Fréttir

Skrifað undir

09.11.2016

Nú um helgina var skrifað undir samning Sæheima og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. En sjóðurinn veitti Sæheimum 400.000 króna styrk til að vinna að verkefni sem nefnist "Lundapysjur í Vestmannaeyjabæ". Byggist verkefnið aðallega á pysjueftirliti Sæheima, sem hefur verið starfrækt frá árinu 2003. Fyrsti hluti verkefninsins var að halda sýningu á ljósmyndum frá pysjueftirlitinu árin 2015 og 2016. Næsta skref verður síðan að vinna úr tölum pysjueftirlitsins frá upphafi og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir almenning. Verða þær settar inn á heimasíðu Sæheima. Margrét Lilja Magnúsdóttir og Gígja Óskarsdóttir skrifuðu undir fyrir hönd Sæheima og Hrafn Sævaldsson fyrir hönd Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. 

Fjöldi gesta um safnahelgi

07.11.2016

Um helgina var Safnahelgin í Vestmannaeyjum með fjölda viðburða á söfnum bæjarins. Í Sæheimum voru sýndar ljósmyndir sem teknar hafa verið af börnum sem komið hafa með pysjurnar sínar í pysjueftirlitið til okkar árin 2015 og 2016. Heildarfjöldi mynda er um 900 og eru þær allar sýndar í tveimur snertiskjám sem staðsettir eru í fiskasalnum. Rúmlega helmingur þessara mynda var prentaður og eru þær ýmist innrammaðar í andyri safnsins eða límdar upp á glerin í fuglasalnum og steinasalnum. Núna er safnið því talsvert ólíkt því sem fólk á að venjast. 

Sýningin var vel sótt og komu yfir 300 gestir til okkar. Almenn ánægja var með sýninguna og mun hún verða uppi næstu vikur, þannig að þeir sem komust ekki um helgina hafa tækifæri til að skoða sýninguna. Nú er komin vetraropnun á safninu og er það opið á laugardögum kl. 13 - 16. Þessar hressu stelpur voru meðal gesta safnsins um helgina.

Uppskeruhátíð pysjueftirlitsins

04.11.2016

Undirbúningur fyrir Safnahelgina er nú í hámarki í Sæheimum. Þar stendur til að opna ljósmyndasýningu á morgun, laugardaginn 5. október, klukkan 13. Um er að ræða ljósmyndir af börnum með pysjurnar sínar, sem komu í pysjueftirlitið árin 2015 og 2016. 

Árið 2015 fundust miklu fleiri pysjur en mörg árin þar á undan. Voru því bæjarbúar mjög spenntir að heyra nýjustu tölur um fjölda pysja. Sæheimar settu því inn fréttir nánast daglega bæði á heimasíðu safnsins og á facebook síðu þess. Til að eiga myndir með fréttunum var byrjað að taka einstaka ljósmyndir af börnum með pysjurnar sínar.

Við fundum fljótlega fyrir því að börnin voru spennt fyrir því að fá teknar af sér myndir og sérstaklega að fá þær síðan birtar með fréttunum á facebook síðunni. Það var því oft vandi fyrir starfsmenn að velja myndir með fréttunum, því ekki var nokkur leið að birta þær allar. Smám saman fórum við að taka  miklu fleiri myndir en við þurftum til birtingar með fréttunum og árið 2016 voru teknar myndir af nánast öllum sem komu með pysjur á safnið.

Við áttum því orðið mikinn fjölda ljósmynda af flottum krökkum með pysjurnar sínar og  aðeins lítið brot af þeim höfðu verið birtar á facebbook síðunni. Það var því ákveðið að  halda ljósmyndasýningu á safninu til að gefa krökkunum og öðrum bæjarbúum kost á því að skoða myndirnar. 

Því miður rötuðu ekki allar myndirnar á sýninguna vegna lakra gæða og biðjumst við velvirðingar á því. Þá er við ljósmyndarann að sakast, því fyrirsæturnar voru alltaf frábærar.  Vonandi fáum við tækifæri á næsta ári  til að taka myndir í stað þeirra sem misheppnuðust. Við þökkum öllum fyrirsætunum kærlega fyrir þáttökuna.

SASS veitti styrk til sýningarinnar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Skrofuungar á ferð

30.09.2016

Eins og lundapysjur þá fljúga ungar skrofunnar stundum að ljósunum í bænum. Það hefur verið komið með nokkuð af skrofum til okkar í Sæheimum. Við höfum vktað þær eins og pysjurnar og 12 af þeim hafa verið merktar. Ein af skrofunum sem komið var með hafði verið merkt fyrr í sumar í Ystakletti og fannst hún við Ofanleiti. Það er um að gera að hafa augun hjá sér þó að pysjurnar séu hættar að finnast í bænum því að skrofuungarnir eru enn á ferðinni og sömuleiðis ættingjar þeirra, sjósvölurnar. Þær eru enn seinna á ferðinni og eru jafnvel að finnast fram í nóvember.

Lokatölur í pysjueftirlitinu 2016

30.09.2016

Þá er orðið útséð með að finna fleiri pysjur og því óhætt að gefa út lokatölur fyrir pysjueftirlitið 2016. Heildarfjöldi pysja var 2.639 og er þetta því næst stærsta pysjuárið frá því pysjueftirlitið hóf göngu sína árið 2003.

Meðalþyngd pysjanna í ár var nokkuð hærri en mörg síðustu ár eða 269,8 grömm. Það er talað um að lífslíkur pysjanna aukist eftir því sem þær eru þyngri og erum við því frekar bjartsýn fyrir hönd pysjanna í ár.

Komið var með fyrstu pysjuna þann 24. ágúst og þá síðustu þann 25. september og spannaði því tímabilið rúman mánuð. 

Í fyrra var komið með talsvert fleiri pysjur, eða 3.831 pysju. Þær voru að meðaltali um 30 grömmum léttari en pysjurnar í ár og miklu seinna á ferðinni, eða frá 8. september til 23. október. 

Merktar voru um 540 pysjur á þessu pysjutímabili.

 

 

 

Mette Marit flogin á braut

27.09.2016

Í janúar sögðum við frá lundapysju sem kom um borð í Kap VE á miðunum vestur af Snæfellsnesi. Fékk hún olíu í fiðrið um borð og þurfti því að hreinsa hana. Var haft á orði að pysjan hlyti að vera norsk, því að lundar frá Noregi halda sig gjarnan á þessum slóðum yfir vetrartímann. Fékk hún þá snarlega nafnið Mette Marit í höfuðið á norsku krónprinsessunni.

Lundar og aðrir fuglar sem þarf að hreinsa eru oft nokkuð lengi að ná upp nægilegri fitu í fiðrið. Fitan gerir þeim kleyft að halda vatni frá líkamanum og án hennar blotna fuglarnir mikið og geta ekki verið á sjónum. Það tók pysjuna talsverðan tíma að verða tilbúin á sjóinn. Hún hefur verið látin synda með lundunum sem fyrir eru á safninu. Smám saman gat hún verið lengur á sundi og var að lokum orðinn orðinn sundgarpur hinn mesti.

Nú á dögunum var farið með Mette Marit út á Hamar og henni sleppt þar. Hún flaug mjög langt og hvarf sjónum okkar. Núna gæti hún verið komin á slóðir norsku lundanna og er jafnvel búin að hitta ættingja og vini og hefur þá líklega frá mörgu að segja.

Líklega síðasta pysjan

27.09.2016

Aðeins hefur verið komið með þrjár pysjur síðustu vikuna í pysjueftirlit Sæheima. Á sunnudaginn kom Ragnheiður Rut með pysjuna sína, sem hafði fundist inni í dal. Mjög líklegt má telja að um sé að ræða síðustu pysjuna á þessu pysjutímabili.

Það er gaman að geta þess að á þessum degi í fyrra var pysjutíminn í hámarki. Þá voru vigtaðar 309 pysjur hjá okkur í Sæheimum og höfðu aldrei verið vigtaðar eins margar pysjur á einum degi.

Enn færri pysjur í dag

20.09.2016

Einungis var komið með átta pysjur í pysjueftirlit Sæheima í dag. Sara Rós kom með tvær þeirra. Önnur þeirra var afskaplega létt og því fékk fjölskyldan  nokkrar loðnur í poka handa henni.

Við erum enn með nokkrar pysjur í eldi hjá okkur. Sumar þeirra voru litlar og dúnaðar og þurfa aðeins nokkra daga til að losna við dúninn og þyngjast eilítið. Aðrar hafa lennt í olíu og grút og þurfti því að hreinsa þær. Eftir slíka meðferð getur það jafnvel tekið þær nokkrar vikur að ná nægjanlegri fitu í fiðrið til að halda vatni frá líkamanum. Þær eru nú á daglegum sundæfingum og styttist í brottför hjá nokkrum þeirra.

Búningaskipti hjá Tóta

20.09.2016

Lundinn eins og við þekkjum hann er í sínum litríka sumarbúningi, sem er í raun varpbúningur hans. Lundar skipta um búning bæði á vorin og haustin og eru talsvert öðruvísi útlits yfir vetrartíman.

Lundinn okkar hann Tóti er staðráðnn í því að nú sé komið haust og er kominn vel inn í búningaskiptin. Eins og sést á myndinni þá flagna þunnar plötur af goggi hans. Hvíta spöngin við rót goggsins er fallin af og guli bletturinn í munnvikinu hefur misst lit sinn og á eftir að skreppa saman. Plöturnar umhverfis augun munu einnig falla af. Smám saman mun hann síðan dökkna í vöngum.

Það er gaman að fylgjast með þessum breytingum eiga sér stað. Hjá villtum lundum eiga þær sér stað þegar þeir hafa yfirgefið varpstöðvarnar og verðum við því ekki vitni að þeim.

Aðeins 10 pysjur

19.09.2016

Pysjunum fækkar jafnt og þétt og einungis var komið með 10 pysjur í eftirlitið í dag. Greinlega er pysjutímabilið að klárast þetta árið. Pysjurnar eru nú orðnar 2619 talsins. Þetta er næst mesti fjöldi pysja frá upphafi pysjueftirlitsins, sem hófst árið 2003.

Óvenju léttar pysjur í dag

18.09.2016

Komið var með 25 pysjur í pysjueftirlitið í dag. Margar þeirra voru óvenju léttar og sú léttasta var einungis 162 grömm. Meðalþyngd pysjanna í dag er um 30 grömmum lægri en meðalþyngd allra pysjanna sem komið hefur verið með á tímabilinu.

Nú eru pysjurnar orðnar 2609 talsins.

Jólapysjur ?

17.09.2016

Þessir flottu jólasveinar voru á árgangsmóti um helgina og skelltu sér að sjálfsögðu í Sæheima til að fá mynd af sér með pysjum og gangaverði frá skólaárunum.

Pysjurnar í dag voru talsvert færri en þær hafa verið síðustu dagana eða aðeins 29 talsins. Heildarfjöldinn er því kominn upp í 2583 pysjur.

Færri og léttari pysjur

16.09.2016

Í dag var einungis komið með 60 pysjur í eftirlitið. Eins og oft gerist þegar sígur á seinni hluta pysjutímans þá eru að koma léttari pysjur en hafa verið upp á síðkastið. Flestar eru þær þó tilbúnar að halda á haf út. Vonandi heldur pysjufjörið áfram yfir helgina þó að það verði ekki alveg eins mikið fjör og var um síðustu helgi, þegar komið var með hátt í 600 pysjur.

 

Komnar 2500 pysjur

16.09.2016

Nú rétt fyrir hádegið var komið með pysju númar 2500 í pysjueftirlitið. Það var Þorbjörn Andri sem fann pysjuna. Hann hefur fundið nokkuð af pysjum og glatt margan ferðamanninn með því að gefa þeim pysjur til að sleppa.

Nálægt 2500 pysjum

15.09.2016

Pysjurnar eru orðnar 2494 talsins, þar af 71 í dag. Þau sem komu með fyrstu pysju dagsins voru langt að komin í pysjuleit, en þau voru frá Suður-Afríku. Þau voru á leið í Höfðavíkina til að sleppa henni.

Færri pysjur í dag

14.09.2016

Í dag var komið með 102 pysjur í vigtun og vængmælingu hjá pysjueftirlitinu. Þetta eru talsvert færri pysjur en komið hefur verið með síðustu daga, en þær eru samt margar í ljósi þess að þær eru álíka margar og komu allt pysjutímabilið árið 2014. Það voru krakkarnir í 10. bekk GRV sem komu með fyrstu pysjur dagsins þegar þau heimsóttu safnið ásamt kennurum sínum. 

Heildarfjöldi pysja er nú kominn upp í 2423 pysjur og er þetta því þegar orðið næst mesti fjöldi pysja frá upphafi pysjueftirlitsins. Flestar voru pysjurnar í fyrra, eða samtals 3831 talsins. Það er hæpið að við náum þeim fjölda en mögulega náum við að fara yfir 3000 pysjur. En það er erfitt að spá um fjölda pysja eins og allir vita og bara spennandi að sjá hverjar lokatölurnar verða.

Á myndinni er hún Hrafntinna sem kom með tvær pysjur til okkar eins og glöggt má sjá.

Þyngsta pysjan

13.09.2016

Í fyrradag sögðum við frá þyngstu pysju sem komið hefur verið með í pysjueftirlit Sæheima síðan árið 2007.  Metið stóð ekki lengi því að í dag var komið með enn þyngri pysju. Var hún 357 grömm að þyngd. Hún fannst á gatnamótum Strandvegar og Heiðarvegar og finnandi hennar var Guðrún Eydís.

Árið 2003, sem var fyrsta ár pysjueftirlitsins voru pysjurnar talsvert þyngri en þær hafa verið síðan. Þá var meðalþyngd pysjanna 288 grömm og þyngsta pysjan var 450 grömm. Síðan þá hefur meðalþyngd pysjanna verið mjög mismunandi. 

Nú er komin 2321 pysja í eftirlitið þetta árið.

Komnar 1927 pysjur

11.09.2016

Í dag var komið með 263 pysjur í pysjueftirlitið og er því heildarfjöldinn kominn upp í 1928 pysjur. Þetta eru enn fleiri pysjur en komið var með árið 2012, sem var næst mesti fjöldi pysja frá því að pysjueftirlitið hófst. Þá var komið með 1830 pysjur. Nú verður spennandi að sjá hvort að við náum fleiri pysjum en í fyrra, en þá var komið með samtals 3831 pysju, sem er mesti fjöldi til þessa.

Í ár eru pysjurnar heldur þyngri en þær hafa verið síðustu ár og í dag var komið með þyngstu pysju sem komið hefur verið með í eftirlitið síðan árið 2007. Var hún 355 grömm að þyngd og fannst í Búhamrinum. Á fyrstu árum eftirlitsins, sem hófst árið 2003, komu nokkrar pysjur sem voru yfir 400 grömm að þyngd. 

Heimsmetið slegið

10.09.2016

Búið er að vera mikið á gera í pysjueftirlitinu alveg frá því að safnið opnaði í morgun og strax klukkan 13 var búið að vigta um 100 pysjur. Þegar fjörið hélt áfram fram eftir degi fóru starfsmenn Sæheima að verða mjög spenntir, því að við sáum fram á að mögulega myndum við ná að slá heimsmetið í pysjuvigtun sem sett var þann 27. september í fyrra. Rétt fyrir klukkan 18 í dag var komið með pysju númer 310 í pysjueftirlitið og þar með var heimsmetið slegið. Það voru þær Kolbrún Birna og Una María sem komu með heimsmetspysjuna í eftirlitið.

Nú eru samtals komnar 1665 pysjur á þessu tímabili. Við erum sem sagt búin að toppa árið 2007 (með 1654 pysjur) og með sama áframhaldi munum við toppa árið 2012 (með 1830 pysjur) á allra næstu dögum.

Nú er um að gera að fara á pysjuveiðar í kvöld og reyna að setja nýtt heimsmet á morgun.

 

230 pysjur í dag

09.09.2016

Í dag voru vigtaðar og vængmældar 230 pysjur í Sæheimum og er því heildarfjöldi pysja í eftirlitinu kominn upp í 1355 á þessu pysjutímabili. Miðað við hvað enn eru að koma margar pysjur á degi hverjum þá erum við mjög bartsýn á að toppa árin 2007 (með 1654 pysjur) og 2012 (með 1830 pysjur). Við erum líka alveg viss um að helgin framundan verði flott pysjuhelgi. Safnið verður opið kl. 10 - 17 bæði laugardag og sunnudag.