Fuglasafn

Í fuglasalnum eru flestir íslenskra varpfugla uppsettir svo og mikill fjöldi flækingsfugla auk uppstoppaðra krabba og fiska. Í fuglasalnum eru einnig egg nær allra íslenskra varpfugla svo og skordýrasafn.
 
 
Alls hafa sést á Íslandi um 300 tegundir fugla, þar af eru um 70 sem verpa hér á landi. Í Vestmannaeyjum verpa um 30 tegundir að jafnaði. Ber þar mest á sjófuglum, sem eru í milljóna tali. Þrjár tegundir fugla hafa til skamms tíma ekki orpið annars staðar á landinu en hér í Eyjum, þ.e. skrofa, litla-sjósvala og stóra-sjósvala.

Í Eyjum má, vor og haust, sjá alla íslenska farfugla, eins verður vart margra fugla langt að kominna, svokallaða flækingsfugla, bæði frá Evrópu og Ameríku.

Á safninu eru flestir íslensku varpfuglarnir uppsettir, svo og mikill fjöldi áðurnefndra flækingsfugla, og eru nokkrir þeirra þeir fyrstu á landinu. Þá eru í safninu egg nær allra íslenku varpfuglanna. Einnig eru mörg litaafbrigði af sjófuglum, t.d. er þar aldökk langvía, en það er eina eintakið í heiminum sem vitað er um.

Í fuglasalnum eru auk fugla uppstoppaðir krabbar og fiskar, margar tegundir mjög sjaldséðar eins og t.d. Lúsifer, Sædjöfull og Surtla, en það eru djúpsjávarfiskar sem halda sig að jafnaði á 1-2 þúsund metra dýpi.