News

20.09.2016

667

Búningaskipti hjá Tóta

Lundinn eins og við þekkjum hann er í sínum litríka sumarbúningi, sem er í raun varpbúningur hans. Lundar skipta um búning bæði á vorin og haustin og eru talsvert öðruvísi útlits yfir vetrartíman.

Lundinn okkar hann Tóti er staðráðnn í því að nú sé komið haust og er kominn vel inn í búningaskiptin. Eins og sést á myndinni þá flagna þunnar plötur af goggi hans. Hvíta spöngin við rót goggsins er fallin af og guli bletturinn í munnvikinu hefur misst lit sinn og á eftir að skreppa saman. Plöturnar umhverfis augun munu einnig falla af. Smám saman mun hann síðan dökkna í vöngum.

Það er gaman að fylgjast með þessum breytingum eiga sér stað. Hjá villtum lundum eiga þær sér stað þegar þeir hafa yfirgefið varpstöðvarnar og verðum við því ekki vitni að þeim.


Back