News

01.09.2016

463

Pysjueftirlitið fer vel af stað

Fyrsta pysjan kom í pysjueftirlit Sæheima þann 24. ágúst. Næstu daga á eftir komu einstaka pysjur, en æ fleiri síðustu dagana. Í gær komu 17 pysjur í eftirlitið og 27 pysjur í dag. Krakkarnir hafa verið dugleg að koma með pysjurnar til okkar í Sæheima og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir enda er eftirlitið að gefa okkur mjög góðar upplýsingar um fjölda og ástand pysjanna ár hvert.

Pysjurnar hafa nánast allar verið vel gerðar og er meðalþyngd þeirra um 252 grömm. Það er mjög mikilvægt að sleppa þeim strax daginn eftir að þær finnast. Ef þeim er haldið lengur léttast þær hratt og verða slappar. Þær verða stressaðar í þessu nýja umhverfi sem pappakassinn er og setja oft mikla orku í að sleppa úr prísundinni. Sérstaklega ef það eru fleiri en ein pysja í kassanum. Best er að hafa aðeins eina pysju í hverjum kassa. Einnig er mjög mikilvægt að meðhöndla pysjurnar  ekki mikið því að við það geta þær misst olíuna úr fiðrinu sem er þeim svo mikilvæg til að halda vatni frá líkamanum. Pysjur sem er haldið lengi og mikið meðhöndlaðar eiga ekki mikla möguleika á að lifa.

Safnið verður opið frá kl. 10 til 17 alla daga út september. Þeir sem ekki ná að koma á þessum tíma geta líka viktað pysjurnar heima og sent okkur síðan upplýsingar um þyngd, dagsetningu og fundarstað með tölvupósti á margret@setur.is 


Back