News

02.10.2017

1664

Dúfa gerir sig heimakomna í Sæheimum

Í síðustu viku var komið með dúfu til okkar í Sæheimum, sem hafði fundist í garði í nágrenni safnsins og var hún bæði blaut og eitthvað slöpp. Fékk hún góða umönnun hér í nokkra daga og þegar hún virtist vera orðin hress var henni sleppt í garði í nágrannans.

Eins og er vitað þá eru dúfur bæði kænar og ratvísar og er þessi engin undantekning frá því. Hefur hún komið ítrekað í heimsókn á safnið. Kemur hún upp stigaganginn eins og aðrir gestir safnsins og laumar sér í kornið góða sem hér er að finna.

Lundarnir á safninu eru ekki ánægðir með þessa boðflennu og reyna að reka hana út en dúfan lætur það ekkert á sig fá. Beitir hún síðan ýmsum brögðum til að komast hjá því að vera sett út aftur. Myndin er tekin í fuglasalnum þar sem dúfan situr á höfði kambháfs, sem þar er uppstoppaður. 


Back