Fréttir

Opnunartími um páskana

28.03.2018

Á fimmtudag er safnið opið klukkan 14-15 og á laugardag klukkan 13-16. Tóti lundi og starfsfólkið óskar öllum gleðilegra páska.

Óvenjuleg rauðspretta

21.03.2018

Áhöfnin á Maggý VE færði Sæheimum góða gjöf er þeir komu að landi í gærkvöldi. Reyndist þetta vera óvenjulegt litarafbrigði af rauðsprettu, sem veiddist í Álnum milli lands og Eyja. Var hún sett í búrið með rauðsprettunum sem fyrir eru á safninu og má segja að hún hafi skorið sig verulega frá þeim. Á myndinni er nýkomna rauðsprettan við hlið ósköp venjulegrar rauðsprettu, sem reyndar sést ekki vel því hún fellur svo vel að bakgrunninum. Við höfum áður verið með rauðsprettur sem voru nánast hvítar, en enga sem líkist þessari. Það er gaman þegar sjómenn eru vakandi fyrir óvenjulegum fiskum og hafa fyrir því að færa okkur.

Haftyrðlar frá Svalbarða

09.02.2018

Óvenju margir haftyrðlar fundust á götum bæjarins núna í desember og janúar. Þeir eru mjög smávaxnir og hrekjast stundum undan vindi í hvassviðrum og jafnvel langt inn í land. Við fréttum af hópi haftyrðla sem héldu sig á sjónum austan við Heimaey og voru fuglarnir sem voru að finnast í bænum að öllum líkindum úr þessum hópi. Einn af haftyrðlunum sem fannst var með senditæki fest á sig. Við eftirgrennslan kom í ljós að það hafði verið fest á fuglinn s.l. sumar á Svalbarða. Við getum því ályktað að hópurinn austan við Eyjar sé þaðan. Þetta er nokkur langur vegur fyrir svo litla fugla.

Annar haftyrðill

08.01.2018

Í dag var komið með annan haftyrðil til okkar. Fyrir jól var hópur haftyrðla á sjónum autan við Eyjar og einhverjir þeirra hröktust líklega undan vindi og fundust á götum bæjarins. Komið var með flesta þeirra til okkar í Sæheima.

Haftyrðlar eru mjög viðkvæmir og gengur illa að halda þeim lifandi, sérstaklega vegna þess að helsta fæða þeirra eru smá krabbadýr í svifi og því vandasamt að finna rétta fæðu handa þeim. Einnig virðast þeir verða mjög stressaðir að vera í haldi. Það er því allra best fyrir þá að komast til sjávar sem allra fyrst. Á myndinni er Aron Smárason sem fann haftyrðilinn og fór hann með hann út á Hamar til að sleppa honum.

Haftyrðill

05.01.2018

Þessar systur fundu haftyrðil á Heiðarveginum, sem náði ekki að hefja sig til flugs. Þær komu með hann í Sæheima og fóru þaðan beint út í Höfðavík til að sleppa honum. Haftyrðlar eru mjög viðkvæmir og því er alltaf best að sleppa þeim við fyrsta tækifæri. Stelpurnar heita Hulda Brá, Heiða Lára og Unnur Þórdís.

Teisturnar í jólabaði

21.12.2017

Í nóvember var komið með tvær mikið olíublautar teistur til okkar í Sæheima. Voru þær hreinsaðar fljótlega eftir komuna á safnið. Eftir það voru þær látnar synda reglulega, en urðu alltaf mjög blautar og því ekki hægt að sleppa þeim. Það er afar mikilvægt fyrir sjófugla að geta haldið vatni frá líkamanum annnars er dauðinn vís.

Þó að teistur séu af svartfuglaætt eins og lundar, þá eru þær að hegða sér að mörgu leyti ólíkt lundunum, sem eru á safninu hjá okkur. Ef við setjum tvo ókunna lunda saman þá ráðast þeir oftast hvor á annann og þarf því að halda þeim aðskildum. En þegar teisturnar voru settar saman þá virtust þær vera ánægðar að hittast og fóru fljótlega að kúra saman. Þær eru nú orðnar hinir bestu vinir og spjalla gjarnan saman með lágværu tísti. 

Það er búið að vera gaman að kynnast þessum skemmtilegu og ljúfu fuglum en við vonumst þó til að koma þeim út í náttúra aftur sem allra fyrst. Í gær voru þær oru báðar hreinsaðar á ný og vonandi dugar það til.

Fleiri haftyrðlar

19.12.2017

Í dag var komið með tvo haftyrðla til viðbótar til okkar í Sæheimum. Við höfum frétt af hópi haftyrðla sem halda sig rétt austan við Ystaklett og þeir sem ferðast með Herjólfi geta jafnvel komið auga á þá á sjónum.  

Haftyrðlar á ferð

17.12.2017

Í dag var komið með tvo haftyrðla til okkar í Sæheima, sem höfðu fundist í bænum. 

Haftyrðlar eru hánorrænir fuglar, sem verpa ekki hér, en halda sig gjarnan á sjónum við suðurströndina yfir vetrartímann. Þeir eru af svartfuglaætt og eru þeir lang minnstir svartfugla. Þeir eru um 150 grömm að þyngd, en til samanburðar er lundi um 500 grömm. Stundum gerist það í hvassviðrum að haftyrðlar hrekjast undan vindi upp á land og hafa jafnvel fundist langt inn í landi. 

Haftyrðlarnir tveir sem komið var með til okkar voru sprækir og vel haldnir og því var ákveðið að sleppa þeim samdægurs. Voru þeir frelsinu fegnir og flugu langt á haf út. Á myndinni má sjá Guðrúnu Ósk Jóhannesdóttur starfsmann Sæheima með annan haftyrðilinn.

Síðbúnar sjósvölur

01.12.2017

Ungar sjósvölu og stormsvölu fljúga stundum að ljósunum í bænum, líkt og lundapysjur. Þær eru yfirleitt seinna á ferðinni en pysjurnar, en nú í vikunni var bæði komið með stormsvölu og sæsvölu til okkar í Sæheimum Þær eru auðvitað mjög seint á ferðinni og stormsvalan var meira að segja ennþá aðeins dúnuð. 

Stormsvalan er minnsti sjófugl Evrópu og svalan sem komið var með til okkar var aðeins 28 grömm. Það var Sóldís Sif Kjartansdóttir sem fann stormsvöluna þegar hún var að heimsækja ömmu sína á Búastaðabrautinni. Eiga svölurnar báðar langt ferðalag fyrir höndum, en þær fljúga til Suður Atlantshafs á haustin.

Starfsmenn Náttúrustofu Suðurlands merktu báðar svölurnar.

Fálkinn frjáls

28.11.2017

Þann 9. nóvember s.l. var komið með fálka til okkar, sem var með óhreinindi í fiðrinu og þurfti hreinsunar við. Reyndist þetta vera förufálki, sem er sjaldséður flækingur hér á landi og er nokkuð minni en okkar íslenski fálki. Var fálkinn látinn jafna sig í nokkra daga og fékk vel að éta áður en hann var hreinsaður.

Í dag var farið með fálkann út á Breiðabakka og honum gefið frelsi. Það var Krisján Egilsson, sem sleppti honum, en hann hefur haft veg og vanda af umönnun fálkans meðan hann dvaldi hjá okkur í Sæheimum. 

Litarafbrigði af karfa

25.11.2017

Karfinn á myndinni kom um borð í Drangavík VE, þar sem þeir voru á karfaveiðum úti á Boða. Skiljanlega þá skar hann sig frá hinum körfunum þar sem hann var grár á litinn innan um hóp af hinum hefðbundnu rauðu körfum. Áhöfnin tók karfann og setti í frysti og færðu síðan fiskasafninu að gjöf. Það er alltaf gaman að fá óvenjulega fiska, hvort sem það eru nýjar tegundir eða litarafbrigði.

Starfskynning

23.11.2017

Elísa Hallgrímsdóttir nemandi í 10 bekk GRV var í starfskynningu hjá okkur í Sæheimum í dag. Hefur hún oft rétt okkur hjálparhönd í gegn um tíðina og er því vön ýmsum verkefnum á safninu. Því fékk hún alvöru viðfangsefni í dag, en það var að aðstoða við að hreinsa olíublauta æðarkollu, sem komið var með til okkar fyrir nokkrum dögum.

Elísa er vön að umgangast fuglana á safninu og því var hún ekki smeyk við æðarkolluna, þrátt fyrir stærðina og hamaganginn í henni. Fékk hún að hreinsa höfuð kollunnar, en til þess verks notum við gjarnan mjúka tannbursta og eyrnapinna. Hreinsun kollunnar gekk vel og nú er hún í þurrkun undir hitalampa. Þökkum við Elísu fyrir hjálpina í dag og vonum að hún hafi lært eitthvað nýtt.

Fagurserkur

23.11.2017

Eins og við greindum frá, þá færði áhöfnin á Dala- Rafni okkur í Sæheimum tvo óvenjulega fiska að gjöf. Annar þeirra var búrfisksbróðir en hinn var af tegund sem nefnist fagurserkur. Veiddust þeir báðir á Skerjadýpi í ágúst s.l. 

Fagurserkur er mun algengari hér við land en búrfisksbróðir. Hann veiddist fyrst hér við land árið 1960, suðvestur af Vestmannaeyjum. Síðan hefur hann veiðst æ oftar og frá árinu 1989 hefur hann veiðst nánast árlega. Þeir fiskar sem hafa verið að veiðast hafa verið 23-50 cm langir og fagurserkurinn sem Dala Rafn kom með að landi var 39 cm. Geta þeir orðið allt að 70 cm langir. 

Heimkynni fagurserks eru í austanverðu Atlantshafi frá Kanaríeyjum að Íslandi og að vestanverðu frá Mexíkóflóa að Maine. Einnig finnst hann við Japan, Ástralíu, Nýja Sjáland og Chile. Fagurserkur er botn- og djúpfiskur, sem er hér við land algengastur á 400-800 metra dýpi, en hefur veiðst allt niður á 1300 metra dýpi. Helsta fæða fagurserks eru fiskar, krabbadýr og smokkfiskar.

Heimild: Íslenskir fiskar (2013) eftir Gunnar Jínsson og Jónbjörn Pálsson, með teikningum eftir Jón Baldur Hlíðberg. 

Búrfisksbróðir

23.11.2017

Áhöfnin á Dala Rafni VE kom færandi hendi nú um daginn þegar þeir færðu safninu tvo óvenjulega fiska fiska sem alla jafna veiðast ekki hér við Íslandsstrendur. Var þeim hugsað til fiskasafnins og settu þá í frysti og færðu okkur síðan að gjöf.

Erum við mjög ánægð með þegar sjómenn hugsa fyrir því að færa safninu óvenjulega fiska. Ekki aðeins kemur það sér vel fyrir safnið, heldur er það einnig áhugavert fyrir sjómennina sjálfa að vita hvaða óvenjulegu fiskar eru að koma í veiðarfærin og auk þess er mikilvægt fyrir Hafrannsóknastofnun að fá upplýsingar um þessa fisktegundir.

Fengum við Val Bogason hjá útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar í Vestmannaeyjum til að hjálpa okkur við greiningu fiskanna. Annar fiskanna reyndist vera búrfisksbróðir sem er flækingur hér við land. Heimkynni hans í austanverðu Atlantshafi eru frá Grænhöfðaeyjum og Asóreyjum að Bretlandseyjum. Hann finnst þó mun víðar. Er þetta miðsævis- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 100-1200 metra dýpi og lifir á ýmsum smáfiskum og  krabbadýrum eins og ljósátu t.d. 

Fyrsti búrfisksbróðirinn við Ísland veiddist árið 1964 djúpt undan Suðvesturlandi. Samkvæmt bókinni "Íslenskir fiskar" þá er þetta fjórði búrfisksbróðirinn sem veiðst hefur við landið.

Heimild: Íslenskir fiskar (2013) eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson, með teikningum Jóns Baldurs Hlíðberg. 

Teistan hreinsuð

23.11.2017

Olíublauta teistan, sem komið var með í gær, var hreinsuð í dag. Notuð voru þrjú sápuvötn og varð það fyrsta nánast svart af olíu. Verður hún nú þurrkuð og síðan prófuð á næstu dögum. Ef hún stenst prófið verður henni sleppt, en annars verður hún hreinsuð á ný. Vonandi kemur þó ekki til þess, því að hún var mjög óánægð yfir meðferðinni, eins og sjá má á myndinni, sem var tekin að hreinsun lokinni

Önnur olíublaut teista

22.11.2017

Rétt í þessu var komið með mikið olíublauta teistu til okkar, sem fannst við FES. Vegna þess hve mikil olía er í fiðrinu verður hún hreinsuð við fyrsta tækifæri. Fyrir erum við með aðra teistu sem þurfti að hreinsa auk æðarkollu og fálkans sem við höfum greint frá.

Fálkinn hreinsaður

13.11.2017

Fálkinn sem við greindum frá í síðustu viku hefur nú verið hreinsaður. Kristján Egilsson, fyrrverandi safnstjóri fiskasafnsins kom til hjálpar, enda ýmsu vanur í þessum efnum. Vel gekk að hreinsa fálkann, en hann lét þó óánægju sýna berlega í ljós meðan á hreinsuninni stóð. Sást það vel á vatninu hversu óhreinn hann hafði verið og ekki er ólíklegt að endurtaka þurfi leikinn.

Olíublaut teista

11.11.2017

Fyrr í dag var komið með olíublauta teistu til okkar í Sæheimum, sem göngumaður hafði fundið úti í Klauf. Er hún mjög óhrein og leggur af henni mikla olíulykt. Tók hún strax æti og lofar það góðu. Verður henni gefið vel að éta og hún látin jafna sig aðeins áður en hún verður hreinsuð. 

Flestir þeirra olíublautu fugla sem komið er með til okkar koma af hafnarsvæðinu, en afar sjaldgæft er að þeir finnist á þessu svæði. Vonandi er um einstakt tilvik að ræða. 

Pysjusýningin opin um helgina

10.11.2017

Pysjusýningin sem var opnuð um síðustu helgi er enn uppi og er því hægt að koma og skoða myndirnar af pysjubjargvættum síðasta pysjutímabils. Þeir sem vilja panta myndir af sýningunni ættu að setja sig í samband við okkur um helgina, því að myndirnar verða pantaðar strax eftir helgi.

Safnið er opið í dag, föstudag kl. 14 til 15:30 og á morgun, laugardag kl. 13 til 16. 

Olíublautur fálki

09.11.2017

Við hús eitt á Hólagötunni sást til fálka fyrr í dag, sem virtist vera blautur og eiga erfitt með að hefja sig til flugs. Jón Helgi, starfsmaður Áhaldahússins náði að handsama fálkann og kom með hann í Sæheima. Virðist hann vera olíublautur og verður honum leyft að jafna sig í nokkra daga áður en hann verður hreinsaður.