News

Sæheimar loka

17.03.2019

Þessa dagana fer fram flutningur á lifandi fiskum og öðrum sjávarlífverum frá Sæheimum í ný heimkynni hjá Sea Life Trust að Ægisgötu 2. Búið er að flytja flest dýrin, en ennþá eru nokkur sérstaklega þrjósk hornsíli eftir og litlir krabbar sem eru í felum bak við steina. Á myndinni eru þeir Örn Hilmisson og Kristján Egilsson, sem virða fyrir sér krossfiska og sæbjúgu sem eru í aðlögun á nýja staðnum.

Sæheimar hafa nú hætt starfsemi sinni og lýkur þar með sögu þessa safns, sem var stofnað 5. júní árið 1964 undir nafninu "Fiska- og náttúrugripasafn Vestmannaeyja". Þann 7. febrúar 1965 var fuglasalurinn opnaður og 7. apríl sama ár var fiskasalurinn opnaður. Það eru því um 54 ár frá því að fyrstu fiskarnir voru fluttir í sýningarbúrin og þar til þeir síðustu eru fluttir á brott.

Nú styttist óðum í að nýja sýningaraðstaðan opni og eru því sennandi tímar framundan. Auðvitað munu margir sakna gamla góða Fiskasafnsins en með nýjum tímum koma ný tækifæri og erum við þess fullviss að heimamenn eigi eftir að vera stolltir af nýju sýningunni og að hún muni bera hróður Eyjanna víða.   

Síðasta helgin í Sæheimum

01.03.2019

Laugardaginn 2. mars verða Sæheimar opnir kl. 13-16 eins og aðra laugardaga yfir vetrartímann. Verður þetta í síðasta sinn sem safnið verður opið, því að í næstu viku hefst undirbúningur fyrir opnun á nýjum stað. Sealife Trust mun síðar í mánuðinum opna sýningu og gestastofu að Ægisgötu 2 og verður það auglýst síðar. 

Safnið hefur verið starfrækt frá árinu 1964 og eru því næstum 55 ár síðan fyrstu gestirnir heimsóttu safnið. Gestir safnsins eru samtals orðnir nokkur hundruð þúsund og fór þeim fjölgandi ár frá ári. Fiskar og önnur sjávardýr telja sömuleiðis þúsundir að ógleymdum þeim fjölda fugla sem hefur verið bjargað þau ár sem safnið hefur verið starfrækt. 

Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir samfylgdina sem og velunnurum safnsins. Einnig færum við sjómönnum Eyjanna bestu þakkir en þeir hafa verið ötulir að færa okkur lifandi fiska og önnur sjávardýr. 

Olíublaut álka

01.02.2019

Fyrr í vikunni var komið með mikið olíublauta álku til okkar, sem hafði fundist úti í Klauf. Var hún hreinsuð strax næsta dag. Alla jafna notum við þrjú sápuvötn þegar við hreinsum olíublauta fugla en ákváðum að hafa þau fjögur í þetta skiptið vegna þess að olían var þykk og klístrug og mikið af henni.

Ekki aðeins er allt annað að sjá álkuna eftir hreinsunina heldur líður henni greinilega betur. Hún tekur vel við æti og sporðrennir nú hverri loðnunni á fætur annari, en fyrst þegar hún kom þurftum við að þvinga ofan í hana. Verður álkan sett í sundpróf fljótlega og ef hún stenst það verður henni sleppt. Annars þurfum við að hreinsa hana aftur, sem kæmi ekki á óvart miðað við hvernig hún var þegar hún fannst.

Samsetta myndin sýnir álkuna þegar hún kom og síðan að hreinsun lokinni.

Haftyrðlar við Eyjar

15.12.2018

Á þessum tíma árs eru oft hópar haftyrðla sem halda sig á sjónum umhverfis Ísland. Þeir eru mjög smáir og í hvassviðri feykjast þeir stundum upp á land og eiga þá erfitt með að komast til sjávar á ný. Hafa þeir jafnvel fundist langt inn á landi og eitt sinn fannst haftyrðill við Laugarvatn.

Komið var með nokkurn fjölda haftyrðla í Sæheima í desember og janúar í fyrra og fréttist þá af stórum hópi sem hélt sig á sjónum austan við Eyjar. Einn þeirra var með senditæki á sér og hafði það verið fest á hann á Svalbarða um sumarið.

Nú hefur verið komið með tvo haftyrðla til okkar og það má búast við að fleiri finnist, sérstklega eftir mikil hvassviðri. Það er um að gera að hafa augun hjá sér og bjarga þessum litlu fuglum og er þá best að koma þeim sem fyrst til sjávar eða í Sæheima.  

Vel sótt ljósmyndasýning

05.11.2018

Ljósmyndasýning frá pysjueftirlitinu 2018 var opnuð á föstudaginn en tæplega 400 manns litu við um helgina. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og viljum við minna á að sýningin verður einnig opin allan nóvember, virka daga frá 14-15:30 og laugardaga frá 13-16.  Hægt er að panta myndirnar á sýningunni fram til 12. nóvember gegn vægu gjaldi.

Góð gjöf til safnsins

16.10.2018

Nemendur í Haftengdri nýsköpun skelltu sér í sjóferð í dag á Friðriki Jessyni VE. Þau lögðu út gildrur og veiddu á línu og færðu safninu aflann að gjöf. Komu þau með þorsk, kola, trjónukrabba, bogkrabba, kuðungakrabba, krossfiska og beitukóng. Það kemur sér mjög vel fyrir safnið að fá slíkar gjafir og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Pysja númer 95

14.10.2018

Við fengum óvenju margar pysjur í pysjueftirlitið í ár, sem þurfti að hreinsa áður en hægt var að sleppa þeim, eða samtals 95 pysjur. Voru þær með olíu eða önnur óhreinindi í fiðrinu og gátu þar af leiðandi ekki haldið vatni frá líkamanum, sem er auðvitað afar mikilvægt fyrir sjófugla.

Við fengum mjög góða hjálp við hreinsun pysjanna, en Karen Lynn Velas líffræðingur hjálpaði okkur að hreinsa pysjur annað árið í röð. Hún hélt námskeið fyrir starfsólk Sæheima í hreinsun sjófugla og höfum við lært mikið og fengið góða þjálfun.

Á myndinni er Karen að sleppa lundapysju númer 95, en pysjan var í afar slæmu ástandi þegar hún kom til okkar og þurfti að hreinsa hana fjórum sinnum áður en hún varð klár í slaginn. Sem betur fer nægir oftast að hreinsa pysjurnar einu sinni. Það var því sérstaklega ljúft að sleppa þessari pysju

Nú hafa þær báðar haldið til vetrarstöðva sinna. Pysjan heldur á hafsvæðið suður af Grænlandi en Karen til Kaliforníu. Við þökkum henni fyrir alla hjálpina og kennsluna. Það var ómetanlegt að hafa hana hjá okkur og án hennar hefðum við örugglega ekki náð að hjálpa öllum þessum pysjum.

Hreinsun lundapysja

29.09.2018

Þá eru allar pysjurnar búnar að yfirgefa holurnar sínar og eigum við ekki von á fleirum í pysjueftirlitið. Alls var komið með 5.589 pysjur til okkar og er það mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins. 

Það er þó langt frá því að rólegt sé hjá starfsmönnum pysjueftirlitsins, því að talsverður fjöldi af pysjum voru með olíu eða annars konar óhreinindi í fiðrinu og þurfa hreinsunar við. Við erum svo heppin að hafa Karen Lynn Velas hjá okkur, en hún hefur verið að þjálfa starfsfólk Sæheima í að hreinsa pysjurnar. Karen hefur talsverða reynslu af hreinsun olíublautra fugla og miðlar af þeirri reynslu til okkar. Nú þegar er búið að sleppa yfir 30 pysjum sem hafa farið í gegn um hreinsunarferlið og staðist sundprófið. Annar eins fjöldi er þó enn eftir og fær vonandi frelsið í næstu viku.

Nú líður að lokum pysjutímans

20.09.2018

Pysjunum fækkar nú dag frá degi og aðeins var komið með 72 pysjur í pysjueftirlitið í dag. Greinilegt að nú líður að lokum pysjutímans og ekki eru margir dagar í að síðasta pysjan komi á vigtina hjá okkur. Heildarfjöldinn er þó kominn upp í 5507 pysjur, sem er það mesta frá upphafi eftirlitsins.

Á myndinni eru þau Jóhanna, Sebastian og Elísabet með pysjuna sína.

 

Komnar 5000 pysjur

16.09.2018

Þá eru pysjurnar orðnar meira en 5000 talsins á þessu pysjutímabili og hafa þær aldrei verið fleiri í pysjueftirlitinu. Á myndinni eru frændurnir Dagur, Ari og Halldór Björn sem komu með þessa merkilegu pysju í vigtun og mælingu.

Turnfálki

15.09.2018

Fyrir nokkru kom turnfálki um borð í Kap VE þar sem hún var að veiðum í síldarsmugunni. Áhöfnin handsamaði fálkann og gaf honum að éta og tók hann vel til matar síns. Þegar þeir komu að landi var fálkinn fluttur í Sæheima til frekari skoðunnar og aðhlynningar. Virtist hann vera heilbrigður og því var ákveðið að láta hann fá vel að éta og leyfa honum að jafna síg í nokkra daga. Líklega hefur hann verið bara þreyttur og svangur og því sest á skipið. Kristján Egilson fór með fálkann upp á hraun í dag og gaf honum frelsið á ný. Þeir félagar eru saman á myndinni sem Ruth Zholen tók við þetta tækifæri.

Komnar fleiri pysjur en í fyrra

15.09.2018

Í fyrra komu 4.814 pysjur í pysjueftirlit Sæheima og var það mesti fjöldi frá upphafi pysjueftirlitsins árið 2003. Nú er orðið ljóst að í ár verða pysjurnar enn fleiri. Nýjustu tölur frá útibúi Sæheima á Strandveginum eru 4.840 pysjur og verða þær örugglega enn fleiri í dagslok hjá þeim.

Það er vel við hæfi að Yuki Sugihara, sem þýddi bókina um litlu lundapysjuna yfir á japönsku, hafi verið ein af þeim sem komu með pysju í eftirlitið í dag. Á myndinni er hún ásamt fjölskyldu sinni með pysjuna sem þau fundu. 

Komnar yfir 4000 pysjur

13.09.2018

Enn fjölgar pysjunum í pysjueftirliti Sæheima og er nú heildarfjöldi pysja kominn upp í 4193 pysjur. Í dag var komið með 390 pysjur í eftirlitið. Síðustu átta daga hafa komið yfir 300 pysjur á dag. Það er því búið að vera ansi fjörugt hjá okkur og erum við auðvitað mjög ánægð með það og vonum að fjörið haldi áfram og helgin verði góð pysjuhelgi.

Stærsta pysjan og nýtt heimsmet

09.09.2018

Dagurinn í dag var heldur betur góður í pysjueftirlitinu. Komið var með stærstu pysju ársins, sem var 368 grömm að þyngd. Það var Jón Ólafur Sveinbjörnsson sem fann pysjuna neðst á Kirkjuveginum. 

Einnig var heimsmet í pysjuvigtun slegið enn eina ferðina og voru vigtaðar samtals 532 pysjur og er því heildarfjöldinn kominn upp í 2755 pysjur.

Heimsmet

06.09.2018

Í dag voru vigtaðar 472 pysjur í pysjueftirliti Sæheima og hafa aldrei fleiri pysjur komið á vigtina hjá okkur á einum degi. 

Á myndinn er Johnson fjölskyldan, sem kom alla leið frá San Diego til að taka þátt í pysjuævintýrinu með okkur. Þau fundu alls 7 pysjur og voru alsæl með það.

Pysjueftirlitið flytur

02.09.2018

Pysjueftilitið hefur nú sprengt utan af sér húsnæði Sæheima. Því mun eftirlitið flytja í "Hvíta húsið" að Strandvegi 50. Gengið er inn frá portinu bak við húsið og opnunartíminn er klukkan 13-18 alla daga meðan pysjurnar eru að fljúga í bæinn. Fram að þeim tíma verður hægt að koma með pysjur í Sæheima. Þeir sem ekki hafa tök á því að koma til okkar geta einnig vigtað pysjurnar sínar heima og sent okkur upplýsingarnar um þyngd, fundarstað, finnendur og hvenær pysjan fannst

Komið var með samtals 184 pysjur um helgina í pysjueftirlitið og heildarfjöldinn er því kominn upp í 281 pysju. Á myndinni eru þær Jóhanna Vigdís og Bjartey Ósk.

Hröð aukning í fjölda pysja

31.08.2018

Pysjunum hefur nú fjölgað dag frá degi og í dag var komið með 50 pysjur í pysjueftirlit Sæheima. Þar með hefur heildarfjöldi pysja þetta árið rúmlega tvöfaldast, en í lok gærdagsins var heildarfjöldinn 47 pysjur. Allt virðist því stefna í góða pysjuhelgi. Á myndinni eru eru þær Ingibjörg Emilía og Sigfríður Sól.

Fyrsta pysjan

24.08.2018

Fyrsta pysjan kom á vigtina í pysjueftirlitinu í dag. Það voru þær Guðrún og Gígja starfsmenn Sæheima sem fundu pysjuna í gærkvöldi og á myndinni má sjá Guðrúnu ásamt litlu frænku sinni Evu Laufey Leifsdóttur sem ætlaði að aðstoða þær við að sleppa pysjunni 

Tóti

01.08.2018

Mikil sorg ríkir nú í Sæheimum því hann Tóti okkar hefur kvatt okkur. Hans verður sárt saknað bæði af starfsfólkinu og lundavinum hans á safninu. Tóti var hvers manns hugljúfi og átti aðdáendur um allan heim sem munu sömuleiðis sakna þessa ljúfa lunda. Tóti var lítill lundi, með stórt hjarta sem gladdi marga.

Með sorg í hjarta kveðjum við okkar ástkæra Tóta, minning hans lifir.

Opening hours / Opnunartími

30.07.2018

During the festival (4 th of August - 7th of August) the museum is open from 13:00 to 15:00. 

Athugið breyttan opnunartíma yfir Þjóðhátíðina. Opið er frá föstudegi til mánudags kl. 13:00 - 15:00.

Veränderte Öffnungszeiten während des Nationalfestivals. Motag - Freitag 13:00-15:00.

Changement des horaires pendant la fête nationale des îles Vestmann. Du vendredi 4 août au lundi 7 août le musée est ouvert de 13h à 15h.