Starfsstefna

Starfsstefna Sæheima, aquarium  

Starfsstefna 2010-2014
 
Fiska- og náttúrugripasafnið hefur um árabil gegnt mikilvægu fræðsluhlutverki og verið í fararbroddi á mörgum sviðum, sem eina safn sinnar tegundar á Íslandi. Sýningar safnsins hafa tvímælalaust eflt þekkingu, skilning og áhuga almennings á náttúrunni og lífríkinu í hafinu við Ísland. Rekstur Fiska- og náttúrugripasafnsins er nú undir Þekkingarsetri Vestmannaeyja og er það nú rekið undir nafninu Sæheimar, aquarium. Sæheimar munu áfram leggja áherslu á fræðslu til almennings, rannsóknir og varðveislu náttúrugripa og minja.
 
1. Miðlun
Sýningar á lifandi fiskum og sjávardýrum verður áfram stærsta verkefni Sæheima. Aðrar sýningar eru safn uppstoppaðra fiska og fugla, eggjasafn, skordýrasafn, steinasafn og skeljasafn.
 
Aukin áhersla er lögð á margmiðlun til að miðla upplýsingum um safnið og sýningar þess og almennri fræðslu.
 
Unnið er að því að setja upp öflugan fræðsluvef í tengslum við heimasíðu Sæheima. Vefurinn mun tengja saman námsmarkmið í náttúrufræði grunnskóla og safnastarfið. Stefnt er að því að vefur Sæheima verði einstakur á landinu hvað þetta varðar og gefi skólabörnum um allt land tækifæri til að fræðast á nýstárlegan og skemmtilegan hátt um náttúru landsins.
 
2. Söfnun
Áfram verður haldið við söfnun á bæði lifandi dýrum og uppstoppuðun gripum. Söfnun á lifandi sjávardýrum er mjög háð samstarfi við áhugasama sjómenn. Sjómenn hafa reynst safninu vel hvað þetta varðar en einnig fært safninu annars vegar hvern furðufiskinn á fætur öðrum og hins vegar tegundir sem eru einkennandi fyrir náttúru svæðisins. Við söfnun á uppstoppuðum gripum er áhersla lögð á tegundir sem eru sjaldgæfar fyrir svæðið og landið í heild.
 
Stefnt er að því að safnið endurspegli náttúru svæðisins en jafnframt með virkri söfnunarstefnu haldið utan um og kynna þá náttúrumuni sem safninu berast frá öðrum svæðum.
 
3. Varðveisla
Húsrými safnsins hefur verið mjög takmarkandi og þó svo að fallegir gripir hafi borist safninu hefur oft reynst erfitt að varðveita þá. Þetta á sérstaklega við um lifandi hluta safnsins en sá hluti er mjög plássfrekur og kostnaðarsamur. Í áformum Vestmannaeyjabæjar fyrir safnið er gert ráð fyrir að öll aðstaða til varðveislu safngripa muni batna til muna.
 
Verið er að skoða endurbætur á skráningu safnmuna með samræmda skráningu allra náttúrugripasafna landsins í huga.
 
4. Rannsóknir og fræðsla
Í samvinnu Þekkingarsetur Vestmannaeyja og skóla bæjarins, er stefnt að gerð rannsókna- og kennsluefni fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi, með áherslu á fiska, sjávarhryggleysingja, sjófugla, jarðfræði og manninn.
 
Þegar ráðist verður í frekari endurbætur á safninu er mikilvægt að huga að rannsóknaaðstöðu fyrir lifandi hluta safnsins. Stefnt er að því að því að aðstaða til rannsókna á lifandi sjávardýrum verði stórbætt
 
5. Húsnæði
Húsnæðisskortur er löngu farinn að hamla þróun safnsins. Nauðsynlegt er að fá fleiri sýningarrými, betri aðstöðu til kennslu og gott varðveislu- og rannsóknarrými.
Stefnt er að því að byggja nýja safnaaðstöðu fyrir starfsemi Sæheima í samstarfi við Þekkingarsetur Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæ. Áætlað er að safnið verði um það bil fjórum sinnum stærra en það er nú og verður áfram lögð áhersla á lifandi fiska og sjávardýr. Rannsóknaþátturinn verður einnig aukinn til muna og mun Þekkingarsetur Vestmannaeyja reka Sæheima, rannsóknarmiðstöð undir sama þaki.