Hvað gerum við?

Starfsemi safnsins er fjölbreytt , allt frá því að halda utan upp skráningu á viðkvæmum safngripum og í það að virka sem sjúkramiðstöð fyrir veikburða fugla sem finnast á Heimaey.
 
Nokkrir punktar úr starfinu:
 
 
Lifandi sjávardýr
Í Sæheimum eru 12 sjóker með fjölda lifandi fiska og annara sjávarlífvera. Í kerjunum er 7°C heitur sjór sem dælt er úr 30 m djúpri borholu skammt frá safninu. Þarna er jafnan að finna margar af helstu nytjafiskum, sem veiðast við Ísland auk krabba, sæfífla, krossfiska, ígulkerja, kolkrabba og skeldýra. Sjómenn í Vestmannaeyjum hafa verið mjög duglegir við að færa safninu lifandi fiska og aðrar sjávarlífverur.
 
Í Fiskasafninu er snertibúr með kröbbum, krossfiskum, ígulkerjum og sprettfiskum sem spennandi er fyrir krakkana að skoða og handfjatla.
 
 
Fuglasafn
Í fuglasalnum eru flestir íslenskra varpfugla uppsettir svo og mikill fjöldi flækingsfugla auk uppstoppaðra krabba og fiska. Í fuglasalnum eru einnig egg nær allra íslenskra varpfugla svo og skordýrasafn.
  
Steinasafn
Í steinasalnum er eitt merkasta skrautsteinasafn landsins. Safnið er gjöf hjónanna Unnar Pálsdóttur og Sveins Guðmundssonar. Þar er að finna flestar þær gerðir steina sem finnast á Íslandi.
 
Pysjueftirlit
Á haustin fara börn í Vestmannaeyjum á stjá og bjarga lundapysjum sem   hafa flogið að ljósunum í bænum í stað þess að halda á haf út. Börnin  koma með pysjurnar á safnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Niðurstöður mælinganna eru notaðar til að meta ástand pysjanna sem getur verið talsvert mismunandi milli ára sem og fjöldi þeirra.
 
Yfir pysjutímann er rekið svokallað pysjuhótel á safninu fyrir litlar og dúnaðar pysjur, sem eru ekki tilbúnar til að fara strax í sjóinn. Gestum hótelsins er gefin loðna að éta og reynt að fita þá sem mest áður en þeim er sleppt í sjóinn. Einnig hafa olíublautar pysjur þar athvarf. Þær eru hreinsaðar og ekki sleppt fyrr en það hefur náðst og náttúruleg fita komin í haminn. Þær eru settar í sundæfingar í sundlaug hótelsins.
   
Sýningar
Í safninu hafa verið haldnar margvíslegar sýningar. Bæði er um að ræða listasýningar og sýningar til fróðleiks. Einnig hefur safnið verið vettvangur fyrirlestra á sviði náttúruvísinda.
Safnabúð
Í anddyri Fiska-og Náttúrugripasafnsins er minjagripasala, sem er smá í sniðum en hefur ágætt úrval minjagripa sem tengjast margir hverjir náttúru Eyjanna en lundinn er þar mest áberandi.