Fréttir

Aðeins 10 pysjur

19.09.2016

Pysjunum fækkar jafnt og þétt og einungis var komið með 10 pysjur í eftirlitið í dag. Greinlega er pysjutímabilið að klárast þetta árið. Pysjurnar eru nú orðnar 2619 talsins. Þetta er næst mesti fjöldi pysja frá upphafi pysjueftirlitsins, sem hófst árið 2003.

Óvenju léttar pysjur í dag

18.09.2016

Komið var með 25 pysjur í pysjueftirlitið í dag. Margar þeirra voru óvenju léttar og sú léttasta var einungis 162 grömm. Meðalþyngd pysjanna í dag er um 30 grömmum lægri en meðalþyngd allra pysjanna sem komið hefur verið með á tímabilinu.

Nú eru pysjurnar orðnar 2609 talsins.

Jólapysjur ?

17.09.2016

Þessir flottu jólasveinar voru á árgangsmóti um helgina og skelltu sér að sjálfsögðu í Sæheima til að fá mynd af sér með pysjum og gangaverði frá skólaárunum.

Pysjurnar í dag voru talsvert færri en þær hafa verið síðustu dagana eða aðeins 29 talsins. Heildarfjöldinn er því kominn upp í 2583 pysjur.

Færri og léttari pysjur

16.09.2016

Í dag var einungis komið með 60 pysjur í eftirlitið. Eins og oft gerist þegar sígur á seinni hluta pysjutímans þá eru að koma léttari pysjur en hafa verið upp á síðkastið. Flestar eru þær þó tilbúnar að halda á haf út. Vonandi heldur pysjufjörið áfram yfir helgina þó að það verði ekki alveg eins mikið fjör og var um síðustu helgi, þegar komið var með hátt í 600 pysjur.

 

Komnar 2500 pysjur

16.09.2016

Nú rétt fyrir hádegið var komið með pysju númar 2500 í pysjueftirlitið. Það var Þorbjörn Andri sem fann pysjuna. Hann hefur fundið nokkuð af pysjum og glatt margan ferðamanninn með því að gefa þeim pysjur til að sleppa.

Nálægt 2500 pysjum

15.09.2016

Pysjurnar eru orðnar 2494 talsins, þar af 71 í dag. Þau sem komu með fyrstu pysju dagsins voru langt að komin í pysjuleit, en þau voru frá Suður-Afríku. Þau voru á leið í Höfðavíkina til að sleppa henni.

Færri pysjur í dag

14.09.2016

Í dag var komið með 102 pysjur í vigtun og vængmælingu hjá pysjueftirlitinu. Þetta eru talsvert færri pysjur en komið hefur verið með síðustu daga, en þær eru samt margar í ljósi þess að þær eru álíka margar og komu allt pysjutímabilið árið 2014. Það voru krakkarnir í 10. bekk GRV sem komu með fyrstu pysjur dagsins þegar þau heimsóttu safnið ásamt kennurum sínum. 

Heildarfjöldi pysja er nú kominn upp í 2423 pysjur og er þetta því þegar orðið næst mesti fjöldi pysja frá upphafi pysjueftirlitsins. Flestar voru pysjurnar í fyrra, eða samtals 3831 talsins. Það er hæpið að við náum þeim fjölda en mögulega náum við að fara yfir 3000 pysjur. En það er erfitt að spá um fjölda pysja eins og allir vita og bara spennandi að sjá hverjar lokatölurnar verða.

Á myndinni er hún Hrafntinna sem kom með tvær pysjur til okkar eins og glöggt má sjá.

Þyngsta pysjan

13.09.2016

Í fyrradag sögðum við frá þyngstu pysju sem komið hefur verið með í pysjueftirlit Sæheima síðan árið 2007.  Metið stóð ekki lengi því að í dag var komið með enn þyngri pysju. Var hún 357 grömm að þyngd. Hún fannst á gatnamótum Strandvegar og Heiðarvegar og finnandi hennar var Guðrún Eydís.

Árið 2003, sem var fyrsta ár pysjueftirlitsins voru pysjurnar talsvert þyngri en þær hafa verið síðan. Þá var meðalþyngd pysjanna 288 grömm og þyngsta pysjan var 450 grömm. Síðan þá hefur meðalþyngd pysjanna verið mjög mismunandi. 

Nú er komin 2321 pysja í eftirlitið þetta árið.

Komnar 1927 pysjur

11.09.2016

Í dag var komið með 263 pysjur í pysjueftirlitið og er því heildarfjöldinn kominn upp í 1928 pysjur. Þetta eru enn fleiri pysjur en komið var með árið 2012, sem var næst mesti fjöldi pysja frá því að pysjueftirlitið hófst. Þá var komið með 1830 pysjur. Nú verður spennandi að sjá hvort að við náum fleiri pysjum en í fyrra, en þá var komið með samtals 3831 pysju, sem er mesti fjöldi til þessa.

Í ár eru pysjurnar heldur þyngri en þær hafa verið síðustu ár og í dag var komið með þyngstu pysju sem komið hefur verið með í eftirlitið síðan árið 2007. Var hún 355 grömm að þyngd og fannst í Búhamrinum. Á fyrstu árum eftirlitsins, sem hófst árið 2003, komu nokkrar pysjur sem voru yfir 400 grömm að þyngd. 

Heimsmetið slegið

10.09.2016

Búið er að vera mikið á gera í pysjueftirlitinu alveg frá því að safnið opnaði í morgun og strax klukkan 13 var búið að vigta um 100 pysjur. Þegar fjörið hélt áfram fram eftir degi fóru starfsmenn Sæheima að verða mjög spenntir, því að við sáum fram á að mögulega myndum við ná að slá heimsmetið í pysjuvigtun sem sett var þann 27. september í fyrra. Rétt fyrir klukkan 18 í dag var komið með pysju númer 310 í pysjueftirlitið og þar með var heimsmetið slegið. Það voru þær Kolbrún Birna og Una María sem komu með heimsmetspysjuna í eftirlitið.

Nú eru samtals komnar 1665 pysjur á þessu tímabili. Við erum sem sagt búin að toppa árið 2007 (með 1654 pysjur) og með sama áframhaldi munum við toppa árið 2012 (með 1830 pysjur) á allra næstu dögum.

Nú er um að gera að fara á pysjuveiðar í kvöld og reyna að setja nýtt heimsmet á morgun.

 

230 pysjur í dag

09.09.2016

Í dag voru vigtaðar og vængmældar 230 pysjur í Sæheimum og er því heildarfjöldi pysja í eftirlitinu kominn upp í 1355 á þessu pysjutímabili. Miðað við hvað enn eru að koma margar pysjur á degi hverjum þá erum við mjög bartsýn á að toppa árin 2007 (með 1654 pysjur) og 2012 (með 1830 pysjur). Við erum líka alveg viss um að helgin framundan verði flott pysjuhelgi. Safnið verður opið kl. 10 - 17 bæði laugardag og sunnudag.

Poppari

09.09.2016

Í gær fengum við pysju í eftirlitið sem var toppari en það er spurning hvort að þessi gæti ekki kallast poppari. En eins og allir Bieber aðdáendur sjá þá er bakgrunnurinn bolur með mynd af átrúnaðargoðinu.

Toppari

08.09.2016

Ein af pysjunum sem komið var með í pysjueftirlit Sæheima í dag var svokallaður toppari. Hann hafði hvítan fjaðraskúf upp úr höfðinu en var að öðru leyti eins og venjuleg pysja. Á safninu er til uppstoppaður toppari sem fannst fyrir mörgum árum. Hann hefur einnig hvítan fjaðraskúf á höfðinu. Topparar eru afar sjaldgæfir en vonandi nær þessi að auka kyn sitt verulega.

302 pysjur í dag

08.09.2016

Nú eru komnar samtals 1125 pysjur í pysjueftirlitið og hefur þeim fjölgað dag frá degi. Í gær voru þær 233 talsins og í dag voru vigtaðar 302 pysjur. Það er því spennandi að vita hvað þær verða margar á morgun og næstu daga. Pysjurnar hafa flestar verið mjög góðar og aðeins örfáar sem hefur þurft að ala í nokkra daga sökum þess hve smáar þær eru. Það voru þau Georg og Sunna sem komu með þúsundustu pysjuna 

Komnar 600 pysjur

07.09.2016

Þeir félagar Auðunn og Hafsteinn komu rétt í þessu með sexhunduðustu pysjuna í pysjueftirlit Sæheima. Pysjan fannst upp við Eldfell og var 164 grömm að þyngd.

Enn fleiri pysjur

05.09.2016

Í dag var komið með 125 pysjur í pysjueftirlitið og er því heildarfjöldinn kominn upp í 424 pysjur. Það er gaman að segja frá því að þær eru flestar vel gerðar og tilbúnar til að halda á haf út. Aðeins er ein pysja í fóstri hjá okkur vegna þess hve létt hún er. En því miður eru líka nokkarar pysjur sem hafa lent í grút eða olíu og þarf að hreinsa áður en hægt er að sleppa þeim. Merktar voru um 50 pysjur í dag.

Á myndinni er hún Katla María, sem kom með þrjár stórar pysjur, sem voru allar um 300 grömm að þyngd. 

Komnar 300 pysjur

05.09.2016

Systurnar Katla og Jara komu með pysju til Sæheima í morgun og reyndist það vera pysja númer 300 í pysjueftirlitinu. Þær eru úr Kópavogi og voru á leið í Herjólf. Þær ætluðu að sleppa pysjunni þaðan. Fyrir utan safnið fengu þær gefins aðra pysju og geta því báðar sleppt pysjum á leiðinni.

Flottar pysjur

03.09.2016

Í dag komu alls 69 pysjur til skráningar í pysjueftirlitið og eru því pysjurnar orðnar 184 samtals. Þær eru langflestar í góðu ástandi og alveg tilbúnar til að fara í sjóinn. Meðalþyngd þeirra er um 261 gramm, sem er nokkuð betra en var í fyrra. Fjöldi pysja hefur aukist dag frá degi og vonandi heldur sú þróun áfram.

Pysjueftirlitið fer vel af stað

01.09.2016

Fyrsta pysjan kom í pysjueftirlit Sæheima þann 24. ágúst. Næstu daga á eftir komu einstaka pysjur, en æ fleiri síðustu dagana. Í gær komu 17 pysjur í eftirlitið og 27 pysjur í dag. Krakkarnir hafa verið dugleg að koma með pysjurnar til okkar í Sæheima og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir enda er eftirlitið að gefa okkur mjög góðar upplýsingar um fjölda og ástand pysjanna ár hvert.

Pysjurnar hafa nánast allar verið vel gerðar og er meðalþyngd þeirra um 252 grömm. Það er mjög mikilvægt að sleppa þeim strax daginn eftir að þær finnast. Ef þeim er haldið lengur léttast þær hratt og verða slappar. Þær verða stressaðar í þessu nýja umhverfi sem pappakassinn er og setja oft mikla orku í að sleppa úr prísundinni. Sérstaklega ef það eru fleiri en ein pysja í kassanum. Best er að hafa aðeins eina pysju í hverjum kassa. Einnig er mjög mikilvægt að meðhöndla pysjurnar  ekki mikið því að við það geta þær misst olíuna úr fiðrinu sem er þeim svo mikilvæg til að halda vatni frá líkamanum. Pysjur sem er haldið lengi og mikið meðhöndlaðar eiga ekki mikla möguleika á að lifa.

Safnið verður opið frá kl. 10 til 17 alla daga út september. Þeir sem ekki ná að koma á þessum tíma geta líka viktað pysjurnar heima og sent okkur síðan upplýsingar um þyngd, dagsetningu og fundarstað með tölvupósti á margret@setur.is 

Hann á afmæli í dag !

20.08.2016

Við höldum upp á 5 ára afmæli Tóta lunda í dag. Við vitum ekki fyrir víst að þetta sé rétti dagurinn en hann er nálægt lagi. Tóti er auðvitað í sparifötum í tilefni dagsins og á matseðlinum verður loðna á rækjubeði að hætti Sæheima. Lundavinir Tóta á safninu eru mjög spenntir fyrir matarboðinu.