Fréttir

Nornakrabbi tekur til sinna ráða

07.11.2017

Aftasta fótapar nornakrabba er ummyndað og nýtist ekki til gangs, heldur er það hannað til að halda á hlutum. Nornakrabbar eru þekktir fyrir að halda á ýmsu sem þeir finna á hafsbotninum eins og hlífiskildi yfir búknum. Taka þeir gjarnan þarablöðkur, svampa og pétursskip í þessum tilgangi.

Einn af nornakröbbunum í Sæheimum fannst greinilega skorta þessa hluti í búrinu sínu. Tók hann því til þess ráðs að grípa næsta krossfisk og gekk um með hann. Líklega hefur honum þótt byrgðin nokkuð þung, enda krossfiskurinn í stærra lagi. A.m.k. var krossfiskurinn laus úr prísundinni eftir nokkurn tíma. Ekki fer sögum af upplifan krossfisksins, en gera má ráð fyrir að hann sé ósáttur við að vera sviptur frelsinu á þennan hátt og er hann nú búinn að koma sér fyrir á öruggum stað hátt á gleri búrsins.

Góðar viðtökur

04.11.2017

Ljósmyndasýning frá pysjueftirlitinu 2017 var opnuð í gær og nú hafa 300 manns komið á sýninguna. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og viljum við minna á að sýningin verður einnig opin á morgun, sunnudag. Hægt er að panta myndirnar á sýningunni fram til 13. nóvember gegn vægu gjaldi.

Ljósmyndasýning frá pysjueftirlitinu

02.11.2017

Á morgun þann. 3. nóvember kl. 15 verður opnuð ljósmyndasýning frá pysjueftirliti Sæheima haustið 2017. Þar má finna myndir af langflestum þeirra sem komu með pysjur til okkar í eftirlitið. Nú er undirbúningur í hámarki fyrir sýninguna og nóg að gera enda verða yfir 800 útprentaðar ljósmyndir á sýningunni. Á myndinni eru starfsmenn Sæheima, þær Guðrún og Gígja að setja miða með nöfnum barnanna sem eru á myndunum.

Kátir kolkrabbar af Drangavík

16.10.2017

Nú í morgun færði áhöfn Drangavíkur VE Sæheimum góða gjöf. Komu þeir að landi með fjölda lifandi fiska og annarra sjávarlífvera. Þar á meðal var kolkrabbinn á myndinni en hann var ófeiminn og reyndi ekki að fela sig eins og kolkrabba er siður. Þeir komu einnig með tvo aðra kolkrabba, stærðar hlýra, tindabykkjur, nornakrabba, kola, humra, kuðungakrabba og þorska. 

Dúfan á heimleið

14.10.2017

Dúfan sem við greindum frá fyrr í mánuðinum var send á Selfoss og er þar í góðu yfirlæti hjá Eyjamanninum Ragnari Sigurjónssyni bréfdúfueiganda. Hann er búinn að hafa upp á eiganda dúfunnar, sem er merkt bréfdúfa og mun hún verða send til síns heima fljótlega.

Sagði Ragnar okkur jafnframt að um karlfugl sé að ræða sem klaktist árið 2015. Hafði hann tekið þátt í nokkrum keppnum og staðið sig vel. En í fyrra tók hann þátt í keppni frá Fagurhólsmýri og týnist þá. Taldi Ragnar hugsanlegt að dúfnahópurinn hafi lennt í fálka á leiðinni, sem hefur tvístrað hópnum. En nú er vinur okkar sem sagt á heimleið og hefur líklega frá mörgu að segja þegar hann mætir í dúfnabyrgið heima.

Lokatölur í pysjueftirlitinu 2017

08.10.2017

Ólíklegt er að pysjurnar verði fleiri í ár og því birtum við samantekt pysjueftirlitsins árið 2017.

Upphaf pysjueftirlitsins má rekja til ársins 2003, en árin á undan höfðu verið óvenju fáar pysjur að finnast í bænum. Olli það nokkrum áhyggjum og þótti rétt að skoða þessa þróun nánar. 

Það er gaman að segja frá því að aldrei hafa jafn margar pysjur borist eftirlitinu og nú í ár. Samtals urðu pysjurnar 4814 talsins og eru það um 1000 fleiri pysjur en bárust eftirlitinu árið 2015 sem var stærsta árið fram til þessa. Vonandi heldur þessi þróun áfram.

Meðalþyngd pysjanna var einnig góð í ár, eða 285,7 grömm. Hefur hún aðeins einu sinni áður mælst hærri, en það var árið 2003 þegar meðalþyngd pysja var 288,3 grömm. Þyngsta pysjan sem komið var með í eftirlitð var 387 grömm. Lífslíkur pysjanna eru meiri eftir því sem þær eru þyngri og því ríkir mikil bjartsýni fyrir hönd pysjanna í ár og gaman að sjá hvort að þær skili sér ekki í varpið þegar þeirra tími kemur. Meira en fjórðungur pysjanna var merktur og því ættum við að verða vör við þær í framtíðinni. 

Pysjueftirlitið fór frekar rólega af stað en komið var með fyrstu pysjuna þann 13. ágúst og sú næsta kom ekki fyrr en 19. ágúst. Síðan voru að berast tvær til þrjár pysjur á dag. En í lok ágúst varð mikil aukning milli daga og þann 2. september slógum við heimsmet í pysjuvigtun þegar voru vigtaðar 444 pysjur á einum degi. Næstu dagar á eftir voru einnig mjög fjörugir. Þegar nálgaðist miðjan mánuðin var síðan greinilegt að pysjufjörið var í rénun. Síðustu pysjurnar komu í eftirlitið 1. og 4. október. 

Eins og fyrri ár hefur nokkur fjöldi af olíu- og grútarbautum pysjum borist til okkar. Eins og við greindum frá þann 14. september, höfum við fengið góða hjálp við að hreinsa þær. Bæði eru það ný efni og nýjar aðferðir sem flýta ferlinu mjög mikið og þegar þetta er ritað höfum við náð að sleppa um 20 af þessum pysjum. Þetta er mikil vinna en sömuleiðis mjög ánægjulegt. 

Viljum við þakka bæjarbúum fyrir að taka svo góðan þátt í eftirlitinu með okkur, því án ykkar hjálpar væri þetta ekki mögulegt. Pysjueftirlitið er að gefa okkur mjög mikilvægar upplýsingar um fjölda pysja, ástand þeirra og hvenær þær yfirgefa holurnar sínar og fljúga til hafs. Það er í raun og veru ótrúlegt að heilt bæjarfélag taki þátt í vísandaverkefni af jafn miklum áhuga og dugnaði eins og raun ber vitni. Lundinn er okkur öllum hjartfólgin og er þessi samvinna fiskasafnsins og bæjarbúa er að skila afskaplega mikilvægum upplýsingum inn í heildarmyndina um ástand lundastofnsins. Kærar þakkir.

Bárður í baði

07.10.2017

Fyrr í sumar sögðum við frá lundanum Bárði Mýrdal sem var komið með til okkar (http://saeheimar.is/is/read/2017-07-21/bardur-myrdal/). Báður var með einhvers konar fitu í fiðrinu sem varð til þess að hann hélt ekki vatni frá líkamanum og blotnaði þar af leiðandi mikið þegar hann synti. Erfiðlega hefur gengið að hreinsa þessa fitu. Nýlega var hann hreinsaður í þriðja sinn og vonum við innilega að það dugi til og hægt verði að gefa honum frelsi á næstu dögum.

Lundarnir Tóti og Hafdís fylgdust spennt með þegar Bárður var baðaður og leit helst út fyrir að þau væru að hvetja hann áfram í þessum raunum "koma svo Bárður, þú getur þetta". 

Síðbúin pysja

04.10.2017

Rétt í þessu var komið með pysju til okkar sem fannst innilokuð í FES. Líklega hefur greyið verið þarna í nokkra daga enda var hún sársvöng og sporðrendi heilli loðnu eins og ekkert væri. Pysjan var aðeins 182 grömm og fær því loðnur eins og hún getur í sig látið næstu daga. 

Safnið verður opið alla virka daga í október klukkan 14-15:30 og sömuleiðis verður opið á laugardögum klukkan 13-16, þannig að ef svo ólíklega vill til að fleiri pysjur finnist þá má koma með þær í vigtun á þessum tímum.

Dúfa gerir sig heimakomna í Sæheimum

02.10.2017

Í síðustu viku var komið með dúfu til okkar í Sæheimum, sem hafði fundist í garði í nágrenni safnsins og var hún bæði blaut og eitthvað slöpp. Fékk hún góða umönnun hér í nokkra daga og þegar hún virtist vera orðin hress var henni sleppt í garði í nágrannans.

Eins og er vitað þá eru dúfur bæði kænar og ratvísar og er þessi engin undantekning frá því. Hefur hún komið ítrekað í heimsókn á safnið. Kemur hún upp stigaganginn eins og aðrir gestir safnsins og laumar sér í kornið góða sem hér er að finna.

Lundarnir á safninu eru ekki ánægðir með þessa boðflennu og reyna að reka hana út en dúfan lætur það ekkert á sig fá. Beitir hún síðan ýmsum brögðum til að komast hjá því að vera sett út aftur. Myndin er tekin í fuglasalnum þar sem dúfan situr á höfði kambháfs, sem þar er uppstoppaður. 

Síðasta pysjan ?

01.10.2017

Komið var með þessa litlu pysju til okkar í pysjueftirlitið í dag. Hún vóg einungis 151 gramm og er með þeim allra minnstu í ár. Verður hún hjá okkur í nokkra daga og verður sleppt þegar hún hefur að mestu losnað við dúninn og hefur bætt á sig um það bil 100 grömmum. Litlar pysjur eru oft ótrúlega fljótar að þyngjast ef þær fá nóg að éta.

Er von á fleiri pysjum ?

30.09.2017

Nú hefur ekki verið komið með pysjur í pysjueftirlitið í tvo daga og líklegt má því telja að pysjutímabilinu 2017 sé lokið. Hugsanlega eiga þó einhverjar síðbúnar pysjur eftir að láta sjá sig.

Þar sem síðasti dagur sumaropnunar safnsins er í dag viljum við benda á að safnið verður opið klukkan 13-16 á morgun, sunnudaginn 1. október. Stefnt er að því að hafa safnið opið eitthvað á virkum dögum í október, auk hinnar hefðbundnu laugardagsopnunar. En tímasetning opnunarinnar hefur ekki enn verið ákveðin. Það verður því áfram hægt að koma með pysjur í vigtun.

Gáfu ánamaðka

28.09.2017

Aðeins var komið með fjórar pysjur í pysjueftirlitið í dag. Einnig var komið með tvær sjósvölur. Önnur þeirra fannst um borð í Þórunni Sveins VE og var hún olíublaut. Verður hún hreinsuð næstu daga. Síðan kom hingað dúfa sem kom bara sjálf í heimsókn.

Krakkarnir á myndinni komu til okkar með ánamaðka handa tjaldsunganum sem er í fóstri hjá okkur og voru þeir fljótir að hverfa. Nú er spáð talsverðri rigningu næstu daga og þá er auðveldara að ná í ánamaðka. Tjaldsunginn okkar yrði mjög ánægður að fá fleiri ánamaðka að gjöf.

Merkt skrofa úr Ystakletti

27.09.2017

Í gær var komið með skrofu til okkar í vigtun, sem hafði fundist um morguninn við Hamarsskóla. Var hún merkt og við eftirgrenslan kom í ljós að númerið tilheyrði skrofuunga, sem starfsmenn Náttúrustofu Suðurlands merktu í skrofubyggðinni í Ystakletti nú síðsumars. Er það með ólíkindum, þar sem einungis voru merktir 11 skrofuungar þar í sumar. Í fyrra fengum við einnig til okkar skrofuunga sem fannst á svipuðum slóðum, sem sömuleiðis hafði verið merktur fyrr um sumarið í Ystakletti. Þá voru einungis merktir 5 skrofuungar þar. 

Aðeins þrjár pysjur í dag

26.09.2017

Þá erum við farin að sjá fyrir endann á pysjutímanum. Aðeins var komið með þrjár pysjur í eftirlitið í dag og er því heildarfjöldinn kominn upp í 4806 pysjur.

Á myndinni eru þau Gísli, Elísbet og Erla með pysju sem fannst við Vinnslustöðina í gærkvöldi.

Hreinsun á olíublautum pysjum

26.09.2017

Upp á síðkastið hefur verið unnið að því að hreinsa þær olíublautu pysjur sem borist hafa í pysjueftirlitið. Hefur það gengið mjög vel og nú þegar er búið að sleppa nokkrum þeirra. Áður en pysjurnar fá brottfararleyfi eru þær prófaðar og athugað hvort þeim sé óhætt að fara út á sjóinn. 

Á myndinni má sjá mjög olíublauta pysju sem komið var með fyrir nokkrum dögum, fyrir og eftir hreinsun. Þessa pysju þarf þó að hreinsa aftur áður en hún fær frelsið.

Það er alltaf góð tilfinning að sleppa lundapysjum og horfa á þær fljúga út á sjóinn, en það er alveg sérstaklega ánægjulegt að horfa á eftir hreinsuðu pysjunum okkar.

Ánamaðkar óskast

23.09.2017

Í vikunni var komið með tjaldsunga til okkar sem fannst við tjörnina inni í Dal. Hann var mjög blautur og kaldur og auk þess afskaplega horaður. Svo virðist sem hann hafi fengið einhver óhreinindi í fiðrið sem ollu því að hann gat ekki haldið vatni frá líkamanum og því blotnaði hann inn að skinni þegar fór að rigna.

Tjaldurinn hefur étið vel hjá okkur og eru ánamaðkar þar í sérstöku uppáhaldi. Viljum við biðja duglega krakka að athuga hvort að ekki finnist nokkrir ánamaðkar úti í garði til að færa tjaldsunganum að gjöf. 

Pysjur í roki og rigningu

23.09.2017

Komið var með 13 pysjur í eftirlitið í dag og er því heildarfjöldi þeirra kominn upp í 4792 pysjur. Við bjuggumst ekki við svona mörgum pysjum í dag, en það er greinilegt að þær létu hvorki veðurspá né ölduspá dagsins hafa nein áhrif á sig.

Á myndinni eru systurnar Nikola og Wiktoria með pysjuna sína.

Pysjur, skrofur og ormar

22.09.2017

Þá eru pysjurnar orðnar 4779 talsins, en komið var með 12 pysjur í eftirlitið í dag.

Strákarnir á myndinni komu til okkar með skrofu í vigtun og einnig týndu þeir orma handa tjaldsunga sem er hjá okkur í fóstri.

Í lok dagsins

22.09.2017

Góður endir á vinnudegi í Sæheimum er að fara út á Hamar að sleppa þeim fuglum sem eru skildir eftir hjá okkur. Alla jafna er auðvelt að koma pysjunum yfir á aðra en gengur ekki alltaf jafn vel með skrofurnar. Starfsmönnum þykir frábært að fá að sleppa þessum skemmtilegu fuglum og á myndinni er verið að sleppa tveimur skrofum sem flugu inn í sólarlagið og á vit nýrra ævintýra.

14 pysjur í dag

21.09.2017

Komið var með aðeins fleiri pysjur í dag, eða 14 talsins. Þá eru pysjurnar orðnar samtals 4767 á þessu pysjutímabili. Það er hæpið að þær nái því að verða 5000 talsins, eins og þeir allra bjartsýnustu vonuðu.

Á myndinni eru Viktoría Nansý og Jón Kristján Ásgeirsbörn með pysjuna sína.