Fréttir

Pysjurnar komnar yfir 3000

07.09.2017

Heldur færri pysjur komu á vigtina í dag, 189 pysjur voru vigtaðar og er heildarfjöldinn því orðin 3026. Þyngdin á pysjunum hefur sjaldan verið eins góð og í ár. 

Fleiri pysjur en í fyrra

06.09.2017

Nú er búið að koma með 2837 pysjur í pysjueftirlit Sæheima og eru því komnar fleiri pysjur í ár en komið var með í fyrra. Þá var komið með 2639 pysjur og var það næst mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins árið 2003. 

Í dag var komið með 347 pysjur til okkar og ef pysjufjörið heldur svona áfram náum við jafnvel að toppa árið 2015, en þá var komið með 3831 pysju og er það mesti fjöldi pysja í eftirlitinu. 

Á myndinni eru þau Sindri Þór og Anna Kolbrún með eina af pysjunum sínum.

Ennþá mikið af pysjum

05.09.2017

Dagurinn í dag var aðeins rólegri hjá pysjueftirlitinu en síðustu dagar, en samt sem áður nokkuð fjörugur. Komið var með 344 pysjur til okkar í dag og er því heildarfjöldinn kominn upp í 2.460 pysjur. Það er ekki nokkur spurning að við munum toppa árið í fyrra í pysjufjölda, en þá var komið með 2.639 pysjur og var það næst mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins. 

Enn er mikill fjöldi pysja að fljúga í bæinn og ein fjölskylda kom til okkar með 40 pysjur eftir gærkvöldið.

Annasamur dagur

04.09.2017

Mjög svo annasamur dagur var í Sæheimum í dag. Ekki aðeins voru vigtaðar 420 pysjur, sem er næst mesti fjöldi sem vigtaður hefur verið á einum dagi, heldur voru líka merktar 267 pysjur. Einnig var hér á ferðinni kvikmyndatökulið frá CBS Sunday News, sem er hér við tökur á fréttaþætti um pysjubjörgun í Vestmannaeyjum.

Heildarfjöldinn er kominn upp í 2145 pysjur.

Komnar 1725 pysjur

03.09.2017

Í dag voru 411 pysjur vigtaðar og vængmældar í pysjueftirliti Sæheima. Heildarfjöldinn er því kominn upp í 1724 pysjur og því greinilegt að þetta verður eitt af bestu árunum frá því pysjueftirlitið hóf göngu sína.

Þó að heimsmetið frá í gær hafi ekki verið slegið þá slógum við þyngdarmetið enn og aftur, en bræðurnir Georg og Ásgeir Ingimarssynir komu með 387 gramma pysju í dag. Almennt eru pysjurnar sem komið er með vel gerðar.

Heimsmetið rækilega slegið

02.09.2017

Við starfsfólk Sæheima höfðum tröllatrú á að heimsmet í pysjuvigtun yrði slegið um helgina og erum búin að vera mjög spennt. 

Í fyrra settum við heimsmet þann 10. september þegar við vigtuðum 310 pysjur á einum degi, en í dag var komið með 444 pysjur í eftirlitið og heimsmetið því rækilega slegið. Þar af voru 135 pysjur merktar. Dagurinn hefur því verið mjög fjörugur á fiskasafninu og margir rétt okkur hjálparhönd. Fjöldinn í ár er því kominn upp í 1314 pysjur.

Tóti er búinn að fara yfir tölurnar og segir að þetta sé rétt talið hjá okkur.

225 pysjur í dag

01.09.2017

Komið var með 225 pysjur í pysjueftirlitið í dag, en eru það aðeins færri en komið var með í gær. Heildarfjöldinn er kominn upp í 870 pysjur. Við erum þó enn að vonast til að slá heimsmetið frá í fyrra, sem var 310 pysjur á einum degi og hvetjum því alla til að koma með pysjurnar í Sæheima eða vigta þær heima og senda okkur niðurstöðurnar.

Á myndinni eru þær Berta og Inga Birna Sigursteinsdætur sem komu með 357 gramma pysju en það er sú þyngsta á þessu tímabili. Við erum nokkuð ánægð með hvað pysjurnar eru almennt góðar og er meðalþyngd þeirra sem af er tímabilinu 270 grömm.

Rúmlega 100 fleiri en í gær

31.08.2017

Þá er heildarfjöldi pysja kominn upp í 644 pysjur. Í dag var komið með 263 pysjur í pysjueftirlitið, sem eru rúmlega 100 fleiri en komið var með í gær. Með sama áframhaldi mun heimsmetið frá í fyrra verða slegið um helgina. En þann 10. september í fyrra voru vigtaðar og vængmældar 310 pysjur í pysjueftirliti Sæheima og var það heimsmet í pysjuvigtun. Mjög hröð aukning hefur verið milli daga hjá okkur núna og miklar líkur á að takmarkið náist.

Á myndinni eru systurnar Birna María, Arna Hlíf og Erla Unnarsdætur.

160 pysjur í dag

30.08.2017

Það er greinilegt að pyjutíminn er kominn á gott skrið því að í dag var komið með 160 pysjur til okkar í pysjueftirlitið og eru það tvöfalt fleiri pysjur en komð var með í gær. Heildarfjöldinn er kominn upp í 381 pysju.

Aftur voru margar þeirra að finnast ofarlega í bænum m.a. við Suðurgarð, Olnboga, Steinstaði, Eldheima og fyrir ofan Klaufina. Það var ánægjulegt að sjá að meðalþyngd pysjann hefur heldur betur lagast og voru óvenju margar um og yfir 300 grömm að þyngd. Sú þyngsta sem af er tímabilinu kom til okkar í dag og reyndist vera 338 grömm. 

Á myndinni eru bræðurnir Rómeó Máni og Hrafn Mikael.

Pysjunum fer ört fjölgandi

29.08.2017

Komið var með 81 pysju í pysjueftirlitið í dag. Samtals eru pysjurnar því orðnar 220 í ár. Fundarstaðirnir í gærkvöldi voru dreifðari en síðustu daga og voru pysjurnar að fljúga ofar í bæinn. 

51 pysja í dag

28.08.2017

Komið var með 51 pysju í vigtun í dag, pysjurnar eru því orðnar 138 eftir daginn en pysju númer 100 fundu þau Sigdór og Díana.

Þyngsta pysjan sem af er mætti í eftirlitið í dag, en hún var 320 grömm en það voru systkinin Embla Harðardóttir og Gauti Harðarson sem komu með hana. 

Pysjunum fjölgar með degi hverjum

27.08.2017

Alls var komið með 38 pysjur í pysjueftirlit Sæheima í dag og eru það tvöfalt fleiri pysjur en komu í gær. Þá eru pysjurnar orðnar 86 talsins. Pysjuförið er greinilega að komast í gang og verður spennandi að sjá hvort aukningin haldi áfram næstu daga.

Á myndinni eru þau Heiða, Georg Ingi, Írena, Lenja og Hafdís með pysju sem þau fundu við Skýlið í gærkvöldi. 

19 pysjur í dag

26.08.2017

Í dag var komið með 19 pysjur í pysjueftirlitið og er því heildarfjöldinn kominn upp í 48 pysjur. 

Á myndinni eru systkinin Sigurmundur Gísli og Júlína Von Unnarsbörn sem komu með pysjuna sína í vigtun og mælingu.

 

Pysjunum fer fjölgandi

25.08.2017

Komið var með 11 pysjur í pysjueftirlit Sæheima í dag og er því heildarfjöldinn kominn upp í 29 pysjur. Pysjutíminn hefur farið mjög rólega af stað en nú virðist sem einhver kippur hafi komið í þetta. Við vonum að þessi aukning haldi áfram og að helgin framundan verði fjörug fyrir þá sem hyggjast finna pysjur í bænum.

Á myndinni eru þær Selma Rún Jónsdóttir, Embla Sigrún Arnsteinsdóttir og Andrea Dögg Arnsteinsdóttir en þær komu með þrjár pysjur í eftirlitið í dag.

Komnar 15 pysjur

24.08.2017

Katla María kom ásamt afa sínum með fyrstu pysju dagsins í pysjueftirlitið. Hafði hún fundist við FES og reyndist vera fimmtándu pysjan í ár. Var síðan för þeirra heitið beint niður í fjöru að sleppa pysjunni. 

Fyrsti skóladagurinn

23.08.2017

Nú er Tóti orðinn sex ára gamall og er því að byrja í skóla eins og jafnaldrar hans á Eyjunni. Hann er spenntur að byrja í skólanum, skóladótið er allt klárt og við erum ótrúlega stolt af litla skólastráknum okkar.

Komnar sjö pysjur

21.08.2017

Nú er búið að koma með sjö lundapysjur í pysjueftirlit Sæheima. Pysjutímabilið hefur farið rólega af stað en fjörið er rétt að byrja og um að gera að kíkja eftir pysjum.

Miðað við nýjustu upplýsingar frá fræðingunum á Náttúrustofu Suðurlands er ýmislegt sem bendir til að þetta verði hið ágætasta pysjutímabil og vonumst við til að þeir verði sannspáir.

Á myndinni er Hilmar Gauti Garðarsson með pysjuna sína sem fannst á Brimhólabraut. Hún var mjög flott og vóg 310 grömm, sem er vel yfir meðalþyngd lundapysja. Hinar pysjurnar hafa verið talsvert léttari en oftast eru fyrstu pysjur tímabilsins í léttari kantinum.

Tveir skötuselir

14.08.2017

Áhöfnin á Drangavík VE kom með tvo skötuseli til hafnar í morgun. Eru þeir nú í Sæheimum og beðið er milli vonar og ótta hvort að þeir lifi. Eru skötuselir afskaplega viðhvæmir fiskar og mjög erfitt að halda þeim lifandi. Bæði eru þeir mjög viðkvæmir fyrir snertingu og fá auðveldlega sár og sömuleiðis er mikið álag fyrir þá að vera dregnir upp af miklu dýpi og upplifa hinn mikla þrýstingsmun sem óhjákvæmilega verður í umhverfi þeirra við veiðarnar. 

Fyrsta pysja sumarsins

13.08.2017

Rétt í þessu var komið með fyrstu pysju sumarsins, sem fannst við Skýlíð í gærkvöldi. Hún hefur verið mikið að flýta sér því hún er mjög smá og dúnuð og engan vegin tilbúin til að halda á haf út. Pysjan var einungis 134 grömm að þyngd en til samanburðar má geta þess að meðalþyngd pysjanna í fyrra var um 270 grömm. Hún var greinilega orðin svöng því að hún sporðrenndi strax heilli loðnu.

Eins og allir vita þá varð ÍBV bikarmeistari í knattspyrnu karla í gær og af því tilefni fékk pysjan nafnið Sigurbjörg. Miðað við hvað hún er dugleg að éta þá ætti hún að verða fljót að ná góðri þyngd og verður vonandi sleppt fljótlega. Á myndinni er Freysteinn Bergmann Sæþórsson með litlu pysjuna.

Rituungar á förum

11.08.2017

Nokkur fjöldi rituunga hefur verið í eldi hjá okkur í Sæheimum í sumar. Einn af öðrum eru þeir orðnir fleygir og tilbúnir til að halda af stað út í heiminn. Í gær var farið með fjóra rituunga út í Höfðavík og þeim gefið frelsi. Sátu þeir nokkra stund í grasinu áður en þeir prófuðu að fara í sjóinn. Áður var búið að sleppa 11 rituungum og er því nokkuð farið að fækka á rituhótelinu.