SérSýningar

Ýmsar sérsýningar er að finna í safninu og erum við ávalt tilbúin að koma að nýjum listamönnum á framfæri, þ.e. svo lengi sem plássið leyfir. Ef þú hefur áhuga settu þig í samband við starfsfólk okkar eða sendu okkur línu á saeheimar@saeheimar.is með upplýsingum um þig og hvað þú hefur áhuga á að sýna í húsakynnum Sæheima.

Sérsýningar í safninu í dag:

Surtseyjargosið 1963

Árið 2003 var sett upp sérsýning í Náttúrugripasafni Vestmannaeyja í tilefni þess að 40 ár voru liðin frá upphafi Surtseyjarelda er stóðu í fjögur ár. Eldgosið vakti heimsathygli og myndun Surtseyjar var einstakur atburður fyrir jarðfræðinga að fylgjast með og gosið varpaði ljósi á myndun Vestmannaeyja og móbergsfjalla hér á landi. Vísindamönnum var ljóst þegar leið á Surtseyjargosið að þeir yrðu ekki aðeins vitni að merkilegum jarðfræðiatburði heldur gafst þar einstakt tækifæri til að fylgjast með landnámi lífvera og framvindu lífríkis á nýju einangruðu landi. Með sýningunni er leitast við að miðla til safngesta þróunarsögu Surtseyjar með ljósmyndum, texta, bergsýnum og líkani af Surtsey.

 

Sambýli manns og lunda 

Árið 2007 var sett upp sýningin "Sambýli manns og lunda" þar sem stiklað er á stóru um mikilvægi lundans á samfélagið hér í Vestmannaeyjum. Farið er yfir sögu lundaveiða, veiðifélög, líffræði lundans, pysjutímabilið og pysjueftirlitið. Fjöldi mynda prýðir sýninguna sem flestar eru teknar af Krisjáni Egilssyni.

 

Glerlistasýning Berglindar

Þann 4. júní s.l., í tengslum  við Sjómannadagshelgina, opnaði glerlistakonan Berglind Kristjánsdóttir sýningu á verkum sínum ofan í búrum Fiskasafnsins. Verkin voru unnin með Fiskasafnið í huga og falla þau vel að umhverfi búranna og lífverunum í hverju þeirra um sig.

Þetta er sjöunda einkasýning Berglidar, sem hefur unnið að krafti við listgrein sína eftir að hún lauk námi 2004. Hún hefur áður verið með sýningu í Fiskasafninu en þá með allt öðru sniði. Berglind var kjörinn bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2008.

Menningarráð Suðurlands veitti styrk til sýningarinnar, sem kom sér mjög vel því mikill efniskostnaður og vinna liggja að baki sýningu sem þessari. Sýningin hefur verið opin í allt sumar og hefur vakið talsverða athygli enda hlýtur það að teljast óvenjulegt að hafa listsýningu í fiskabúrum. Karlkyns starfsmenn safnsins hafa haft á orði að það sé ómögulegt að hafa sýninguna því hún dragi alla athygli kvenkyns safngesta frá fiskunum á safninu  "þær koma út með stjörnur í augunum og tala um hvað glerlistaverkin séu flott en taka ekkert eftir fiskunum".

 

Fiskar í nýju ljósi

Erlendur Bogason kafari opnaði sýningu þann 5. nóvember á ljósmyndum og kvikmyndum, sem hann hefur tekið neðansjávar. Myndirnar eru sýndar á stórum skjá sem komið verður fyrir í enda fiskasalarins og 5 digital-myndarömmum sem eru staðsettir á milli búranna í salnum. Þarna má sjá margar þær tegundir sem eru til sýnis á safninu í sínu náttúrulega umhverfi.

Sýningin opnaði í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi, sem var helgina 5.-7. nóvember og var frítt inn á safnið þessa helgi. Menningarráð Suðurlands veitti styrk til sýningarinnar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.