News

27.09.2016

671

Mette Marit flogin á braut

Í janúar sögðum við frá lundapysju sem kom um borð í Kap VE á miðunum vestur af Snæfellsnesi. Fékk hún olíu í fiðrið um borð og þurfti því að hreinsa hana. Var haft á orði að pysjan hlyti að vera norsk, því að lundar frá Noregi halda sig gjarnan á þessum slóðum yfir vetrartímann. Fékk hún þá snarlega nafnið Mette Marit í höfuðið á norsku krónprinsessunni.

Lundar og aðrir fuglar sem þarf að hreinsa eru oft nokkuð lengi að ná upp nægilegri fitu í fiðrið. Fitan gerir þeim kleyft að halda vatni frá líkamanum og án hennar blotna fuglarnir mikið og geta ekki verið á sjónum. Það tók pysjuna talsverðan tíma að verða tilbúin á sjóinn. Hún hefur verið látin synda með lundunum sem fyrir eru á safninu. Smám saman gat hún verið lengur á sundi og var að lokum orðinn orðinn sundgarpur hinn mesti.

Nú á dögunum var farið með Mette Marit út á Hamar og henni sleppt þar. Hún flaug mjög langt og hvarf sjónum okkar. Núna gæti hún verið komin á slóðir norsku lundanna og er jafnvel búin að hitta ættingja og vini og hefur þá líklega frá mörgu að segja.


Back