Fréttir

Pæjurnar mættar

11.06.2015

Nú er pæjumótið byrjað og koma þá mörg liðanna í heimsókn í Sæheima. Það voru blikastelpur sem voru þær fyrstu til að kíkja við og tók Tóti vel á móti þeim. Það eru alltaf fjörugir og skemmtilegir dagar á safninu þegar fótboltamótin fara fram.

Sjómannadagurinn

05.06.2015

Eins og ávallt um sjómannadagshelgina er opið hús í Sæheimum - Fiskasafni og frítt inn. Safnið er opið bæði laugardag og sunnudag kl 10-17.   

Kæru sjómenn, við óskum ykkur innilega til hamingju með daginn og bestu þakkir fyrir allar gjafirnar í gegn um tíðina og von um áframhaldandi gott samstarf.

 

Köttur kíkir við

14.05.2015

Þessi myndarlegi köttur kom í heimsókn til okkar á safnið í dag. Hann rölti um og skoðaði safnmuni en hann var þó mun hrifnari af gestum safnsins sem klöppuðu honum og knúsuðu. Tóti lundi var ekki mjög hrifinn af þessari heimsókn og fór svo að lokum að hringt var í eigendur kattarins og komu þeir skömmu síðar og fóru með hann til síns heima.

Tóti kvikmyndastjarna

12.05.2015

Nú í sumar mun verða sýnt auglýsingamyndband fyrir Vestmannaeyjar í flugvélum Icelandair og er það Saga Film sem vinnur það. Tökulið frá þeim kom á dögunum til okkar í Sæheimum og tók upp myndefni frá safninu. Tóti lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið og gaf þeim Brad Pitt og George Clooney ekkert eftir hvorki í leikhæfileikum né sjarma. Á myndinni hér að ofan er hann ásamt mótleikkonu sinni henni Þóru Karitas.

Sumaropnun

01.05.2015

Í dag var fyrsti dagurinn í sumaropnun Sæheima-Fiskasafns. Er nú búið að lengja sumaropnum safnsins, og er það nú opið frá 1. maí og til loka september. Bætast því tvær vikur við opnunartímann við upphaf og lok hans. Einnig opnar safnið nú kl. 10 á morgnana í stað kl. 11 áður. 

Þessar hressu stelpur notuðu tækifærið og kíktu við á safninu og heilsuðu auðvitað upp á hann Tóta.

Sumardagurinn fyrsti

23.04.2015

Af tilefni af sumarkomunni bauð Vestmannaeyjabær eyjamönnum að skoða söfnin í bænum. Um 170 manns nýttu sér þetta góða boð og komu í heimsókn til okkar í Sæheimum. Tóti virtist vera mjög ánægður að fá svo marga gesti. Óskar hann og aðrir starfsmenn safnsins ykkur öllum gleðilegs sumars.

Langvían komin aftur

08.04.2015

Langvían sem við slepptum á Páskadag er komin á safnið til okkar aftur. Starfsmenn Rib-Safari rákust á hana við smábátahöfnina og kvartaði hún þá sáran og nánast bað um að verða bjargað. Á myndinni má sjá þar sem hún rekur raunir sínar fyrir Kristjáni Egilssyni, sem kom með hana á safnið. Hún tók vel til matar síns og virtist vera alsæl yfir því að vera komin til okkar aftur. Eigum við því frekar að venjast að þessu sé öfugt farið.

Langvíu sleppt

05.04.2015

Fyrir nokkrum vikum var komið með langvíu á safnið sem hafði fundist í fjörunni í Höfðavík. Þegar hún fannst var hún mjög veikburða og var svartbakur farinn að hugsa sér gott til glóðarinnar að bragða á gómsætri langvíu. Starfsmaður Náttúrustofu Suðurlands gerði þessar áætlanir svartbaksins að engu og bjargaði langvíunni úr klóm hans.

Þegar á safnið var komið var reynt að koma æti ofan í langvíuna og hressist hún mjög eftir að hafa étið nokkrar loðnur. Hefur hún verið í góðu yfirlæti á safninu og sporðrenndi mörgum loðnum á dag. Var hún orðin nægilega hress til að fá frelsi á ný og halda gráðugum svartbökum í hæfilegri fjarlægð.

Heimsókn

11.03.2015

Þessi fjölskylda, sem býr í Miami í Flórida, kom í heimsókn á safnið í dag. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þau komu til Vestmannaeyja eingöngu til að heimsækja lundann Tóta. Á ferð þeirra um Suðurland varð einhver á vegi þeirra sem sagði þeim frá því að í Sæheimum væri lifandi lundi. Þau urðu mjög spennt og drifu sig í Þorlákshöfn þar sem þau tóku fyrri ferð Herjólfs  til Vestmannaeyja og fara síðan til baka í fyrramálið. 

Gaddakrabbi frá Gullberginu

04.02.2015

Áhöfnin á Gullbergi VE færði Sæheimum flottan gaddakrabba í dag. Það var Emma Ey Sigfúsdóttir sem kom með krabbann til okkar. Það má segja að krabbinn hafi átt viðburðaríkan dag því hann kom við á leikskólanum Kirkjugerði og í grunnskólanum á leið sinni á safnið. Nú er hann að eignast nýja vini því að fyrir eru tveir gaddakrabbar á safninu.

Lundi í vetrarbúningi

02.02.2015

Áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur VE kom með þennan lunda á safnið. Hafði hann komið um borð hjá þeim og greinilega eitthvað slappur. Hann er eitthvað laskaður á væng en virðist þó ekki vera brotinn. Lundinn er frekar léttur og hefur mögulega átt erfitt með að veiða sér til matar í einhvern tíma. Hann virðist að öðru leyti vera mjög hress og tekur vel til matar síns.

Það er ekki oft sem við sjáum lunda í vetrarbúningi enda halda þeir sig á sjónum allan veturinn. Þegar þeir koma að landi á vorin eru þeir komnir í varpbúning sinn, sem er sá búningur sem við þekkjum.

Skipt um glugga

30.01.2015

Nú er verið að skipta um glugga í húsnæði Sæheima. Fyrir áramót var skipt um alla glugga í rýminu bakatil á safninu en nú í janúar er skipt um glugga á skrifstofu, afgeiðslu, fuglasal og steinasafni. Það eru þeir Einar Birgir og Brynjar sem sjá um vinnuna og eru þeir nú að leggja lokahönd á verkið. 

Þrettándinn

09.01.2015

Þrettándinn verður haldinn hátíðlegur nú um helgina. Þegar búið er að kveðja álfa, tröll og jólasveina er tilvalið að bregða sér í Sæheima og kíkja á dýrin þar. Þau eru öll ennþá í jólaskapi og sömuleiðis starfsfólkið eins og sjá má á þessari mynd.

Opið verður á safninu bæði laugardag (10/1) og sunnudag (11/1) klukkan 13 til 16 og verður ókeypis aðgangur inn á safnið þessa daga.

Jólakveðja

23.12.2014

Fuglarnir á safninu láta sér fátt um finnast þó að nú séu að koma jól og mannfólkið eitthvað að stressast og stússast. Þeir senda þó öllum sínar bestu jólakveðjur. Einnig óskar starfsfólk Sæheima gestum og velunnurum safnsins gleðilegra jóla og þökkum fyrir gjafir og heimsóknir á árinu. Sjáum ykkur vonandi sem flest aftur á nýja árinu.

Heimsókn frá Montreal

26.11.2014

Sæheimar -Fiskasafn fengu skemmtilega heimsókn frá Biodome safninu í Montreal í Kanada. Þetta er mjög stórt safn á sviði náttúrufræða og spanna sýningar þess allt frá skordýrum til himintunglanna. Safnið er til húsa í höllinni sem byggð var fyrir Ólimpíuleikana 1976. Gestir safnsin geta gengið í gegn um nokkrar tegundir vistkerfa allt frá regnskógum að pólsvæðunum. Þetta er glæsilegt safn sem gaman væri að heimsækja.

Það er gaman að segja frá því að Biodome óskar eftir samstarfi við Sæheima vegna sýningar þeirra á lífríki Norður Atlantshafsins. Það er mikill fengur fyrir okkur að komast í kynni við starfsfólk safnsins og getum við örugglega lært mikið af þeim.

Það má skoða safnið á slóðinni www. espacepourlavie.ca/en/biodome

 

Skólahópar í heimsókn

21.11.2014

Nú undanfarið hafa skólakrakkar í Grunnskóla og FramhaldsskólaVestmannaeyja komið í heimsóknir í Sæheima Fiskasafn. Eldri krakkarnir fá verkefni sem þau vinna á safninu en þau yngri fá tækifæri til að skoða safnið á sinn hátt, þó að þau skoði sérstaklega þann fugl og fisk sem þau eiga að læra um hverju sinni. Í dag komu krakkarnir í fyrsta og öðrum bekk í Grunskólanum. Það er alltaf skemmtilegt að fá þessa hressu og áhugasömu krakka í heimsókn.

Blóm á Heimaey

02.11.2014

Mjög blómlegt hefur verið í Sæheimum um Safnahelgina, en þar hafa verið til sýnis ljósmyndir af ýmsum blómplöntum sem finnast á Heimaey. Ákveðið hefur verið að sýningin muni standa áfram í nokkrar vikur. Nú hefur hefðbundin vetraropnun tekið gildi og er safnið einungis opið á laugardögum kl.13-16 eða eftir samkomulagi.

Ljósmyndir á húsgöflum

01.11.2014

Núna um Safnahelgina verður varpað upp ljósmyndum á tvo húsgafla í bænum. Annars vegar er það norðurgafl Sýslumannshússins þar sem fjöldi ljósmynda frá Sæheimum - Fiskasafni eru sýndar. Þar er um að ræða myndir af fuglum, fiskum o.fl. lífverum sem verið hafa á safninu. Hins vegar er það vesturgafl Saltfiskhússins og þar eru sýndar ljósmyndir frá Gísla Friðriki Johnsen sem hann tók á fyrri hluta síðustu aldar. Myndirnar verða sýndar  á kvöldin yfir Safnahelgina. Við þökkum íbúum húsanna að Heiðarvegi 13 og Nýborg fyrir að leyfa okkur að koma fyrir skjávörpum hjá þeim. Einnig eru þakkir til Menningaráðs Suðurlands sem veitti styrk til sýningarinnar.

Safnahelgin framundan.

29.10.2014

Safnahelgi Suðurlands verður haldin í sjöunda sinn um næstu helgi eða frá fimmtudeginum 30. október og til sunnudagsins 2. nóvember. Margt verður í boði þessa helgi víðs vegar um Suðurland (sjá nánar á slóðinni www.sudurland.is).

Í Sæheimum verður ljósmyndasýning af blómplöntum sem finnast á Heimaey. Ljósmyndirnar voru upphaflega teknar í tengslum við verkefni sem var unnið fyrir heimasíðu Sæheima. Þar verður hægt að skoða kort af Heimaey og skoða ljósmyndir af helstu blómplöntum sem vaxa á ýmsum svæðum eyjarinnar. Þessi hluti verkefninsins hlaut styrk frá Safnaráði. Það er svo Menningarráð Suðurlands sem veitir safninu styrk til að setja upp sýningu á þessum ljósmyndum.

Sýningin verður opin laugardaginn 1. nóvember og sunnudaginn 2. nóvember kl. 13-16.

Tóti & Tóti

20.10.2014

Þórarinn Ingi Valdimarsson kom og heimsótti nafna sinn á fiskasafninu nú á dögunum. Lundinn á safninu var nefndur í höfuðið á Þórarni Inga eða Tóta eins og hann er oftast kallaður. Lundinn var um viku gamall þegar komið var með hann á safnið og var því aðeins pínulítill dúnhnoðri. En ástæðan fyrir því að þessi litli hnoðri fékk þetta stóra nafn er sú að daginn sem hann kom á safnið stóð yfir leikur hjá ÍBV og þar skoraði Þórarinn Ingi sigurmarkið. Einn af starfsmönnum safnsins var mjög spenntur yfir leiknum og nefndi hnoðrann hið snarasta. 

Eins og sést á myndinni sem Örn Hilmisson tók af þeim þá fór vel á með þeim félögum.