Saga safnsins

Fiska- og Náttúrugripasafn Vestmannaeyja var stofnað 1964 að frumkvæði Guðlaugs Gíslasonar, fyrrverandi bæjarstjóra og alþingismanns. Safninu var fundinn staður á efri hæð hússins að Heiðarvegi 12 og er þar enn til húsa. 
Safnið var rekið af Vestmannaeyjakaupstað. 
 
Friðrik Jesson var fenginn til að sjá um uppbyggingu safnsins.
Hann var safnstjóri í 25 ár og hefur hann stoppað upp allflesta fugla og önnur þau dýr sem uppsett eru á safninu. Kristján Egilsson, tengdasonur Friðriks tók við starfi safnstjóra af tengdaföður sínum. Hann var einnig ötull við að stoppa upp og bæta við nýjum tegundum á safnið
 
Fjölmargir velunnarar safnsins hafa safnað og gefið þá muni, sem í safninu eru.
 
Þeir fiskar sem synda í kerjum í Fiskasafninu eru flestir þangað komnir vegna velvilja og áhuga sjómanna. Áhugi þeirra fyrir safninu hefur ávallt verið mikill og sýnir að þeir eru ekki einungis veiðimenn í eðli sínu, heldur og náttúruunnendur og náttúruskoðendur.
 
Fiska og Náttúrugripasafn á eldstöðvum.
 
Safnverðirnir á Náttúrugripasafninu þau Friðrik Jesson og Magnea Sjöberg kona hans fóru ekki frá Eyjum þegar gos hófst á Heimaey þann 23. janúar 1973, eins og flestir íbúar Eyjanna gerðu. Þau bjuggu um sig og sváfu í safninu í nokkur vikur eftir að gosið hófst, en urðu síðan að flytja náttstað sinn annað þegar bera tók á gasmengun í húsinu.
 
Náttúrufræðistofnun Íslands bauð safninu alla aðstoð við flutning safnmuna úr bænum ef á þyrfti að halda.  Það stóð reyndar aldrei til að flytja lifandi fiskana til Reykjavíkur, en ef  hjá því yrði ekki komist var búið að ákveða að sleppa þeim í sjóinn.  Friðrik og Magnea vildu ekki flytja safnið burt frá Eyjum og allan gostímann var allt óbreytt innandyra í safninu þótt flest önnur hús í Eyjum hefðu verið verið tæmd.