Fréttir

Nýtt útlit og sumaropnun

16.05.2012

Nýlega var sett ný merking utan á húsið meðvörumerki (logo) Sæheima - Fiskasafns.

Safnið hlýtur tvo styrki frá Menningarráði Suðurlands

10.05.2012

Sæheimar - Fiskasafn hlaut nýverið tvo styrki frá Menningarráði Suðurlands. Örn Hilmisson starfsmaður safnsins tók á móti styrkjunum fyrir hönd safnsins á úthlutunarhátíð ráðsins þann 6. maí. 

Fundu hnísu í Skansfjöru

17.04.2012

Þau Bjarki, Andri, Svava, Maríanna, Hafdís, og Heiða voru að vaða og leika sér í Skansfjörunni í góða veðrinu s.l. föstudag. Fundu þau þá dauða hnísu í fjörunni og létu vita af fundinum á Fiskasafninu. Krakkarnir fá bestu þakkir fyrir það og líklega verður beinagrindin sett upp á safninu.
Hnísan er minnsti tannhvalurinn við Ísland og er algeng. Karldýrið er tæpir tveir metrar á lengd og um 70 kg á þyngd. Kvendýrin eru nokkuð minni. Líklega er hnísan sem krakkarnir fundu ekki fullvaxin því hún var aðeins um 110-120 cm á lengd.

Lifandi loðna á Fiskasafninu

23.02.2012

Í gær kom áhöfnin á Álsey VE færandi hendi þegar þeir komu með um 300 lifandi loðnur á Fiskasafnið. Loðnunum var komið fyrir í þremur af búrum safnsins og eru þær greinilega aðeins kvekktar yfir vistaskiptunum því að þær synda í þéttum hópum og halda sig niður við botn. Þær vita greinilega ekki að félagar þeirra úr torfunni eru í enn verri málum, enda eru þeir líklega þegar komnir í bræðslu.
Í búrunum eru fyrir þorskur, ýsa kolar og sandhverfa og hafa þau látið sér fátt um finnast um nýju gestina og reyna ekki að éta þá, enda ekki vön að fæðan hreyfist mikið heldur fá hana í bitum og jafnvel á priki. 

Fótboltastrákar í heimsókn

20.12.2011

Þeir Eiður Aron og Þórarinn Ingi komu við á Fiskasafninu og heilsuðu upp á nafna sína á safninu. Allir voru þeir komnir í jólaskap eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Langvíuunginn (Eiður Aron) og lundapysjan (Þórarinn Ingi) komu á safnið seint í ágúst og voru þá báðir smákríli. Slagurinn í fótboltanum var í hámarki um þetta leyti og starfsmaður safnsins (mikill áhugamaður um fótbolta) var fljótur að finna nöfn á ungana. Þeir hafa dafnað vel á safninu og eru mannelskir.

Nornakröbbunum fjölgar

16.12.2011

Þeir á Kristbjörginni VE 70 hafa verið mjög duglegir í haust að færa Fiskasafninu ýmislegt skemmtilegt sem flækist upp með aflanum. Meðal annars hafa þeir komið með fjóra nornakrabba á síðustu dögum. Nornakrabbar eru sjaldgæfir við strendur Íslands en síðustu ár hefur þeim fjölgað talsvert og fjallað var um það á heimasíðu safnsins að fjórir nornakrabbar hafi komið árið 2010 og var það óvenju mikill fjöldi. Fram að því voru þeir einn til tveir á hverju ári. Aldrei áður hafa safninu borist fjórir nornakrabbar á einni viku.

Eyruglu bjargað undan hröfnum

30.11.2011

Á laugardag var eyruglu bjargað undan hópi hrafna sem réðust á hana hver á fætur öðrum. Uglunni var ekið í leigubíl á Fiskasafnið. Þar var hún skoðuð og virtist vera heilbrigð og ekki með sár eftir hrafnana. Því var ákveðið að sleppa henni við Hraunskóg þar sem tvær eyruglur hafa sést á flugi síðustu vikur. Uglan var frelsinu fegin.
 

Skógarsnípa finnst í Vestmannaeyjum

18.11.2011

Hringt var til Fiskasafnsins og látið vita af óvenjulegum fugli sem lægi dauður við Sólhlíð 19. Reyndist það vera skógarsnípa, sem er náskyld hrossagauk en talsvert stærri og litfegurri.

Tyrknesk súpa og hummus á Fiskasafninu

15.11.2011

Þann merkilega dag ellefta ellefta var opinn fyrirlestur á Fiskasafninu þar sem sagt var frá ýmsum uppgötvunum þeirra Kristjáns Egilssonar og Gísla Óskarsonar á atferli dýranna á safninu.
 
Vel var mætt á fyrilesturinn og gæddu gestir sér á tyrkneskri linsubaunasúpu og brauði með hummus frá Arnóri bakara.

Fyrirlestur á föstudegi

10.11.2011

Margrét Lilja Magnúsdóttir, Gísli Óskarsson og Kristján Egilsson segja frá einstöku atferli dýra á safninu.
 
Þekkingarsetur Vestmannaeyja stendur nú fyrir kynningu á stofnunum innan setursins með opnum fyrirlestrum í hádeginu á föstudögum. Fyrsti slíki fyrilesturinn var á byggðasafninu 15. október og Viska hélt sinn fyrilestur 4. nóvember.
Boðið er upp á súpu og brauð og allir eru velkomnir.

Dregið upp úr djúpinu

27.10.2011

Nú stendur yfir undirbúningur fyrir Safnahelgi Suðurlands á Fiskasafninu.

 

Pysjurnar fáar og seint á ferð

27.09.2011

Pysjueftirlitið svokallaða hefur verið starfrækt síðan árið 2003. Bæjarbúar hafa þá komið með pysjur sem finnast í bænum á Fiskasafnið til að vigta þær og mæla lengd vængjanna áður en þeim er sleppt til sjávar.  

þórarinn Ingi hefur þyngst mikið

21.09.2011

Komið var með lundapysju á safnið þann 21. ágúst sem vóg einungis 95 grömm. Hún fékk nafnið Þórarinn Ingi því ÍBV var að keppa á Hásteinsvelli þennan sama dag og pysjan fannst, og Þórarinn Ingi Valdimarsson skoraði sigurmark liðsins.Pysjan hefur verið í góðu atlæti hér á safninu og greinilega fengið nóg að éta því hún hefur þrefaldað þyngd sína á fjórum vikum.

Dagur íslenskrar náttúru

15.09.2011

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september. Í tilefni dagsins verður upplestur á safninu úr lundaveiðimannatali Árna Árnasonar frá Grund og skrifum hans um veiðimennsku og úteyjalíf. Á næsta ári kemur út bók sem byggir á skrifum Árna og í ritsjórn  hennar eru þeir Erpur Hansen, Kári Bjarnason, Marinó Sigursteinsson og Sigurgeir Jónsson. Eftir upplesturinn verður opið hús á Fiskasafninu og á Surtseyjarstofu til kl. 16:00.
 

Ársskýrsla 2010

31.08.2011

Nú er hægt er að nálgast ársskýrslu Sæheima fyrir árið 2010 hér á vefnum. Í skýrslunni er að finna ýmsar upplýsingar um safnið,  m.a. aðsóknina á safnið á árinu 2010 og yfirlit yfir viðburði og gjafir til safnsins. Hér má nálgast þessar upplýsingar.

Fyrsta lundapysjan 2011

23.08.2011

Fysta lundapysjan sem komið var með á Fiskasafnið í ár fannst sunnudaginn 21. ágúst.

Langvíuungi og rituungi

22.08.2011

Núna eru langvíuungi og rituungi í fóstri á Fiskasafninu.

Haftyrðill í sumarbúningi

10.08.2011

Fyrr í sumar var komið með haftyrðil í sumarbúningi á Fiskasafnið.

Opnunartími yfir Þjóðhátíð

26.07.2011

Breyttur opnunartími verður frá föstudegi til mánudags yfir Þjóðhátíðina. Opið verður milli kl. 13:00 og 15:00 alla dagana.

Varmasmiður finnst í Eyjum

21.06.2011

Trausti Mar Sigurðsson kom með varmasmið (Carabus nemoralis) á safnið þann 15. júlí. Þetta er fysti varmasmiðurinn sem vitað er um í Vestmannaeyjum og fannst hann í garði við Foldahraun. Líklegt má telja að hann hafi borist með plöntum frá Hveragerði, en þar hafa varmasmiðir verið nokkuð algengir  undanfarin ár. Sérstaklega hafa þeir haldið sig í görðum nálægt hverasvæðum og nafnið varmasmiður komið til vegna þess.