hver einstaklingur aðeins karlblóm eða aðeins kvenblóm.  Karlblómin eru fagurgul á litinn, en kvenblómin nokkuð rauðleit.  Blómin eru í þéttum skúfum og blómgast plantan í júní. Stönglarnir eru þéttblöðóttir og blöðin blágræn að lit.

Burnirótin var útbreiddari áður en þolir illa beit og hefur því horfið af stórum svæðum.  Þar sem hún hefur frið vex hún í ræktarlegu mólendi og blómlendisbollum, en þar sem beit er mikil finnst hún aðeins í klettum, torgengum gljúfrum eða hólmum.

Hún er algeng víða á Heimaey og finnst nú þegar í nýja hrauninu. Hún er einnig algeng í úteyjunum.

Go back