Fréttir

Hreinsun á olíublautum pysjum

26.09.2017

Upp á síðkastið hefur verið unnið að því að hreinsa þær olíublautu pysjur sem borist hafa í pysjueftirlitið. Hefur það gengið mjög vel og nú þegar er búið að sleppa nokkrum þeirra. Áður en pysjurnar fá brottfararleyfi eru þær prófaðar og athugað hvort þeim sé óhætt að fara út á sjóinn. 

Á myndinni má sjá mjög olíublauta pysju sem komið var með fyrir nokkrum dögum, fyrir og eftir hreinsun. Þessa pysju þarf þó að hreinsa aftur áður en hún fær frelsið.

Það er alltaf góð tilfinning að sleppa lundapysjum og horfa á þær fljúga út á sjóinn, en það er alveg sérstaklega ánægjulegt að horfa á eftir hreinsuðu pysjunum okkar.

Ánamaðkar óskast

23.09.2017

Í vikunni var komið með tjaldsunga til okkar sem fannst við tjörnina inni í Dal. Hann var mjög blautur og kaldur og auk þess afskaplega horaður. Svo virðist sem hann hafi fengið einhver óhreinindi í fiðrið sem ollu því að hann gat ekki haldið vatni frá líkamanum og því blotnaði hann inn að skinni þegar fór að rigna.

Tjaldurinn hefur étið vel hjá okkur og eru ánamaðkar þar í sérstöku uppáhaldi. Viljum við biðja duglega krakka að athuga hvort að ekki finnist nokkrir ánamaðkar úti í garði til að færa tjaldsunganum að gjöf. 

Pysjur í roki og rigningu

23.09.2017

Komið var með 13 pysjur í eftirlitið í dag og er því heildarfjöldi þeirra kominn upp í 4792 pysjur. Við bjuggumst ekki við svona mörgum pysjum í dag, en það er greinilegt að þær létu hvorki veðurspá né ölduspá dagsins hafa nein áhrif á sig.

Á myndinni eru systurnar Nikola og Wiktoria með pysjuna sína.

Pysjur, skrofur og ormar

22.09.2017

Þá eru pysjurnar orðnar 4779 talsins, en komið var með 12 pysjur í eftirlitið í dag.

Strákarnir á myndinni komu til okkar með skrofu í vigtun og einnig týndu þeir orma handa tjaldsunga sem er hjá okkur í fóstri.

Í lok dagsins

22.09.2017

Góður endir á vinnudegi í Sæheimum er að fara út á Hamar að sleppa þeim fuglum sem eru skildir eftir hjá okkur. Alla jafna er auðvelt að koma pysjunum yfir á aðra en gengur ekki alltaf jafn vel með skrofurnar. Starfsmönnum þykir frábært að fá að sleppa þessum skemmtilegu fuglum og á myndinni er verið að sleppa tveimur skrofum sem flugu inn í sólarlagið og á vit nýrra ævintýra.

14 pysjur í dag

21.09.2017

Komið var með aðeins fleiri pysjur í dag, eða 14 talsins. Þá eru pysjurnar orðnar samtals 4767 á þessu pysjutímabili. Það er hæpið að þær nái því að verða 5000 talsins, eins og þeir allra bjartsýnustu vonuðu.

Á myndinni eru Viktoría Nansý og Jón Kristján Ásgeirsbörn með pysjuna sína.

Pysjunum fækkar dag frá degi

20.09.2017

Aðeins var komið með 8 pysjur til okkar í dag og er heildarfjöldinn nú kominn upp í 4753 pysjur. Á myndinni er Íris Dröfn Guðmundsdóttir að halda á pysju í fyrsta skipti. Með henni á myndinni er Jón Bjarki Eiríksson, frændi hennar og litla systirin Eva Berglind en fjölskyldurnar hafa komið með samtals 179 pysjur í eftirlitið í ár.

Þrátt fyrir fáar pysjur var þó nóg um að vera í Sæheimum. Fjöldi gesta heimsótti safnið af skemmtiferðaskipinu Ocean Diamond og auk þess var hér kvikmyndatökulið frá Channel 5 í London. Svo höldum við auðvitað áfram að hreinsa olíublautu pysjurnar sem hjá okkur eru.

Olíublautar pysjur hreinsaðar

19.09.2017

Nú er unnið að því að hreinsa þær pysjur sem voru olíublautar og af þeim sökum ekki hægt að sleppa. Sú vinna gengur vel og erum við búin að hreinsa um helming pysjanna. Á myndinni er pysja sem er verið að ljúka við að hreinsa. Hún var nánast svört á bringunni fyrir hreinsun og var mikill munur að sjá hana koma upp úr síðast skolvatninu með hvíta og hreina bringu. 

14 pysjur í dag

19.09.2017

Komið var með 14 pysjur til okkar í dag í vigtun og mælingu. Þær eru því orðnar 4744 talsins í ár.

Á myndinni er Þórður Örn Gunnarsson, sem kom með 3 pysjur í dag. Hann hefur ásamt fjölskyldu sinni komið með yfir 100 pysjur til okkar á þessu pysjutímabili.

 

Aðeins 13 pysjur í dag

18.09.2017

Aðeins var komið með 13 pysjur í pysjueftirlitið í dag og því bendir allt til þess að nú líði að lokum þessa tímabils. Komið var með fjórar skrofur.

87 pysjur í dag

17.09.2017

Komið var með 87 pysjur í eftirlitið í dag og er því heildafjöldinn orðinn 4717 pysjur. Auk þeirra var komið með 5 skrofur og eina sjósvölu. Merktar voru 50 pysjur.

Á myndinni eru þær Selma Marlen, Áróra Marý, Magnea og Dorothea, sem komu alla leið frá Noregi til að taka þátt í pysjubjörgun.

Aðeins 58 pysjur í dag

16.09.2017

Pysjunum fækkar í pysjueftirlitinu dag frá degi og einungis var komið með 58 pysjur í dag. Heildarfjöldinn er nú kominn upp í 4630 pysjur. 

Margir leggja mikið á sig til að bjarga pysjunum og í dag fengum við t.d. pysju sem var undir körum hjá FES og starfsmenn lyftu körunum í burtu til að ná pysjunni. Á myndinni eru systurnar Svava og Hekla Hlynsdætur sem háfuðu pysju upp úr höfninni og voru um eina og hálfa klukkustund að ná henni. Var pysjan olíublaut, en er mjög heppin að Karen er hérna hjá okkur og verður hún því hreinsuð á morgun eftir bestu mögulegu aðferðum.

Svipaður fjöldi og í gær

15.09.2017

Í dag var komið með svipaðan fjölda pysja og í gær, eða 72 pysjur. Eins og oft vill verða þegar líður á pysjutímabilið þá eru pysjurnar örlítið léttari en þegar fjöldinn er í hámarki. Pysjurnar eru þó lang flestar vel gerðar og tilbúnar að halda á haf út. Merktar voru um 50 pysjur í dag.

Komnar 4500 pysjur

14.09.2017

Þá eru komnar samtals 4500 pysjur í pysjueftirlit Sæheima þetta haustið. Eru það talsvert fleiri pysjur en hafa sést undanfarin ár og mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins, sem hefur verið starfrækt frá árinu 2003.

Nokkuð færri pysjur bárust eftirlitinu í dag en síðustu daga, en einungis var komið með 70 pysjur. Fjöldi pysja hefur sveiflast nokkuð milli daga og vonandi fer fjöldinn aftur upp á við. Nú er það orðið spurning hvort að pysjurnar nái því að verða 5000 í ár.

Á myndinni eru Hafsteinn Ingi og Vigdís sem komu með pysju númer 4500 í eftirlitið.

Olíublautar pysjur fá góða hjálp

14.09.2017

Við í Sæheimum kynnum til leiks nýjan starfsmann, sem mun aðstoða okkur næstu daga við pysjueftirlitið. Það er Karen Lynn Velas líffræðingur frá Davis í Kaliforníu. Hún hefur m.a. unnið við að hreinsa olíublauta fugla af ýmsum tegundum eftir mengunarslys.

Mun hún taka starfsfólk Sæheima á námskeið á þessu sviði. Það er mikill fengur fyrir okkur að fá sérfræðing til að kenna okkur réttu handtökin við hreinsun fugla sem lennt hafa í olíu eða grút. 

Á hverju ári eru einhverjar pysjur sem lenda í olíu eða grút og núna erum við með um 15 pysjur sem þarf að hreinsa og endurhæfa áður en hægt er að sleppa þeim. Auk þeirra eru tveir fullorðnir lundar og ein dúfa sem þarf að hreinsa.

Á myndinni eru þau Karen og Eldur A. Hansen, sem einnig hefur rétt okkur hjálparhönd við pysjueftirlitið. 

Talsvert færri pysjur í dag

13.09.2017

Í dag var einungis komið með 138 pysjur í eftirlitið og eru það talsvert færri pysjur en komið hefur verið með undanfarna daga. Við gleðjumst þó yfir því að nú er heildarfjöldi pysja kominn upp í 4430 pysjur og er það mesti fjöldi frá upphafi eftirlitsins.

Skrofur og sjósvölur

13.09.2017

Það eru ekki einungis lundapysjur sem fljúga að ljósunum í bænum. Ungar skrofu, sjósvölu og stormsvölu gera það einnig og þurfa oft á hjálp okkar mannfólksins að halda til að komast út á sjóinn. Þessir fuglar eru yfirleitt nokkuð seinna á ferðinni en pysjurnar. 

Ef að þeir sem eru í pysjuleit koma auga á þessa unga er um að gera að bjarga þeim og einnig að koma með þá í pysjueftirlitið. Nú þegar hefur verið komið með 15 skrofuunga og 19 sjósvöluunga til okkar í Sæheimum í vigtun og mælingu og hafa margir þeirra verið merktir.

Ennþá talsvert af pysjum

12.09.2017

Enn er líf og fjör í pysjueftirlitinu og í dag var komið með 245 pysjur til okkar í Sæheima. Heildarfjöldinn er því kominn upp í 4291 pysju og er það mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins. Það er áhugavert hvað dagarnir eru misjafnir, en í dag komu 95 pysjum fleiri en í gær.  

Pysjurnar komnar yfir 4000

11.09.2017

Í dag skriðum við yfir 4000 pysjur og eru 4046 pysjur í heildina þar sem við vigtuðum 150 pysjur í dag. Óvenju mikill munur er á deginum í gær og í dag á fjölda vigtaðra pysja. 

Ólafur Már Haraldsson kom með pysju númer 4000.

Heimsmetið er slegið!

10.09.2017

Í dag var komið með 363 pysjur í vigtun, mun fleiri en í gær og heimsmetið frá 2015 er því fallið! 3896 pysjur hafa verið vigtaðar í ár! Meðalþyngdinn á pysjunum er mjög góð 286 grömm og ljóst er að það er nóg eftir af pysjufjöri. 

Þess má geta að þetta er sjötti dagurinn sem við förum yfir heimsmetið frá því í fyrra yfir vigtaðar pysjur á dag.