Fréttir

Komnar 5000 pysjur

16.09.2018

Þá eru pysjurnar orðnar meira en 5000 talsins á þessu pysjutímabili og hafa þær aldrei verið fleiri í pysjueftirlitinu. Á myndinni eru frændurnir Dagur, Ari og Halldór Björn sem komu með þessa merkilegu pysju í vigtun og mælingu.

Turnfálki

15.09.2018

Fyrir nokkru kom turnfálki um borð í Kap VE þar sem hún var að veiðum í síldarsmugunni. Áhöfnin handsamaði fálkann og gaf honum að éta og tók hann vel til matar síns. Þegar þeir komu að landi var fálkinn fluttur í Sæheima til frekari skoðunnar og aðhlynningar. Virtist hann vera heilbrigður og því var ákveðið að láta hann fá vel að éta og leyfa honum að jafna síg í nokkra daga. Líklega hefur hann verið bara þreyttur og svangur og því sest á skipið. Kristján Egilson fór með fálkann upp á hraun í dag og gaf honum frelsið á ný. Þeir félagar eru saman á myndinni sem Ruth Zholen tók við þetta tækifæri.

Komnar fleiri pysjur en í fyrra

15.09.2018

Í fyrra komu 4.814 pysjur í pysjueftirlit Sæheima og var það mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins árið 2003. Nú er orðið ljóst að í ár verða pysjurnar enn fleiri. Nýjustu tölur frá útibúi Sæheima á Strandveginum eru 4.840 pysjur og verða þær örugglega enn fleiri í dagslok hjá þeim.

Það er vel við hæfi að Yuki Sugihara, sem þýddi bókina um litlu lundapysjuna yfir á japönsku, hafi verið ein af þeim sem komu með pysju í eftirlitið í dag. Á myndinni er hún ásamt fjölskyldu sinni með pysjuna sem þau fundu. 

Komnar yfir 4000 pysjur

13.09.2018

Enn fjölgar pysjunum í pysjueftirliti Sæheima og er nú heildarfjöldi pysja kominn upp í 4193 pysjur. Í dag var komið með 390 pysjur í eftirlitið. Síðustu átta daga hafa komið yfir 300 pysjur á dag. Það er því búið að vera ansi fjörugt hjá okkur og erum við auðvitað mjög ánægð með það og vonum að fjörið haldi áfram og helgin verði góð pysjuhelgi.

Stærsta pysjan og nýtt heimsmet

09.09.2018

Dagurinn í dag var heldur betur góður í pysjueftirlitinu. Komið var með stærstu pysju ársins, sem var 368 grömm að þyngd. Það var Jón Ólafur Sveinbjörnsson sem fann pysjuna neðst á Kirkjuveginum. 

Einnig var heimsmet í pysjuvigtun slegið enn eina ferðina og voru vigtaðar samtals 532 pysjur og er því heildarfjöldinn kominn upp í 2755 pysjur.

Heimsmet

06.09.2018

Í dag voru vigtaðar 472 pysjur í pysjueftirliti Sæheima og hafa aldrei fleiri pysjur komið á vigtina hjá okkur á einum degi. 

Á myndinn er Johnson fjölskyldan, sem kom alla leið frá San Diego til að taka þátt í pysjuævintýrinu með okkur. Þau fundu alls 7 pysjur og voru alsæl með það.

Pysjueftirlitið flytur

02.09.2018

Pysjueftilitið hefur nú sprengt utan af sér húsnæði Sæheima. Því mun eftirlitið flytja í "Hvíta húsið" að Strandvegi 50. Gengið er inn frá portinu bak við húsið og opnunartíminn er klukkan 13-18 alla daga meðan pysjurnar eru að fljúga í bæinn. Fram að þeim tíma verður hægt að koma með pysjur í Sæheima. Þeir sem ekki hafa tök á því að koma til okkar geta einnig vigtað pysjurnar sínar heima og sent okkur upplýsingarnar um þyngd, fundarstað, finnendur og hvenær pysjan fannst

Komið var með samtals 184 pysjur um helgina í pysjueftirlitið og heildarfjöldinn er því kominn upp í 281 pysju. Á myndinni eru þær Jóhanna Vigdís og Bjartey Ósk.

Hröð aukning í fjölda pysja

31.08.2018

Pysjunum hefur nú fjölgað dag frá degi og í dag var komið með 50 pysjur í pysjueftirlit Sæheima. Þar með hefur heildarfjöldi pysja þetta árið rúmlega tvöfaldast, en í lok gærdagsins var heildarfjöldinn 47 pysjur. Allt virðist því stefna í góða pysjuhelgi. Á myndinni eru eru þær Ingibjörg Emilía og Sigfríður Sól.

Fyrsta pysjan

24.08.2018

Fyrsta pysjan kom á vigtina í pysjueftirlitinu í dag. Það voru þær Guðrún og Gígja starfsmenn Sæheima sem fundu pysjuna í gærkvöldi og á myndinni má sjá Guðrúnu ásamt litlu frænku sinni Evu Laufey Leifsdóttur sem ætlaði að aðstoða þær við að sleppa pysjunni 

Tóti

01.08.2018

Mikil sorg ríkir nú í Sæheimum því hann Tóti okkar hefur kvatt okkur. Hans verður sárt saknað bæði af starfsfólkinu og lundavinum hans á safninu. Tóti var hvers manns hugljúfi og átti aðdáendur um allan heim sem munu sömuleiðis sakna þessa ljúfa lunda. Tóti var lítill lundi, með stórt hjarta sem gladdi marga.

Með sorg í hjarta kveðjum við okkar ástkæra Tóta, minning hans lifir.

Opening hours / Opnunartími

30.07.2018

During the festival (4 th of August - 7th of August) the museum is open from 13:00 to 15:00. 

Athugið breyttan opnunartíma yfir Þjóðhátíðina. Opið er frá föstudegi til mánudags kl. 13:00 - 15:00.

Veränderte Öffnungszeiten während des Nationalfestivals. Motag - Freitag 13:00-15:00.

Changement des horaires pendant la fête nationale des îles Vestmann. Du vendredi 4 août au lundi 7 août le musée est ouvert de 13h à 15h.

Ígulker og krossfiskar

25.07.2018

Guðjón Þorri skellti sér í sjóferð með pabba sínum og afa og komu þeir að landi með fjölda ígulkerja og krossfiska. Þeir gáfu safninu aflann og voru þessar skrautlegu lífverur góð viðbót í búr safnsins.

Kolkrabbi

21.07.2018

Fyrir nokkrum dögum fékk safnið góða gjöf frá áhöfninni á Drangavík VE. Þeir færðu safninu lifandi kolkrabba, þorska, gaddakrabba. Kolkrabbinn sem þeir komu með var mjög flottur en eins og kolkrabba er siður þá var hann mjög feiminn og faldi sig milli steina. Núna er hann aftur á móti farinn að kanna nýju heimkynnin sín og flækist um búrið og er því auðvelt að skoða hann. Það er gaman að fylgjast með þessum sérkennilegu skepnum hreyfa sig um. 

Fagnandi frakkar

15.07.2018

Frönsk fjölskylda var í heimsókn á safninu meðan frakkar og króatar mættust í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Voru þau að vonum spennt yfir leiknum og fengu að horfa á síðustu mínúturnar í tölvunni okkar á skrifstofunni. Þau fögunuðu vel þegar flautað var til leiksloka og ljóst var að frakkar væru orðnir heimsmeistarar.

Blágóma

09.07.2018

Snemma í morgun tók starfsmaður Sæheima á móti stórri blágómu, sem áhöfnin á Drangavík kom með að landi. Var hún sett í búr með blágómunum tveimur, sem þeir færðu safninu fyrri nokkrum dögum. Þær eru núna báðar í felum á bak við stóran stein þannig að ekki hefur reynt á samkomulagið.

Blágómur og humrar

05.07.2018

Snemma í morgun kom Drangavíkin VE að landi með lifandi blágómur og leturhumra meðferðis. Starfsmaður Sæheima veitti dýrunum viðtöku á bryggjunni og færði þau til nýrra heimkynna í Sæheimum.  

Æðarunga bjargað frá máfi

30.06.2018

Nokkuð margar æðarkollur með unga halda sig þessa dagana á tjörninni í Herjólfsdal. Búið er að strekkja bönd yfir tjörnina til að varna því að máfar nái ungunum. Þeir nota þó hvert tækifæri og í dag var komið með æðarunga til okkar sem hafði verið bjargað frá máfi við tjörnina. Farið var með hann til kollunnar en var of dasaður til að ná að fylgja henni. Því var komið með hann til okkar í Sæheimum og var þar hlúð að honum og fékk hann gómsæt og næringarrík loðnuhrogn að éta. Í lok dagsins var hann orðinn vel sprækur og því var farið með hann að tjörninni og honum sleppt þar. Hann synti að næstu kollu og slóst í hóp með ungunum hennar. 

Æðarkollur taka gjarnan unga í fóstur sem blandast þá ungahópnum þeirra og oft má sjá nokkrar kollur saman með stóran ungahóp. Það er því jafnan lang best að fara með æðarunga sem finnast beint að næstu kollu og sjá hvort að hún sé ekki tilbúin að taka við honum.

Geirnyt og ýmislegt fleira

11.06.2018

Áhöfnin á Drangavík VE kom enn á ný færandi hendi í morgun og voru með ýmsar óvenjulegar tegundir í farteskinu. Geirnyt, lúður, blágóma, sæfíflar og sæbjúgu voru meðal þess sem þeir komu með að landi og færðu Sæheimum að gjöf. 

Geirnyt eru mjög óvenjulegir og fallegir fiskar, sem eru brjóskfiskar og því skyldir skötum, háfum og hákörlum. Heimkynni þeirra eru í austanverðu Atlantshafi og í sjónum suður af Íslandi. Geirnytin eru botnfiskar sem lifa á talsverðu dýpi og er því mikill munur á þrýstingi þar og í búrum safnsins. Vonandi ná þau að jafna sig og gleðja gesti safnins með veru sinni hér.

Músarungi

09.06.2018

Þrjár ungar stúlkur, þær Anna, Ásta og Emma, björguðu litlum músarunga úr klóm kattar og komu með hann í Sæheima. Unginn var nokkuð veikburða en hefur braggast ágætlega og er nú farinn að gæða sér á ávöxtum og korni. Litla músin hefur fengið nafnið Heiða. 

Drangavík með góða gjöf

01.06.2018

Snemma í morgun kom Drangavík VE að landi og hafði áhöfnin tekið til hliðar nokkra fiska og fleira skemmtilegt fyrir Sæheima. Færðu þeir safninu lúður, tindabikkjur, skötu, gaddakrabba, sæbjúgu og marglyttur. Lúðurnar brostu sínu blíðasta til ljósmyndarans.