Fréttir

Kópurinn braggast

30.11.2010

Í byrjun nóvember fannst útselskópur við Breiðdalsvík sem var illa á sig kominn og grét hástöfum. Finnendur hans gáfu honum volgan rjóma og hresstist hann talsvert við það. Þeir höfðu samband við Fiskasafnið í Vestmannaeyjum og óskuðu eftir að þar yrði kópurinn fóstraður áfram. Flugfélagið Ernir flaug með kópinn endurgjaldslaust til Eyja. Þar tók Georg Skæringsson á móti honum og kom honum fyrir í húsnæði Þekkingarsetursins á hæðinni fyrir ofan Miðstöðina. Þar hefur kópurinn aðgang að hreinum sjó til að synda í og einnig lítilli eyju sem hann getur legið upp á.

Tónleikar á Fiskasafninu

17.11.2010

Í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi kom til Vestmannaeyja fjöldi listamanna og urðu margir þeirra veðurtepptir á sunnudeginum þegar gerði hið versta veður.

Neðansjávarljósmyndir

17.11.2010

Sýning Erlendar Bogasaonar kafara var opnuð þann 5. nóvember á Fiskasafninu. Sýningin er í tengslum við Safnahelgi á Suðurlandi og Menningarráð Suðurlands veitti styrk til sýningarhalsdsins.

Lundapysja í pössun

22.10.2010

Síðustu daga hefur lundapysja verið í pössun hjá okkur á Fiskasafninu. Finnandi hennar ákvað í haust að halda henni þar sem að hún kom frekar seint og var lítil og létt. Þannig að lífslíkur hennar hefðu ekki verið miklar ef henni hefði verið sleppt í sjóinn. Pysjan hefur þyngst mikið og er spræk enda fengið nóg að éta og vel verið hugsað um hana.

Hafmeyja óskast

22.10.2010

Fiskasafn í Wales hefur auglýst eftir hafmeyju til starfa við safnið. Samkvæmt upplýsingum frá sýningarstjóra safnsins þarf hún ekki endilega að vera ekta, þó það væri betra, heldur leggur safnið til sérútbúin búning sem starfmaðurinn þarf að klæðast við fóðrun á öðrum safndýrum. Búningurinn samanstendur meðal annars af köfunarbúnaði sem gerir hafmeyjunni kleift að fóðra dýrin neðansjávar. Hafmeyjan á m.a.að vinna með hákörlum safnsins. Safnið sem um ræðir heiti Rhyl SeaQuarium og er staðsett í Norður Wales. 
 

komið með 4 kolkrabba

07.10.2010

Í gærkvöldi kom Portlandið með fjóra kolkrabba að landi og færðu safninu. Þrír þeirra voru snöggir að finna sér felustaði í gjótum á milli steina en einn af þeim virðist alveg ófeiminn og færir sig til í búrinu og pósar fyrir ljósmyndara. Hornsílin sem fyrir voru í búrinu virðast alveg óhrædd við þessa nýju nágranna sína og synda alveg upp að þeim. Ef við fáum kolkrabbana til að taka fæðu ættu þeir að geta orðið nokkuð langlífir.  

Sæsteinsugan látin

30.09.2010

Sæsteinsugan sem koma á safnið ekki alls fyrir löngu er nú látin. Hennar er sárt saknað þó að hún hafi verið frekar ófrýnileg, enda ólík öllum öðrum fiskum. Starfsfólk safnsins hafði sett til hennar fiska sem hún ætti að geta sest á til að nærast, en hún leit ekki við þeim. Kannski hefur henni fundist meðalstór þorskur vera óspennandi eftir að hafa verið á hval. Steinsugur verða ekki langlífar í fiskasöfnum nema að þær finni sér fórnarlamb til að nærast á.

Sæsteinsuga send á Fiskasafnið

08.09.2010

Þann 26. ágúst veiddi Hvalur 8 RE 388 langreið, sem reyndist vera hundraðasti hvalurinn sem veiddur er í ár af fyrirtækinu Hval hf. Við langreiðina var föst sæsteinsuga. Starfsmenn Hvals h.f. losuðu hana af hvalnum og var hún sett í kar sem fyllt var með sjó. Kristján Loftsson forstjóri fyrirtækisins sendi hana með Herjólfi til okkar á Fiskasafninu. Var hún hin hressasta við komuna og var svo tillitssöm við gesti safnsins að festa sig á rúðuna í búrinu, þannig að hringlaga munnurinn með öllum beittu tönnunum blasti við.

Glerlistasýning í Fiskasafninu

13.08.2010

Þann 4.júní s.l. onaði Berglind Kristjánsdóttir glerlistakona sýningu á verkum sínum í búrum Fiskasafnsins. Verkin eru unnin sérstaklega með Fiskasafnið í huga og í hverju búri er tekið mið af lífverunum sem þar eru.