Steinasafn

Í steinasalnum er eitt merkasta skrautsteinasafn landsins. Safnið er gjöf hjónanna Unnar Pálsdóttur og Sveins Guðmundssonar. Þar er að finna flestar þær gerðir steina sem finnast á Íslandi.
 
Skrausteinar í sal þessum eru gjöf hjónanna Unnar Pálsdóttur og Sveins Guðmundssonar, Arnarstapa í Vestmannaeyjum, til Vestmannaeyjakaupstaðar. Árið 1986 var Náttúrugripasafninu falin varsla steinanna. Safnið er talið eitt merkasta steinasafn landsins, og telur á annað þúsund íslenskra steina, sem Sveinn safnaði í áratugi um land allt, en aðeins lítill hluti safnsins er ti sýnis hverju sinni.

Flestir íslenskir skrautsteinar eru svonefndar holufyllingar, þ.e. þeir hafa myndast á löngum tíma í holum og sprungum í berginu. Vatn sem leikur um jarðlögin leysir upp efnið í berginu, þessi efni falla síðan út (verða eftir) í holum og sprungum og þar "vaxa" þessir steinar smátt og smátt.

Mest finnst af skrautsteinum utan eldvirknisvæðanna þ.e. á Vestur- og Norðvesturlandi, svo og á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Þar sem Ísland er ungt land á jarðfræðilegan mælikvarða er fjöldi berg- og steintegunda mun minni en í flestum nágrannalöndum okkar. Aðeins er kunnugt um 150 tegundir steina hér á landi.

Þrátt fyrir svo fáar tegundir finnast hér ýmsir sérkennilegir og fallegir steinar. Er Ísland frægt og oft getið í steinafræði vegna zeolita eða geislasteina, eins og þeir nefnast á íslensku, því óvíða finnast jafn fjölbreytt og glæsileg eintök og hér á landi. Náttúrugripaöfn í Evrópu og Norður-Ameríku hafa fengið og eru með til sýnis sína fegurstu zeolita frá Íslandi.