Fréttir

Sæsteinsuga

08.08.2014

Georg á Blíðu VE færði safninu sæsteinsugu sem hafði komið með aflanum. Hafði hún sogið sig fasta við löngu.

Sæsteinsugur eru afar sérkennilegir fiskar og lifa sem sníkjudýr á öðrum fiskum og sjúga úr þeim blóð. Kjaftur þeirra er hringlaga og með fjölda tanna sem koma sér vel þegar þær festa sig á fórnarlömbum sínum. 

Æðarungi

13.07.2014

Þessum litla æðarunga var bjargað úr klóm kattar og komið með hann á safnið. Hann reyndist vera óskaddaður eftir viðskiptin við köttinn. Því var ákveðið að sleppa honum eftir að hann hafði fengið smá matarbita í gogginn. Farið var með hann á tjörnina inni í dal og slóst hann þar í hóp annarra æðarunga eftir nokkrar tilraunir hans til að fara aftur til bjargvættar síns.

Rituungar

10.07.2014

Síðustu daga hefur verið komið með nokkuð af rituungum á safnið. Þeir eru að finnast undir bjarginu við Skiphella og hafa dottið niður af sillum sínum eða verið hrint framaf af eldri systkynum. Þeir eu í misjöfnu ástandi en flestir hafa þeir tekið vel til matar síns og dafna ágætlega. Þeim verður síðan sleppt þegar þeir eru orðnir fleygir og geta bjargað sér á eigin spýtur.  

 

Fylgið mér í Sæheima

04.07.2014

Búið er að varða leiðina frá upplýsingamiðstöð ferðamanna í Eymundsson að helstu áfangastöðum ferðamanna í bænum. Það er gert þannig að máluð eru lýsandi merki á gangstéttarhellur sem leiða ferðamennina áfram. Þetta er mjög gott framtak og hjálpar vonandi ferðamönnum að rata um eyjuna okkar. Á myndinni má sjá merkið sem leiða skal ferðamenn að Sæheimum fiskasafni.

Safnalykill 2014

04.07.2014

Sagnheimar og Sæheimar bjóða nú upp á Safnalykil. Lykillinn kostar aðeins 1.500 krónur á mann og gildir sem aðgangur fyrir einn mann á bæði söfnin. Hægt er að nálgast lyklana í afgreiðslu safnanna. 

Frítt er fyrir börn 17 ára og yngri. 

Peyjar í heimsókn

27.06.2014

Þessa dagana stendur yfir Shellmótið í fótbolta og koma peyjarnir í hópum í heimsóknir til okkar á Fiskasafnið. Það er alltaf mikið fjör á safninu þessa daga og eru Shellmótspeyjarnir í miklu uppáhaldi hjá Tóta lunda sem er sjálfur í ÍBV og ætlar að vera með á mótinu þegar hann er orðinn nógu gamall.

Tóti stígur í vænginn

19.06.2014

Þessi spænska blómarós kom í heimsókn á safnið og Tóti heillaði hana upp úr skónum eins og flestar aðrar. Hafði hún komið til landsins til að dansa í flamencosýningu og ákvað að skreppa úr í Eyjar. Tóti var auðvitað alsæll í fanginu á henni en var ekki tilbúinn til að stíga skrefið til fulls og flytja með henni til Spánar.

Pæjurnar mættar

11.06.2014

Þessa dagana fer fram hið árlega TM fótboltamót í 5 flokki stúlkna eða pæjumótið svokallaða.

Stelpurnar eru auðvitað duglega að heimsækja Fiskasafnið og fyrsti hópurinn lét sjá sig í dag. Það voru stelpurnar í Fjölni sem voru hinar hressustu og upplýstu okkur jafnframt um að þær væru með besta liðið.

Það er alltaf fjör á safninu meðan fótboltamót yngri flokka fara fram og gaman að fá þessa hressu krakka í heimsókn.

Afmæli

04.06.2014

Um síðustu helgi var haldið upp á 50 ára afmæli Fiskasafnsins. Okkur fannst vera vel við hæfi að halda upp á þessi tímamót um sjómannadagshelgina enda hefur alltaf verið mjög góð samvinna milli safnsins og sjómanna í Vestmannaeyjum. Vikuna fyrir afmæli komu t.d. áhafnir Gullbergsins, Þórunnar Sveins og Drangavíkur með fjölda lifandi fiska fyrir safnið.

Nemendur í Grunnskóla Vestmannaeyja unnu listaverk fyrir safnið á þemadögum skólans og var safnið skreytt í hólf og gólf með þessum glæsilegu listaverkum.

Upphaflega var hugmyndin að nota planið sunnan við safnið fyrir veisluhöldin en þar sem spáði rigningu þessa helgi fengum við að flytja veisluna niður á Slökkvistöðina, sem er hér á neðri hæðinni.

Boðið var upp á kökur og kaffi og skemmtiatriði sem börn á ýmsum aldri sáu um. Krakkarnir í 4. bekk sýndu dans við skemmtilegt sumarlag, krakkarnir í 5 ára deildinni sungu fiskalag sem þau hafa verið að æfa og þær Erna Scheving og Birta Birgisdóttir úr 8. bekk fluttu nokkur lög.

Seinna um daginn varð þetta aðeins meira fullorðins, en þá flutti bæjarstjóri stutta tölu og sýnd var kvikmynd eftir Gísla Óskarsson um náttúrufar og sögu Löngunnar.

Alls komu um 600 manns í heimsókn á safnið þessa helgi.

Undirbúningur fyrir afmælið

30.05.2014

Margir hafa hjálpað til við undirbúning fyrir afmæli safnsins. Krakkarnir í Grunnskóla Vestmannaeyja eru að útbúa ýmis listaverk sem verða til sýnis á safninu og eru að æfa skemmtiatriði. Sjómenn hafa líka fært safninu fjölda gjafa. Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE kom m.a. með tröllakrabba, grásleppu, þorsk, steinbít, tindabykkjur og krossfiska. Gullberg VE kom með steinbít, hlýra, þorsk, kola og kolkrabba. Drangavík VE kom með fjóra karfa. Einnig fóru starfsmenn safnsins, feðgarnir Georg og Hlynur í sjóferð og komu með fjölda ígulkera, kuðungakrabba og beitukónga.

Afmælisnefnd safnsins, sem er skipuð Helgu Garðarsdóttur, Kristjáni Egilssyni, Gísla Óskarssyni, Evelyn Bryner, Erni Hilmissyni og Margréti Lilju, hefur einnig látið hendur standa fram úr ermum við undirbúninginn. Búið er að hreinsa búrin og þrífa safnið, einnig er búið að hengja upp fjölda listaverkum frá nemendum GRV. 

Nú er bara að hlakka til að smakka afmæliskökurnar. Við erum orðin mjög spennt og lundinn Tóti er kominn í sparifötin.

Tóti tékkar á Tékkanum

18.05.2014

Nú er sumarið komið í Sæheimum. Safnið er nú opið alla daga frá klukkan 11:00 til kl. 17:00.

Gott veður var um helgina og talsverður fjöldi ferðamanna kom á safnið. Tóti lundi sem nú er á þriðja ári heilsaði upp á gestina og tók vel á móti þeim. Hann tók sérstaklega vel á móti þessum ferðamanni frá Tékklandi enda var hann með alveg ótrúlega flotta húfu.

Sefhænu sleppt

06.03.2014

Sefhæna hefur verið á safninu frá því í byrjun febrúar. Hún var hlaupin uppi á Vigtartorginu og var mjög slöpp og horuð. Hún tók strax vel til matar síns og át mjög vel þann tíma sem hún var á safninu. Helst át hún brytjaða loðnu en einnig át hún ýmis korn og ávexti. Eplin voru þar í sérstöku uppáhaldi.

Þar sem sefhænur eiga heimkynni við tjarnir umluktar trjágróðri þá var ákveðið að fara með hana upp á land og sleppa henni þar, því að slík svæði eru vandfundin í Vestmannaeyjum. Ingvar Atli jarðfræðingur hjá Náttúrustofu fór með hana í Heiðmörk og sleppti henni þar. Hún tók strax flugið og hvarf út í buskann. Sefhænan var því greinilega mun sprækari en þegar hún fannst en þá náði hún ekki að fljúga.

Sefhæna á vappi

04.02.2014

Í gær sáu glöggir vegfarendur óvenjulegan fugl á ferli og hringdu á Sæheima Fiskasafn til að láta vita af ferðum hans. Fyrst sást hann á Stakkagerðistúni, næst fréttist af honum utan við veitingastaðinn SubWay, enda líklega í ætisleit. Þá lá leiðin að Miðstöðinni en þar fældist hann og hljóp niður á Vigtartorg þar sem starfsmenn Sæheima handsömuðu hann.
 

Dularfullt fyrirbæri

24.01.2014

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE hefur fært safninu margar góðar gjafir í gegnum tíðina. Bæði lifandi fiska og krabba en eins líka ýmislegt óvenjulegt og sjaldséð sem kemur upp með aflanum. Nýverið komu þeir með óvenjulegt kvikindi sem þeir fengu sunnan við Eyjar. Safnstjóri hafði aldrei séð slíkt áður og leitaði því til Jörundar Svavarssonar prófessors í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands. Hann sagði þetta vera holdýrið Epizoanthus incrustatus, og hefur hann rekist nokkrum sinnum á þessa tegund við rannsóknir sínar á lífríki sjávarins við Ísland.

snjótittlingi sleppt

17.01.2014

 Á Þorláksmessu var komið með særðan snjótittling á safnið sem hafði fundist í húsgarði og gat ekki flogið. Annar vængur hans var eitthvað laskaður og nýttist ekki til flugs en virtist ekki vera brotinn. 
Fuglinn hefur verið í fæði og húsnæði á Fiskasafninu þessar vikur en var orðinn það sprækur að ákveðið var að sleppa honum í góða veðrinu í dag. 
Eins og sjá má á myndinni mótmælti hann kröftuglega þegar hann var tekinn úr búri sínu en hætti mótmælunum snarlega þegar honum var sleppt og flaug hinn hressasti á brott frá safninu.

Vinkonur Tóta í heimsókn

09.01.2014

 Lundinn Tóti virtist mjög ánægður að fá fjölda gesta í heimsókn á safnið á þrettándanum, enda búið að vera rólegt hjá honum yfir jólin og aðventuna. Þessar stelpur voru meðal gesta og eru þær góðar vinkonur Tóta. Þær voru í hóp þeirra krakka sem komu nánast daglega að heimsækja hann fyrstu vikurnar hans á safninu. 

Lundar í jólaskapi

22.12.2013

 Lundarnir á fiskasafninu þeir Þórarinn Ingi og Eyþór Ingi eru greinilega komnir í jólaskap. Þeir senda öllum gestum safnsins og  þeim sem komu með fiska bestu jólakveðjur og vonast til að sjá ykkur öll á nýja árinu.

safnasnjókarlar

16.12.2013

 Þessir sætu snjókarlar biðu spenntir eftir því að safnið opnaði um helgina.
Það er greinilegt að mannfólkið er komið í jólaskap því að snjókarlarnir voru þeir einu sem mættu á safnið

Brúðöndinni sleppt

14.12.2013

 Brúðöndin sem fannst um mánaðarmótin í garði á Heimaey hefur verið í góðu yfirlæti í Sæheimum - Fiskasafni. Hún var slöpp og horuð við komuna á safnið og örugglega aðframkomin eftir hið langa ferðalag frá Bandaríkjunum. 

Brúðönd

04.12.2013

 Nýverið var komin með á safnið  sjaldséðan fugl.  Um var að ræða brúðönd (Aix sponsa), sem er algengur fugl í skóglendi við vötn í austanverðri Norður Ameríku og kallast þar Wood duck. Tegundin er afar sjaldséð á Íslandi og er þetta sjötta skráða brúðöndin á landinu og fyrsti kvenfuglinn af tegundinni sem vitað er um.