Fiskasafn

 
Í Fiskasafninu eru 12 sjóker þar sem eru að jafnaði allar helstu tegundir nytjafiska, sem veiðast við Ísland, auk krabba, sæfífla, krossfiska og skeldýra.

Í kerjunum er 7°C heitur sjór, sem dælt er úr borholu af 30m dýpi, örfáum metrum frá safninu. Sjórinn er tandurhreinn við að hafa síast gegnum hraun og sand.

Árlega hrygna nokkrar tegundir sjávardýra í safninu og gefst þá gestum kostur á að fylgjast með klaki.

Hjá tröllakrabbanum tekur ástarlífið langan tíma. Karlinn, sem er mun stærri en kvenkrabbinn, tekur hana í "fangið" og heldur henni í allt að þrjá mánuði áður en hún þýðist við hann og alvaran hefst.

Meiri tilþrif eru í ástarlífi grásleppunnar og rauðmagans. Rauðmaginn eldroðnar af ást þegar hann hittir hrognafulla grásleppu. Hann vísar henni á góðan stað í kerinu til að hrygna og ef hún samþykkir staðinn, hrygnir hún fljótlega. Fjöldi hrogna getur verið 100-200 þúsund. Þau límast saman í kökk og festast við steina á botninum og tekur þá rauðmaginn við og gætir þeirra á meðan þau eru að klekjast út, en klakið tekur um 2-3 vikur. Ver hann þau afmikilli hörku, grásleppan fær ekki einu sinni að nálgast þau, og allan tímann sem rauðmaginn er yfir hrognunum, sér hann um að þeim berist nægilegt súrefni, hreyfir eyrugga og púar í þau.

Rauðmaginn er svo upptekinn við gæslu- og uppeldisstörf, að hann gefur sér ekki tíma til að matast, og verður að lokum grár og gugginn. Í fyllingu tímans fyllist kerið af litlum seiðum, sem eru gegnsæ og um 5 mm löng. Þegar seiðin setjast á gler kersins, má sjá hjartað slá í þessum nýju lífverum.