Fréttir

Rituungar

20.06.2016

Þá er tími rituunganna hafinn. Árlega er komið með rituunga í Sæheima sem hafa fallið úr hreiðrum sínum við Skiphella. Oft eru það eldri ungar sem ýta þeim fram af syllunum í baráttu um  fæðuna sem foreldrarnir koma með. Þó þeir séu oft afar smáir við komuna á safnið ná þeir flestir að vaxa og dafna hjá okkur. Þegar þeir eru orðnir fleygir er þeim sleppt. Margir kjósa að ala þá heima og getur það verið mjög skemmtilegt.

Sjómannadagur

03.06.2016

Á sjómannadaginn verður opið í Sæheimum kl. 10-17 og safnið býður bæjarbúum að koma í heimsókn. Opið er alla helgina en frítt inn á sunnudeginum.

Við óskum sjómönnum til hamingju með daginn og þökkum þeim fyrir góðar gjafir til safnsins.

Fyrsta flugið

01.06.2016

Greinilegt er að litli starraunginn, Goggi galvaski, fær nóg að éta hjá okkur. Enda eru krakkarnir dugleg að færa honum ánamaðka, sem hann gleypir í sig með mikilli áfergju. Það er með ólíkindum hvað hann hefur vaxið og dafnað á þessum 12 dögum sem liðnir eru frá því að komið var með hann á safnið. Í dag tók hann flugið í fyrsta skipti og valdi höfuðið á einum starfsmanni safnsins til lendingar.

4. bekkur í heimsókn

25.05.2016

Í dag komu krakkarnir í 4. JA í heimsókna á safnið í þeim tilgangi að kíkja á ungann sem verið hefur í fóstri á safninu. Hann tók auðvitað vel á móti þeim og gapti eins mikið og hann gat til að sýna hvað hann væri svangur. Það skilaði tilætluðum árangri því að nokkrir krakkanna hafa komið með ánamaðka handa honum í dag. Unginn er því saddur og sæll með fullan magann af ormum og öðru góðgæti.

Unginn dafnar vel

22.05.2016

Nokkrir krakkar hafa verið duglegir að finna orma handa litla fuglsunganum sem nú er í fóstri í Sæheimum. Hann er ótrúlega duglegur að éta og það má nánast sjá hann stækka. Næstu daga munum við því þurfa enn fleiri orma.

Krabbar og kuðungar

22.05.2016

Bræðurnir Hermann og Kristján komu með fulla fötu af bogkröbbum og beitukóngum og færðu safninu að gjöf. Afi þeirra leggur krabbagildrur við bryggjuna og fær strákana með sér til að vitja aflans. Safnið hefur notið góðs af þessum veiðum. Takk fyrir þetta strákar.

Tónleikar

21.05.2016

Flottir tónleikar voru í fuglasal Sæheima í dag. Reggie Óðins með hljómsveit sinni flutti þar nokkur lög af nýjum disk sem þau eru að gefa út ásamt eldri perlum. Ánægðir tónleikagestir voru ekki frá því að uppstoppuðu fuglarnir hafi verið farnir að dilla sér í takt við tónlistina.

Ormar óskast

21.05.2016

Þessi litli ungi fannst í gær við Týsheimilið og hefur fallið úr hreiðrinu sínu. Hann er aðeins nokkurra daga gamall og innan við 60 grömm að þyngd. Þegar komið var með hann á safnið var hann frekar slappur enda líklega bæði kaldur og svangur. Um leið og hann fékk smá yl í kroppinn og matarbita fór hann að hressast. Nú er hann miklu hressari og heimtar mat á korters fresti og það fer ekkert á milli mála hvað það er sem hann vill. 

Við viljum endilega biðja krakka að finna orma handa honum að éta, því hann er búinn með alla ormana sem voru fyrir utan fiskasafnið.

Reggie með tónleika

20.05.2016

Um helgina verður Óskarshátiðin haldin í Eyjum með fjölda tónlistaratriða um allan bæ. Hátíðin er til minningar um  Óskar Þórarinsson frá Háeyri sem var mikill djassáhugamaður.  Á söfnunum mun Reggie Óðins spila nokkur lög ásamt hljómsveit sinni. Í Sagnheimum verða þau í dag, föstudag, kl. 17:30 og í Sæheimum leika þau á laugardaginn kl. 16:00 (ekki kl. 17 eins og auglýst var). Þau munu kynna nýjan disk og verður spennandi að heyra ný lög frá þessum frábæru tónlistarmönnum.

Myndina tók Helgi Thorshamar

Gjöf frá Drangavík

19.05.2016

Áhöfnin á Drangavík VE kom færandi hendi í Sæheima í morgun. Komu þeir með lifandi hrognkelsi, humra, tindabikkjur og sæbjúgu sem eru öll hin hressustu þrátt fyrir vistaskiptin. Það er mjög mikilvægt fyrir safnið að fá slíkar gjafir og erum við í raun algjörlega háð velvilja sjómanna hvað varðar lifandi hluta safnsins. Þeir á Drangavíkinni hafa verið mjög duglegir að koma með lifandi fiska og aðrar sjáfarlífverur til okkar og fá þeir bestu þakkir fyrir. 

Klettaskóli í heimsókn

18.05.2016

Krakkarnir í 10. bekk í Klettaskóla eru í ævintýraferð til Vestmannaeyja. Að sjálfsögðu komu þau við í Sæheimum og heilsuðu upp á Tóta og skoðuðu fiskana. Það er alltaf gaman að fá þessa hressu krakka í heimsókn og mikið spurt og spekúlerað. Á morgun eru sprangan og sjóferð á dagskránni.

Gleðilegt sumar

21.04.2016

Opið verður í Sæheimum í dag, sumardaginn fyrsta, kl 13-16. Vestmannaeyjabær býður bæjarbúum á safnið í tilefni að sumarkomunni.

Júníus Meyvant og Tóti í tónlistarmyndbandi

11.04.2016

Tónlistarmaðurinn Unnar Gísli Sigurmundsson eða Júníus Meyvant er um þessar mundir að senda frá sér nýtt lag "Neon Experience". Fékk hann Tóta í lið með sér við upptökur á nýju tónlistarmyndbandi við lagið. Tóti stóð sig auðvitað mjög vel og það verður spennandi að sjá myndbandið, sem mun koma út í næstu viku.

Vorhugur í Tóta

15.03.2016

Greinilega er kominn vorhugur í Tóta því hann er um þessar mundir að skipta yfir í sumarbúning sinn. Fyrstu merki þess eru að vangarnir eru smám saman að lýsast. Á næstu dögum fer hann að fá meiri lit í gogginn, húðsepinn í goggvikunum mun stækka og fá meiri lit, hvíta spöngin við nefrótina birtist, þríhyrndu plöturnar umhverfis augun koma í ljós og fætur hans verða gulari. Það er gaman að fylgjast með þessum breytingum, því alla jafna fáum við ekki tækifæri til að fylgjast með lundum í búningaskiptum. Þegar villtu lundarnir koma til landsins í lok apríl hafa þessar breytingar þegar átt sér stað og eru þeir komnir í varpbúning sinn. 

Fyrsti hópur ársins

22.02.2016

Það sem af er árinu hefur verið mjög rólegt hjá Sæheimum, sem og öðrum aðilum í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Smám saman er þetta þó aðeins að glæðast og með viku hverri koma fleiri ferðamenn að heimsækja okkur.

Í dag fengum við hóp fólks, sem var langt að komið í heimsókn á safnið. Þau eru frá Shanghæ í Kína og var þetta fyrsti hópur ársins hjá okkur. Komu þau með flugi í blíðunni í morgun og voru í skoðunarferð með Eyjar Tours og voru Sæheimar þeirra fysta stopp.  Þau voru mjög hrifin af Tóta og eins og sjá má á myndinni var hann sömuleiðis alsæll með gestina. 

Wandering Puffin

03.02.2016

Í dag fékk safnið góða heimsókn, en þar var á ferðinni Jamie Bachrack frá Minnesota í Bandaríkjunum. Rekur hann ferðaskrifstofuna "Wandering Puffin" og var að koma í þriðja skipti til Vestmannaeyja. Hann er mjög hrifinn af eyjunum og stefnir á að koma aftur í september. Vonast hann þá til að geta tekið þátt í að bjarga lundapysjum.

Hann er mjög hrifinn af lundum og eins og sést á myndinni er hann afskaplega ánægður með hann Tóta okkar. Spurning hvor þeirra brosir breiðar, en Tóti er alltaf himinlifandi yfir því að fá gesti yfir vetrartímann.

Lundapysja í janúar

13.01.2016

Þeir Ragnar Þór og Valur Már, skipverjar á Kap VE, komu með lundapysju á safnið í dag. Hafði hún komið um borð hjá þeim á miðunum vestur  af Snæfellsnesi. Þeir höfðu áhyggjur af því að pysjan hefði fengið á sig olíu um borð áður en hún náðist og vildu því ekki sleppa henni. Var það rétt ákvörðun hjá þeim því að pysjan blotnað inn að skinni þegar hún var látin synda með lundunum sem fyrir eru á safninu. Þarf því að hreinsa hana áður en henni verður sleppt á ný. Sigrún Anna rétti þeim hjálparhönd við að afhenda pysjuna. 

Frítt inn á Þrettándahátíð

08.01.2016

Núna um helgina verður þrettándahátíð haldin í Vestmannaeyjum. Hápunktur hennar er þegar jólasveinar, tröll, álfar og fleiri kynjaverur dansa í kring um bálköst áður en þau halda til síns heima. Fleira skemmtilegt verður í boði og m.a. verður opið á söfnum bæjarins. Sæheimar verða opnir kl. 13-16 á laugardeginum 9. janúar og verður frítt inn.

Jólarjúpurnar á safninu eru spenntar að hitta sem flesta krakka á laugardaginn. 

Haftyrðill

27.12.2015

Á jóladag fannst haftyrðill við Hraunbúðir, sem náði ekki að hefja sig til flugs. Finnendur hans komu með hann daginn eftir í Sæheima þar sem fuglinn var vigtaður. Hann var frekar léttur en virtist að öðru leyti vera hinn hressasti. Var honum því gefið smávegis æti og honum síðan sleppt á haf út.

Haftyrðlar eru minnstu svartfuglarnir og eru aðeins um 150 g að þyngd. Til viðmiðunar eru lundar um 500 g og langvíur um 1 kg. Haftyrðlar eru hánorrænir fuglar og verptu áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Til skamms tíma verptu nokkur pör í Grímsey. Vegna hlýnandi veðurfars eru þeir nú alveg horfnir. Þeir eru nokkuð algengir norðan við okkur eins og á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða. Yfir vetrartímann halda haftyrðlar sig helst við hafísröndina en sjást þó oft hér við land, sérstaklega eftir norðanáttir. Í vondum veðrum geta þeir hrakist langt inn á land.

Heimild: Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson. MM 2011.

Jólakveðja

23.12.2015

Starfsfólk Sæheima sendir gestum og velunnurum safnsins bestu jólakveðjur og þakkir fyrir innlit og gjafir á árinu. Vonum að nýja árið verði gott og að við sjáum ykkur sem oftast á safninu. Lundarnir senda einnig sínar bestu jólakveðjur, sérstaklega til allra krakkanna sem komu í heimsókn á árinu.

Þar sem laugardagur lendir á öðrum degi jóla og safnið því lokað, höfum við ákveðið að hafa safnið opið í staðinn á sunnudeginum 27. desember kl. 13 -16.